16.10.1969
Neðri deild: 3. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 219 í C-deild Alþingistíðinda. (2426)

4. mál, Framkvæmdasjóður Íslands

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Eins og fram kom í ræðu hv. seinasta ræðumanns, getur hér verið um mjög stórt og víðtækt mál að ræða — sem sagt það, hve langt skuli gengið í því að þjóðnýta einstök fyrirtæki að meira eða minna leyti. Hér er nefnilega opnuð heimild til þess, sem var reyndar í l. um Framkvæmdabanka á sínum tíma, að ríkisstofnun geti keypt hlutabréf í einstökum fyrirtækjum án þess að það sé nokkru nánar kveðið á um, hversu langt skuli gengið í þeim efnum. Ég get lýst því sem minni persónulegri skoðun, að ég tel að það geti átt við undir vissum kringumstæðum, að ríkið annist rekstur vissra fyrirtækja, eins og það gerir með Áburðarverksmiðjuna, Síldarverksmiðjur ríkisins og ýmis fleiri fyrirtæki, og einnig það, að ríkið geti verið meðeigandi að vissum fyrirtækjum, ef það þykir réttmætt. En mér finnst hins vegar, að hér sé um svo stór og veigamikil mál að ræða, að það sé mjög hæpið að leggja það á vald einstakra sjóða eða ríkisstofnana að ákveða, hve langt skuli gengið í þessum efnum hverju sinni. Það sé eðlilegast, að Alþ. sjálft fjalli um það og ákveði það, ef út á slíka braut er farið. Þess vegna tek ég undir það með hv. seinasta ræðumanni, að það þurfi að fara fram nokkuð ýtarleg athugun á því, með hvaða hætti þátttaka ríkisins eigi að vera í rekstri atvinnufyrirtækja, en það sé erfitt eða vafasamt að leggja það í vald einstakra sjóða eða sjóðsstjórna að ákveða, hve langt skuli gengið í þeim efnum

Ég vildi í framhaldi af þessu beina fsp. til hæstv. ráðh.: Mér er ekki alveg ljóst, hvað átt er við í frv., þegar talað er um að veita Framkvæmdasjóði heimild til að breyta lánum í hlutafé. Eins og l. um Framkvæmdasjóð er nú háttað, er Framkvæmdasjóði ekki heimilt að veita lán nema til fjárveitingarsjóða eða fjárveitingarstofnana. Framkvæmdasjóður má ekki, eins og l. eru í dag, veita lán til einstakra fyrirtækja. Hitt er það, að Framkvæmdasjóður mun hafa tekið við ýmsum skuldum eða lánum, sem Framkvæmdabankinn á sínum tíma veitti einstökum fyrirtækjum. Ég vildi þess vegna spyrja hæstv. fjmrh. að því, hvort hér sé eingöngu átt við þau lán, sem Framkvæmdabankinn hafi veitt og Framkvæmdasjóður hefur tekið við, eða hvort hér sé stefnt að miklu víðtækari heimild, þannig að það megi að einhverju leyti breyta þeim lánum, sem Framkvæmdasjóður hefur veitt fjárfestingarstofnunum, í hlutafé vissra fyrirtækja. En það sést ekki fullkomlega á orðalagi frv., eins og það er nú, við hvaða lán er átt, — hvort það er eingöngu átt við þau lán, sem Framkvæmdabankinn hefur veitt, ellegar hvort þetta á einnig að ná til þeirra lána, sem Framkvæmdasjóður hefur veitt fjárfestingarsjóðum, og þeir svo endurlánað til vissra fyrirtækja.

Þá er það sú heimild, sem hér er veitt, til að breyta lánum í hlutafé og leggja fram hlutafé. Hún er eingöngu bundin við endurskipulagning á fjárhag þjóðhagslega mikilvægra fyrirtækja. Manni sýnist, að samkv. þessu eigi hér eingöngu að vera um að ræða eldri fyrirtæki, sem af einhverjum ástæðum eiga í fjárhagslegum erfiðleikum, og þetta eigi að vera gert til þess að aðstoða þau í rekstrinum. Annars staðar er yfirleitt sá háttur á, þar sem eru slíkir sjóðir eða stofnanir eins og Framkvæmdasjóður og ríkið telur rétt að gerast aðili eða meðeigandi að fyrirtækjum, þá er það fyrst og fremst bundið við ný fyrirtæki en ekki gömul. Manni virðist, að þetta frv. beri þess merki, að hér sé fyrst og fremst um það að ræða að bjarga einhverjum gömlum fyrirtækjum, en ekki að eiga þátt í því, að ný fyrirtæki rísi á legg, þar sem einstaklingar treysta sér ekki til að hafa forystu um reksturinn.

Hæstv. ráðh. minntist á það, að Framkvæmdasjóður hefði, þó að bein lagaheimild hefði ekki verið fyrir hendi, farið inn á þá braut, sem frv. gerir ráð fyrir við endurreisn vissra fyrirtækja eða viss fyrirtækis. Ég hefði áhuga á að vita, hvort hæstv. ráðh. gæti upplýst það, hvaða fyrirtæki væri hér um að ræða, og eins hvort þetta frv. væri kannske flutt vegna þess, að það væri í ráði að veita einhverjum öðrum fyrirtækjum slíka fyrirgreiðslu.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að hafa þessi orð fleiri að þessu sinni, en ég tek undir það aftur með hv. 4. þm. Vestf., að ég held, að hér sé um mál að ræða, sem þurfi vandlega athugun Alþ., áður en endanlega er frá því gengið.