20.11.1969
Neðri deild: 16. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1309 í B-deild Alþingistíðinda. (1738)

94. mál, almannatryggingar

Flm. (Bjartmar Guðmundsson):

Herra forseti. Á þskj. 110 hef ég leyft mér að flytja smávægilega breytingu á lögum um almannatryggingar. Þetta er hvorki viðamikil breyting né líkleg til þess að hafa teljandi áhrif á útgjöld Tryggingastofnunarinnar, en eigi að síður tel ég mjög nauðsynlegt að gera þessa lagfæringu á lögunum.

16. gr. laganna heimilar tryggingaráði ýmiss konar úrskurði til hagsbóta fyrir fólk, sem lögin taka ekki beint til. Eitt af því, sem 16. gr. heimilar tryggingaráði að gera, er að úrskurða að greiða skuli einstæðum mæðrum, sem eru öryrkjar, barnalífeyri, þ. e. óafturkræfan barnalífeyri. Nú hefur það komið á daginn, að ef einstæð móðir, sem nýtur þessa barnalífeyris, andast, þá fellur þessi greiðsla niður. Þetta er bersýnilega ekki tilætlun löggjafans, og þess vegna flyt ég hér þá till., að inn í lögin verði tekin ákvæði um það, að þessi greiðsla geti haldið áfram, eins og sjálfsagt er, þó að móðirin andist.

Ég ætla, að það þurfi ekki mikinn rökstuðning fyrir því, hvað þetta er sjálfsagður hlutur, enda hefur Tryggingastofnunin sjálf fundið fyrir því, að þetta er mjög óeðlilegt, að það skuli ekki vera heimild til þess að halda slíkum greiðslum áfram.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta, en legg til, að þessu frv. verði vísað til 2. umr. og heilbr.- og félmn. Það munu vera fleiri smávægilegar brtt. við tryggingalögin, sem fyrir þessu þingi liggja, og eðlilegt að þessi breyting verði tekin inn, a. m. k. ef einhverjar breytingar verða gerðar á lögunum.