24.11.1969
Neðri deild: 17. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 366 í C-deild Alþingistíðinda. (2609)

81. mál, áætlunarráð ríkisins

Flm. (Magnús Kjartansson) :

Herra forseti. Það vill oft við brenna, þegar við Íslendingar ræðum um almenn þjóðmál og efnahagsmál, að við fylgjum býsna fast eftir ýmsum erlendum kenningum og vitneskju um erlenda reynslu, sem okkur er tiltæk. Við gleymum því þá nokkuð oft, að aðstæður hér á landi eru á margan hátt ólíkar því, sem tíðkast í flestum löndum öðrum, og að engan veginn er víst, að kenningar, sem gefið hafa góða raun í annars háttar þjóðfélögum, geri það einnig hjá okkur. En þetta er vandamál, sem við þurfum að gefa sérstakan gaum, vegna þess að fræðikenningar, hversu vel sem þær kunna að vera unnar, koma ekki að neinum notum, nema þær henti hinum sérstöku aðstæðum í okkar landi.

Það er t. d. afar fróðlegt að velta því fyrir sér, hvernig efnahagskerfi Íslendinga hefur þróazt, síðan efnahagsleg völd voru flutt inn í landið. Sú þróun hefur í rauninni orðið allt önnur en forystumenn þjóðarinnar ætluðust til á þessu tímabili og raunar mjög frábrugðin því, sem menn hafa haldið fram í opinberum ræðum, að þeir væru í raun og veru að gera. Þegar Íslendingar fengu heimastjórn á sínum tíma, var kapítalisminn að ryðja sér til rúms á Íslandi, og á það reyndi, hvort hann megnaði sem efnahagskerfi að tryggja sjálfstætt og blómlegt þjóðfélag á Íslandi. Það verkefni, sem þá blasti við, var fyrst og fremst að hagnýta fiskimiðin umhverfis landið og að gera verzlunina að fullu innlenda. Þróunin varð mjög ör á vissum sviðum. Það er t. d. fróðlegt að rifja það upp nú, að 1927 var hér í Reykjavík einn togari á hverja 1000 íbúa. Hliðstætt hlutfall nú væru 80 togarar í Reykjavík, ef annað hefði ekki breytzt. En þrátt fyrir þessa öru þróun á ýmsum sviðum kom fljótt í ljós, að óheftur kapítalismi dugði ekki sem efnahagskerfi til þess að tryggja atvinnuöryggi og samfellda þróun í efnahagsmálum. Þær vonir, sem menn höfðu bundið við reynslu annarra þjóða, dugðu ekki hér, og því olli að sjálfsögðu margt og ekki sízt smæð þjóðarinnar og það, hversu hinir einhæfu atvinnuvegir voru háðir bæði veðráttu og breytilegu verði á erlendum mörkuðum. Sérstaklega reyndi á þetta, þegar afleiðingar heimskreppunnar bárust hingað upp úr 1930 og höfðu í för með sér hrun fjölmargra atvinnufyrirtækja, ógnarlegt atvinnuleysi og mjög þungbæran skort, raunar fullkomið neyðarástand á sumum sviðum. Þá þegar var gripið til þess ráðs að takmarka þau kapítalísku lögmál, sem menn höfðu áður haft tröllatrú á. Stjórnarvöld gripu þá þegar til innflutningshafta, vegna þess að gjaldeyrisframleiðslan var miklu minni en eftirspurnin, og til þess að unnt væri að framkvæma höftin varð að skipa útflytjendum með lagaboði að afhenda bankastofnunum gjaldeyrinn, en hann hafði áður verið eign þeirra, sem öfluðu hans. Þessi þjóðnýting á gjaldeyrisöfluninni hefur síðan haldizt allt til þessa dags, og þau höft, sem þarna voru tekin upp, hafa aftur og aftur skotið upp kollinum í hinum fjölbreytilegustu myndum, eins og menn muna.

Þegar í þessum fyrstu tilraunum til þess að bjarga frá neyðarástandi breyttist hagkerfi landsmanna smátt og smátt mjög verulega. Þegar á árunum fyrir síðustu heimsstyrjöld var svo ástatt hér, að aðild ríkisins að efnahagskerfinu var orðin mun meiri en í nokkru öðru landi í Vestur-Evrópu. Allir bankarnir voru í eigu ríkisins ásamt mörgum meiri háttar fiskiðnaðarfyrirtækjum, og meginverkefni Alþ. var ár eftir ár beinar íhlutanir um atvinnumál og efnahagsmál. Reynslan sjálf var að sanna, að þau sérstöku vandamál, sem stöfuðu af fámenni og fjármagnsskorti Íslendinga, voru ekki leysanleg með aðferðum hins frjálsa kapítalisma; ríkisvaldið hafði sívaxandi hlutverki að gegna. Engu að síður héldu stjórnmálamenn áfram að flytja ræður um það, að þeir væru að framkvæma stefnu, sem hélt í þveröfuga átt við það, sem í raun og veru var að gerast í landinu. Allar þessar breytingar, þessi sívaxandi afskipti ríkisins voru framkvæmdar af Alþ., þar sem borgaralegir flokkar höfðu mjög mikinn meiri hl.

Þessar aðgerðir ríkisins voru raunar fyrst og fremst neyðarráðstafanir og höft til þess að bjarga því, sem bjargað yrði. Hins vegar voru það verkalýðshreyfingin og verkalýðsflokkarnir, sem báru fram kröfur um jákvæða áætlunarstefnu í stað hafta, ekki endalaus viðbrögð við ótíðindum, heldur markvissa framfarastefnu undir forystu ríkisvaldsins. Þessi stefna verkalýðshreyfingarinnar var fyrst mörkuð á skýran hátt af Alþfl. í fjögurra ára áætlun, sem hann samdi og gerði að aðalmáli sínu í kosningunum 1934. Þar var m. a. lögð áherzla á eftirfarandi atriði, með leyfi hæstv. forseta:

„Að hrundið verði þegar í stað framkvæmd með löggjöf og framtaki hins opinbera, auknum atvinnurekstri og framleiðslu eftir nákvæmri áætlun, er gerð sé til ákveðins tíma, fjögurra ára, og hafi það markmið að útrýma með öllu atvinnuleysinu og afleiðingum kreppunnar og færa nýtt fjör í alla atvinnuvegi þjóðarinnar með aukinni kaupgetu og neyzlu hinna vinnandi stétta og auknum markaði innanlands. Stofnuð sé ráðgefandi nefnd sérfróðra manna þingi og stjórn til aðstoðar, er geri nákvæmar áætlanir um allar opinberar framkvæmdir á tímabilinu og stjórni vísindalegum rannsóknum til undirbúnings þeim og geri jafnframt till. um, hvernig komið verði fastri stjórn og skipulagi á allan þjóðarbúskapinn, jafnt opinberar framkvæmdir og fyrirtæki, sem atvinnurekstur einstaklinga, svo að þau verði sem hagkvæmast rekin og aukin með hagsmuni almennings fyrir augum (planökonomi). Smáatvinnurekendur í framleiðslu, iðnaði og verzlun, sem starfar á samkeppnisgrundvelli eða með samvinnusniði og eigendur starfa að sjálfir, skal verndaður gegn einokunarhringum og að honum hlúð, enda sé haft með honum nauðsynlegt eftirlit.“

Þessi stefnuskrá Alþfl. og barátta sú, sem háð var henni til framdráttar, hafði mikil áhrif, enda þótt sú heildarskipan, sem gerð var till. um, næði ekki fram að ganga. Slík fastatök komu ekki til fyrr en í lok síðari heimsstyrjaldar, eftir að lýðveldi hafði verið stofnað á Íslandi og menn voru gagnteknir af þeim vilja að efla efnahagslegar undirstöður þjóðfélagsins með samvinnu aðalstéttanna. Haustið 1944 samþykktu Sóslfl., Alþfl. og Sjálfstfl. l. um nýbyggingarráð, sem fólu í sér mjög veigamikil spor í átt til áætlunarbúskapar. Í 2 gr. þeirra l. er komizt svo að orði, með leyfi hæstv. forseta:

Ríkisstj. skipar fjögurra manna n., er nefnist nýbyggingarráð. Hlutverk þess er að búa til heildaráætlun, fyrst um sinn miðaða við næstu 5 ár um nýsköpun íslenzks þjóðarbúskapar. Skal þar áætlað, hver atvinnutæki, samgöngutæki, byggingar og annað þurfi til sjávar og sveita, til þess að allir Íslendingar geti haft vinnu við sem arðbærastan atvinnurekstur, svo og hvernig bezt verður fyrir komið innflutningi fáanlegra tækja og efnis á næstu árum með það fyrir augum að hagnýta sem bezt vinnuafl þjóðarinnar og auðlindir landsins. Þá skal nýbyggingarráð gera áætlanir um, hvar tækin skulu staðsett og till. um byggingar og aðrar framkvæmdir í því sambandi. Nýbyggingarráð hlutast til um, að slík tæki verði keypt utanlands eða gerð innanlands svo fljótt sem auðið er, og hefur milligöngu fyrir þá aðila, sem þau vilja kaupa og þess óska.“

ríkisstj., sem tók sér fyrir hendur að framkvæma þessa stefnu, nýsköpunarstjórnin, setti sér það mark að endurnýja atvinnukerfi þjóðarinnar gersamlega. Sjálf ríkisstj. hafði forystu um að kaupa 32 nýja togara til landsins, og þegar einkaauðmagnið reyndist þess ekki megnugt að taka við þessum togurum, voru stofnaðar bæjarútgerðir og þær gerðu út 2/3 þessa nýja flota. Bátaflotinn var endurnýjaður á hliðstæðan hátt, enn fremur fiskiðnaður og farskipafloti. Á þessu tímabili voru á Íslandi mjög veruleg drög að áætlunarbúskap og það, sem þá var gert, hefur verið undirstaða efnahagskerfisins á þeim aldarfjórðungi, sem síðan er liðinn.

En eftir þau umskipti, sem þannig voru framkvæmd, blasti við efnahagskerfi, sem er næsta einstakt í sinni röð. Bankar og lánastofnanir þjóðarinnar eru að langmestu leyti í ríkiseign. Allar stærstu verksmiðjur landsins eru í ríkiseign, þar á meðal síldarverksmiðjur, áburðarverksmiðja og sementsverksmiðja að ógleymdum raforkuverunum. Umtalsverður hluti af fiskveiðiflota og fiskiðnaði er í eigu bæjarfélaga eða samvinnufélaga. Ef allt atvinnukerfið er tekið, kemur í ljós, að hlutur einkaauðmagnsins í framleiðslukerfi þjóðarinnar er ekki nema um það bil þriðjungur. Þar við bætist, að á Íslandi er naumast um að ræða nokkurt einkafjármagn í peningum. Lánsfé bankanna er að langmestu leyti eigin eign, eign sparifjáreigenda eða opinberra sjóða. Því verða einkaatvinnurekendur að leita á náðir hins opinbera, þegar þá skortir fé til fjárfestingar eða rekstrar, einkafjármagnið á Íslandi er þannig ákaflega ósjálfstætt.

Hinn félagslegi þáttur í atvinnu- og efnahagslífinu er því miklum mun umfangsmeiri á Íslandi en í nokkru öðru landi Vestur-Evrópu. Og í rauninni þyrfti engar meiri háttar breytingar á núverandi kerfi til þess að taka upp fullgildan áætlunarbúskap. Kerfið hefur sprottið upp vegna þess, að þetta litla þjóðfélag hefur gert kröfur til þess, að þannig sé á málum haldið. Borgaraflokkarnir hafa verið knúnir til þess af aðstæðunum að koma á þessu félagslega kerfi gegn vilja sínum og gegn fræðikenningum sínum.

En afleiðing af þessari tvískiptingu er sú, að hinn félagslegi þáttur efnahagskerfisins er undir stjórn manna, sem ekki trúa sjálfir á félagslegt frumkvæði. Ríkisbankarnir eru undir stjórn manna, sem umfram allt mundu vilja hafa einkabanka. Verksmiðjur ríkisins undir stjórn manna, sem telja, að einkaaðilar ættu að eiga þær. Stærsta togaraútgerðin á Íslandi undir stjórn manna, sem dásama einkarekstur. Þess vegna er hinn opinberi geiri á Íslandi stöðugt sveigður undir hagsmuni einkafjármagnsins. Enda þótt einkafjármagnið skorti sjálfstæð, efnahagsleg völd, þá hefur það stjórnmálavöld, sem það getur hagnýtt til þess að ráða yfir kerfinu öllu. Þetta er meginandstæðan í öllu efnahagslífi Íslendinga, og þessi andstæða hefur stuðlað að mjög miklu öryggisleysi í allri fjármálastjórn.

Í átökum við verkalýðshreyfinguna hafa atvinnurekendur t. d. aðeins haldið velli með því að hagnýta sér pólitísk yfirráð yfir hinum félagslega geira. Ein meginaðferðin hefur verið samfelld og mjög stórfelld verðbólga. Hún hefur á árunum eftir styrjöldina numið að jafnaði um 10% á ári og verið sum árin allt upp í 20%. Með því að hagnýta þessa verðbólgu hafa atvinnurekendur jafnan velt af sér verulegum hluta af kauphækkunum þeim, sem þeir hafa samið um við verkalýðsfélögin með þeirri einföldu aðferð að hækka verð á vörum sínum samsvarandi. Væri t. d. samið um 10% kauphækkun, þá leið ekki á löngu þar til almennt vöruverð hafði hækkað um svipað hlutfall. Eini aðilinn, sem ekki gat hagnýtt þessa aðferð, voru útflutningsatvinnuvegirnir. Þeir gátu ekki ákveðið verðlag á erlendum mörkuðum, og þess vegna hefur hlutur þeirra verið réttur með síendurteknum gengislækkunum. Þær eru nú sem kunnugt er orðnar 6 á tveimur áratugum og hafa hækkað dollara í verði í íslenzkum krónum talið úr 6.50 kr. upp í 88 kr.

Öryggisleysið, sem hlýzt af þessari andstæðu, sem ég var að lýsa áðan, hefur verið megineinkennið og mesta vandamálið í íslenzkum efnahagsmálum, vegna þess að smátt og smátt hefur einkafjármagnið farið að nota verðbólguna sem gróðamyndunaraðferð. Eins og ég benti á áðan, eru bankarnir að mestu í ríkiseign og fjármagn þeirra í eigu smásparara eða opinberra sjóða. Þess vegna finnast ekki á Íslandi fjármálamenn, sem hafa hag af því að halda verðgildi krónunnar traustu. Þeir halda þannig á málum, að hagur þeirra er hið gagnstæða. Aðferð einkaauðmagnsins hefur verið sú, að fá lánað fé í ríkisbönkum til þess að kaupa framleiðslutæki eða koma sér upp byggingum. Síðan sér verðbólgan fyrir því, að krónurnar, sem þeir endurgreiða lánin með, verða stöðugt minni og minni að verðmæti, en fasteignirnar halda verðgildi sínu eða þær aukast jafnvel á velmegunartímanum. Þannig hefur verðbólgan verið notuð til þess að færa í sífellu fjármuni frá smáspörurum og opinberum sjóðum til einkaaðila.

Það hefur verið ljóst alllengi á Íslandi, að þessi andstæða, sem ég hef verið að tala um, fengi ekki staðizt til frambúðar: Hagkerfið, sem kallað var kapítalískt, en var í rauninni haldið uppi af félagslegum geira og opinberu eftirliti á flestum sviðum. Þess vegna varð ekki hjá því komizt, að Íslendingar gerðu það upp við sig, hvert þeir ætluðu að stefna, hvaða stjórnaraðferðir þeir vildu taka upp. Við sósíalistar höfum lagt á það áherzlu, að mönnum bæri loksins að læra af 50 ára reynslu, sem hefði sannað, að í svona örsmáu þjóðfélagi yrði ekki hjá því komizt, að menn legðu saman krafta sína og fjármagn og hefðu þjóðina alla að bakhjarli fyrir meiri háttar fyrirtækjum. Menn yrðu að horfast í augu við þessa nauðsyn, hvaða skoðanir sem þeir kynnu að hafa á almennum hagfræðikenningum. Það lægi í gerð hins íslenzka þjóðfélags sjálfs. Eina lausnin væri þannig að viðurkenna það, að félagsleg stefna yrði að koma til, sameign á öllum meginþáttum í framleiðslunni og áætlunarbúskapur í samræmi við hinar sérstöku aðstæður hér á landi.

Forsvarsmenn einkarekstursins hafa hins vegar ekki viljað fallast á þessa skoðun. Þeir hafa haldið því fram og héldu því sérstaklega fram fyrir 10 árum eða svo, að íslenzkur kapítalismi hefði ekki sannað getuleysi sitt, heldur stöfuðu vandkvæði hans af pólitískum ástæðum, allt of miklum og óþörfum ríkisafskiptum. Þeir töldu, að það væri framkvæmanlegt að breyta þjóðfélaginu þannig, að íslenzkur kapítalismi gæti staðið á eigin fótum og sannað getu sína. Þetta síðara sjónarmið sigraði, eins og kunnugt er, fyrir áratug.

Árið 1959 var mynduð samstjórn Sjálfstfl. og Alþfl., og hún hafði þann yfirlýsta tilgang að endurreisa kapítalistískt hagkerfi á Íslandi, afnema opinber afskipti af fjárfestingu, innflutningi og útflutningi og taka upp hagstjórnaraðferðir markaðsþjóðfélaganna í Evrópu. En einnig þessi tilraun hefur mistekizt, eins og þær tilraunir, sem fyrr voru gerðar. Hagstjórnaraðferðir markaðsþjóðfélaganna gátu ekki komið Íslandi að gagni af þeirri einföldu ástæðu, að meginframleiðslan á Íslandi er útflutningsframleiðsla og er háð allt öðrum mörkuðum en þeim íslenzku. Hér er ekki það samhengi á milli markaðs og framleiðslu, sem er aðalaðferðin við hagstjórn í svokölluðum markaðsþjóðfélögum. Og það var í rauninni ákaflega fróðlegt, að þessi tilraun skyldi mistakast á þennan hátt, vegna þess að ytri aðstæður voru ríkisstj. ákaflega hagfelldar. Á árabilinu 1962–1966 bjuggu Íslendingar við einstæða velgengni, fengu metafla ár eftir ár og hækkandi verðlag á erlendum mörkuðum, og þess vegna átti að vera auðveldara en nokkru sinni fyrr að koma í framkvæmd breytingum á stjórnarstefnu, ef þær breytingar hefðu verið réttar. En breytingarnar urðu, sem kunnugt er, á aðra lund en ætlað var. Þær urðu ekki til þess að styrkja undirstöður þjóðfélagsins, heldur hið gagnstæða. Það var fjárfest í atvinnutækjum, sem menn vonuðu, að gæfu skjótan gróða eins og síldveiðiskipum og síldarverksmiðjum, en enginn nýr togari var keyptur til landsins, og framleiðsla á frystum fiski dróst stórlega saman, þó að hún margfaldaðist hjá keppinautum okkar. Það var fjárfest í innflutningsverzlun til þess að klófesta aukið peningamagn hjá almenningi, en iðnfyrirtæki urðu gjaldþrota vegna erlendrar samkeppni. Efnahagslegar undirstöður þjóðfélagsins skekktust mjög á þessu tímabili, og nú mátti ekki koma til félagsleg forysta til þess að bæta úr þessum vandkvæðum. Þess vegna fór það svo, að þegar velgengnistímabilinu lauk, var þjóðfélagið verr undir það búið en nokkru sinni fyrr að mæta þessum vanda, og afleiðingin hefur orðið mjög alvarlegt kreppuástand, atvinnuleysi, landflótti og tímabundin vinna í nágrannalöndunum, einkanlega í Svíþjóð. Í þessum sporum stöndum við nú, og nú verðum við að velja, í hvaða átt við höldum. Og það val er ákaflega örlagaríkt.

Ég vil í þessu sambandi minna á kenningu, sem upp er komin sérstaklega innan stjórnarflokkanna og hefur verið áberandi seinustu árin. Hún er sú, að þessi ófarnaður stafi ekki af því, að hagfræðikenningarnar hafi verið rangar, heldur sé þjóðfélag okkar rangt. Kenningin er sú, að íslenzkt þjóðfélag sé of lítið til þess að hægt sé að stjórna því sem sjálfstæðri, efnahagslegri heild, og þess vegna verðum við að tengjast stærri heild. Aðeins á þann hátt geta þau hagstjórnarlögmál, sem menn aðhyllast, farið að verka hér á Íslandi. Þannig eru átökin um hagstjórnarstefnuna komin í bein tengsl við umr. um sjálfa framtíð hins íslenzka þjóðfélags. Það er stefna ríkisstj., að við getum ekki hjá því komizt að gefast upp á þeirri stefnu að stjórna Íslandi sem sjálfstæðu, efnahagslegu þjóðfélagi. Við verðum að vera hluti af öðrum. Við verðum að vera hluti af stærri markaði, svo að markaðslögmálin fari að hrífa. Að þessu er búið að stefna nú í mörg undanfarin ár. Af þessum ástæðum var samið við svissneska álhringinn, og nú er stefnt að því að reyna að fá mörg fleiri hliðstæð fyrirtæki inn í landið. Og ein meginástæðan fyrir því, að nú er stefnt að inngöngu í EFTA, er nákvæmlega þessi sama röksemdafærsla, að með því munum við tengjast stærri heild, og þannig geti þau efnahagslögmál, sem stjórnarherrarnir trúa á, farið að hrífa hér á landi. Þessar kenningar höfum við heyrt mjög lengi, og ég man t. a. m. eftir því, þegar einn hæstv. ráðh. kynnti þau á hvað eftirminnilegastan hátt, en það var, þegar hæstv. menntmrh. flutti ræðu á aldarafmæli Þjóðminjasafnsins og mælti þar hin fleygu orð, að bezta ráðið til þess að efla sjálfstæði þjóðar væri að fórna sjálfstæði hennar. Hann átti við nákvæmlega þetta, að Íslendingar gætu ekki staðizt nema því aðeins, að við tengdumst stærri heild, þannig að það væri ekki innanlandsvandamál okkar, hvernig ætti að stjórna þessu þjóðfélagi, heldur værum við hluti af almennri þróun annarra.

Andspænis þessum viðhorfum er aðeins einn valkostur annar, að við förum þá einu leið, sem getur tryggt okkur áframhaldandi efnahagslegt sjálfstæði. Hún er sú, að taka upp markvissan áætlunarbúskap. Það er sú stefna, sem mörkuð er í því frv., sem hér er til umr. Sjálf reynslan hefur vísað Íslendingum í þá átt á ómótstæðilegan hátt á undanförnum áratugum, eins og ég hef rakið hér að framan. Og í sjálfu sér má segja, að það sé fáránleg pólitísk sjálfhelda, að ekki skuli nú stefnt enn hraðar í þessa átt. Það er alkunna, að annar stærsti flokkur landsins, Framsfl., hefur á síðustu árum gerbreytt afstöðu sinni til áætlunarbúskapar. Áður var flokkurinn vantrúaður á þá stefnu; stefna hans voru höftin, hin óvirku afskipti, frumkvæðisleysið. En seinustu árin hefur hann lýst yfir því af vaxandi þunga, að hann sé fylgjandi áætlunarbúskap. Ef Alþfl., sem á langa baráttusögu til stuðnings áætlunarbúskap, héldi við þessa stefnu sína, sem er í sjálfu sér kjarninn í boðskap þess flokks, þá væri hér á þingi mikill meiri hl. fyrir slíkum umskiptum.

Í þessu sambandi má einnig benda á það, að verkalýðshreyfingin hefur að undanförnu lagt á það vaxandi áherzlu, að taka verði upp áætlunarvinnubrögð og áætlunarstjórn til þess að leysa vandamálin. Hún hefur gert það í samþykktum sínum. Hún hefur einnig gert það í viðræðum sínum og samningum við stjórnarvöldin. Og það er í sjálfu sér einnig lærdómsríkt, að á sama tíma og hæstv. ríkisstj. stefnir að því að tengja Ísland stærri heild, svo að hún þurfi ekki að láta á það reyna, hvort hún getur leyst vandamálin hér innanlands, þá hefur hún verið í verki að neyðast til þess að auka afskipti sín einmitt af þeim atvinnumálum, sem ekki mátti snerta við. Atvinnumálanefndirnar og allt það kerfi eru til marks um þá breytingu. Hins vegar einkennast vinnubrögðin þar af því sama og áður, að það má ekki koma til neitt opinbert frumkvæði. Atvinnumálanefndirnar gera ekkert annað en það að afgreiða það, sem til þeirra er sent, eins og við heyrðum um daginn í skýrslu þeirri, sem hæstv. forsrh. flutti á þingi. Þessar n. bíða eftir því, að einkaaðilar eða sveitarfélög sendi umsóknir, og síðan er úthlutað eftir þessum umsóknum. En frumkvæði er ekkert. Fyrir Reykvíkinga er þetta býsna fróðlegt. Ég sá í Morgunblaðinu fyrir ekki mörgum dögum, að þar var rætt við einn af forystumönnum höfuðborgarinnar, og hann var spurður að því, hvernig á því stæði, að umsóknir einkaaðila frá Reykjavík um fjármuni, sem atvinnumálanefndin úthlutar, hefðu verið svona fáar. Hann sagði, að ástæðan væri sú, að atvinnureksturinn hefði verið verst á sig kominn í Reykjavík, og það hefði leitt til þess, að einkaatvinnurekendur hefðu verið svo trúlausir og vonlausir um framtíðina, að þeir hefðu ekki haft sig upp í það að senda umsóknir. Vegna þess, að ástandið var verst í Reykjavík, varð hlutur Reykjavíkur minni en annarra. Einmitt þar sem þurfti sérstakt frumkvæði til þess að hrinda málinu af stað, gerðist minna en annars staðar, vegna þess að frumkvæði skorti. Þetta hefur verið veilan í öllum tilraunum til opinberra afskipta á Íslandi, þar hefur vantað þessa jákvæðu forystu.

Um efni frv. sjálfs þarf ég ekki að vera margorður, ég held, að það skýri sig sjálft. Frv. svipaðs efnis hafa verið flutt á fjölmörgum þingum áður, en engu að síður er þetta frv. allfrábrugðið, bæði að efni og formi, þeim frv., sem áður hafa verið flutt. Eins og ég hef getið um í grg., naut ég við samningu frv. sérstakrar aðstoðar Guðmundar Ágústssonar, skrifstofustjóra Alþýðusambands Íslands, en hann er eini Íslendingurinn, sem lokið hefur háskólanámi í áætlunarhagfræði, og hann er aðalhöfundur þeirrar fróðlegu grg., sem fylgir frv. Ég vænti þess, að hv. alþm. lesi hana og sé ekki ástæðu til þess að endursegja hana á neinn hátt. Hins vegar vil ég taka það mjög skýrt fram, að okkur dettur að sjálfsögðu ekki í hug, að sú grind, sem gert er ráð fyrir í þessu frv., sé eitthvert endanlegt og óumbreytanlegt form. Hér er um að ræða mjög vandasöm mál, og vafalaust getur okkur missýnzt þar um marga hluti, og auk þess á reynslan eflaust eftir að kenna mönnum margt, sem þeir koma ekki auga á enn þá. Þess vegna mundi ég telja það mikið fagnaðarefni, ef menn ræddu þetta mál, bæði hér á þingfundum og eins í þeirri hv. n., sem fær málið til meðferðar, jafnt hvort þeir eru sammála þeirri hugmynd, sem í frv. felst eða ekki. Einmitt slíkar umr. geta orðið til þess að skýra ýmis vafamál og varpað skærara ljósi á þau vandamál, sem þarna er við að etja.

Ég vil svo að lokum, herra forseti, leggja til, að frv. verði vísað að lokinni 1. umr. til 2. umr. og til hv. fjhn.