24.04.1970
Efri deild: 77. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1303 í B-deild Alþingistíðinda. (1729)

43. mál, Fjárfestingarfélag Íslands

Frsm. meiri hl. (Ólafur Björnsson):

Herra forseti. Ég skal ekki vera langorður, en það eru aðeins örfáar athugasemdir, sem ég vil gera í tilefni af þeim ræðum, sem hér hafa verið fluttar af andstæðingum þessa frv.

Hv. 4. þm. Norðurl. e. taldi, að óþarfi væri að koma hér á fót nýrri fjárfestingarstofnun, með tilliti til þess, hvað fjárfestingarstofnanir eru þegar margar. Það er út af fyrir sig rétt hjá honum, að nýtt fjármagn kemur ekki til sögunnar með því einu, að komið sé á fót nýrri fjárfestingarstofnun. Um það má auðvitað deila, hve mikið eigi að dreifa ákvörðunarréttinum í þessu sambandi. Vissulega er hægt að dreifa honum of mikið. Stofnanir, sem fjárfestingarlán veita og eru lítils megnugar, koma auðvitað ekki nema að takmörkuðu gagni, og má þá oft og tíðum færa rök að því, að rétt væri að sameina slíkar stofnanir, svo að þær hefðu meiri möguleika á að sinna þeim verkefnum, sem þeim eru ætluð. Á hinn bóginn get ég ekki tekið undir það sjónarmið hv. þm., að heppilegasta fyrirkomulagið væri það að koma á fót einni fjárfestingarstofnun, sem ætlað væri að taka allar ákvarðanir. Þó að hægt sé að dreifa völdunum í þessum efnum of mikið, þá er líka hægt að færa þau allt of mikið saman. Það er nú einu sinni þannig, að betur sjá augu en auga. Ég tel, að dreifing fjárfestingarvaldsins sé að vissu marki æskileg og nauðsynleg. Það þarf ekki að koma í veg fyrir almenna hagstjórn í fjárfestingarmálum í einni eða annarri mynd, þó að það séu fleiri aðilar, sem ákvarðanir taka um fjárfestingu. Þá er ekkert því til fyrirstöðu, að hægt sé að setja, ef stjórnvöldum sýnist það nauðsyn, almennar reglur, sem öllum aðilum er þá gert að fara eftir.

Þetta er ekki aðalatriðið í sambandi við það mál, sem hér er til umr., að mínu áliti, og má í fyrsta lagi á það benda, að það er ekki um það að ræða í þessu frv., þótt að lögum yrði, að þvinga þá aðila, sem gert er ráð fyrir að leggi fram fé til þessarar stofnunar, til slíks. Það er þeim algerlega frjálst, bæði forgangsaðilum, bönkum, opinberum sjóðum o. s. frv., sem heimilað er að leggja fram fjármuni. Það er því undir ákvörðunarvaldi þessara aðila komið, hvort þeir telja hagkvæmt að styðja þetta félag. Þar er ekki um neina þvingun að ræða. Aðalatriðið er það, að þeim verkefnum, sem þessu félagi eru falin skv. frv., hefur ekki verið sinnt af öðrum fjárfestingaraðilum, og að áliti okkar, sem styðjum þetta frv., er það líklegasta og fljótvirkasta leiðin til árangurs í þessu efni, að komið verði á fót nýrri stofnun, sem annast þau, vegna þess að meira aðkallandi er en áður hefur verið, að þessum verkefnum sé sinnt, og aðrar stofnanir hafa ekki sinnt þeim fullnægjandi.

Mér skildist, að við hv. 4. þm. Norðurl. e. værum sammála um, að ekki sé hægt að treysta því, að þessar stofnanir annist þau hlutverk, sem hér er um að ræða, og þess vegna verði að koma á fót nýrri stofnun, því að eins og á hefur verið bent, eru möguleikar á því að fá hingað í fyrsta lagi erlent fjármagn og í öðru lagi innlent fjármagn til þessarar starfsemi, sem annars mundi ef til vill ekki vera til ráðstöfunar, þó að reynslan ein fái auðvitað úr því skorið, að hve miklu leyti svo verður.

Hv. 4. þm. Norðurl. e. taldi óþarfa að koma á fót nýrri stofnun til þess að tryggja starfskrafta ungra manna til þeirra hluta, sem hér væri um að ræða, og benti í því sambandi á Rannsóknaráð, forustu þess og starfskrafta. Nú er þar auðvitað um önnur mál að ræða og annars konar rannsóknarstarfsemi en gert er ráð fyrir, að einkum mundi eiga sér stað á vegum Fjárfestingarfélagsins. Það er út af fyrir sig rétt, að sú rannsóknarstarfsemi, sem hér er stunduð, er fyrst og fremst unnin af yngri mönnum. Þetta leiðir beinlínis af því, að yngri mennirnir kunna betur til þeirra starfa, það verð ég að viðurkenna, þó að mér sé það e. t. v. ekki að öllu leyti ljúft. Það er nú einu sinni þannig, að yngri mennirnir kunna betur til þessara starfa en þeir eldri vegna þeirra stórfelldu framfara, sem orðið hafa í allri rannsóknarstarfsemi, bæði á sviði raunvísinda og á sviði efnahagsmála, á allra síðustu árum. Það eru aðeins yngri mennirnir, sem í mjög mörgum tilvikum hafa fullt vald yfir þeirri tækni sem til slíks þarf. En það er ekki þetta, sem að mínu áliti er aðalatriðið í þessu sambandi, heldur hitt, að ég dreg mjög í efa, að gamlar stofnanir, sem áratugum saman hafa hjakkað í sama fari með sína starfsemi, hafi skilning á nauðsyn þeirra verkefna, sem hér er um að ræða. Þetta finnst mér vera kjarni málsins, þegar taka á afstöðu til þess, hvort réttmætt sé að samþ. þetta frv.

Að öðru leyti sé ég ekki í sjálfu sér ástæðu til þess að gera frekari aths. við ræðu hv. 4. þm. Norðurl. e. Hann talaði um það, að okkur hefði ekki skort möguleika á því að fá erlent fjármagn. Við höfum að vísu oft haft minna af því á milli handa en við hefðum talið þörf fyrir, en hvað það atriði snertir, þá býst ég við, að við hv. þm. séum sammála um það, að þó að ekki hafi verið komizt hjá því að taka erlent lánsfé, þá sé það í rauninni neyðarúrræði, það æskilegasta væri að auka fjármagnsmyndunina innanlands, þannig að hægt væri að komast hjá því að auka mjög lántökur erlendis. En til þess að gera mætti sér góðar vonir í því efni, þyrfti verðlagsþróunin á næstu misserum að verða önnur en hún hefur verið, svo að af því leiðir, að við getum varla bandað hendinni á móti erlendu lánsfé í allra næstu framtíð, sem fáanlegt væri með góðum kjörum. En eins og bent hefur verið á, bæði af mér og hv. 7. þm. Reykv., skapar það að koma slíkri stofnun á fót vissa möguleika á því að fá erlend lán, því að sú stofnun, sem einkum hefur verið nefnd í þessu sambandi, International Finance Corporation, hefur nú einu sinni því hlutverki að gegna að efla einkarekstur í þeim löndum, þar sem hann á erfitt uppdráttar, og af þeim ástæðum má í samræmi við hlutverk stofnunarinnar einmitt gera ráð fyrir því, að hún sé fúsari til þess að lána slíku félagi heldur en opinberum aðilum, það síðara telur hún utan síns verkahrings.

Varðandi ræðu hv. 11. þm. Reykv. eru það aðeins tvö atriði, sem ég vildi leyfa mér að leiðrétta. Hann vitnar í Bandaríkin í þessu sambandi og segir, að þar í landi séu deilur um þau félög, sem þar gegna svipuðum hlutverkum, hvort starfsemi þeirra brjóti ekki á bága við löggjöf þar í landi, sem bannar myndun hringa o. s. frv. Ég rengi það ekki, að þarna muni vera rétt með farið hjá hv. þm. En mér finnst það óraunhæft að bera okkur saman við Bandaríkin í þessu efni, því að þeim verkefnum, sem gert er ráð fyrir, að þetta félag sinni hér, er þar á fullnægjandi hátt sinnt af öðrum aðilum. Einkafyrirtæki þar eru svo sterk, að þau hafa fullt fjárhagslegt bolmagn til þess að sinna sjálf þeim verkefnum, sem um er að ræða, svo að þar í landi er ekki sama þörf á því, að það opinbera styðji slíkan félagsskap, eins og hér mundi verða. Aftur á móti varðandi Norðurlöndin, sem hv. þm. minntist einnig á, þá er það svo, eftir því sem ég bezt veit, — og ég hef átt þess kost að kynna mér skýrslu Þorvarðar Alfonssonar, sem minnzt er á í grg. fyrir frv., — að þar þykir um þarflega starfsemi að ræða, sem í samræmi við þessa skýrslu, ekki sízt í Finnlandi, þykir rétt að efla með ráðum og dáð.

Ég get satt að segja ekki skilið það sjónarmið hv. þm., að samvinnufélögin yrðu útilokuð frá því að njóta stuðnings samkv. þessu frv. Það er að vísu talað þar um hlutafé og hlutafjárútboð, en ég get ekki skilið 1. gr. frv. öðruvísi en þannig, að sú fyrirgreiðsla, sem þarna er um að ræða, geti bæði komið til góða einstaklingsfyrirtækjum og einnig samvinnufélögum. Ég legg allt annan skilning í efni þessa frv. en hv. þm. Hitt er svo annað mál, að þegar um er að ræða nýjan og áhættusaman atvinnurekstur, þá er það auðvitað spurning, hvort samvinnufélagsskapurinn hentar. Það er ekkert í þessu frv. að mínu áliti, sem bannar það, að ef slík fyrirtæki eru stofnuð með samvinnusniði, þá geti þau notið fyrirgreiðslu eins og önnur.

En hitt er annað mál, að það er á sérstökum sviðum, eins og t. d. varðandi dreifingu nauðsynjavöru o. s. frv., sem samvinnuhreyfingin hefur sérstaklega haslað sér völl. Þegar um áhættusöm fyrirtæki er að ræða, hentar hlutafélagsformið yfirleitt betur til þess að safna til þeirra nauðsynlegu fjármagni. Ég veit ekki annað en þess séu a. m. k. mörg dæmi, að þegar samvinnuhreyfingin hér á landi, eða Samband ísl. samvinnufélaga, hefur lagt inn á þær brautir, hafi verið stofnuð félög í tengslum við samvinnuhreyfinguna, og þau hafi þá verið með hlutafélagsformi.