22.01.1970
Neðri deild: 41. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1310 í B-deild Alþingistíðinda. (1742)

94. mál, almannatryggingar

Frsm. (Guðlaugur Gíslason):

Herra forseti. Það frv., sem hér liggur fyrir, er einnig um breyt. á l. um almannatryggingar. Flm. þess er hv. 11. landsk. þm. og er frv. um breyt. á 4. mgr. 16. gr. 1., varðandi barnalífeyri með börnum einstæðra mæðra, ef móðirin er öryrki. Segir svo um þetta í grg. með frv.:

„Samkv. ákvæðum tryggingalaganna, 16. gr., hefur tryggingaráð heimild til að ákveða, að greiddur sé barnalífeyrir með börnum einstæðra mæðra, ef móðirin er öryrki. Hins vegar er talið, að lögin leyfi ekki að greiða barnalífeyrinn áfram, ef móðirin fellur frá. Með engu móti getur verið, að þetta sé tilætlun löggjafans. Það hlýtur að vera smíðagalli, sem laga þarf.“

Heilbr.- og félmn. fékk einnig þetta frv. til athugunar og sendi það Tryggingastofnun ríkisins til umsagnar, og mælir Tryggingastofnunin með samþykkt þess og telur þá breytingu, sem hér er lagt til, að gerð verði, eðlilega. Heilbr.- og félmn. mælir með því, að frv. verði samþ. óbreytt.