27.01.1970
Neðri deild: 44. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 335 í B-deild Alþingistíðinda. (282)

126. mál, söluskattur

Björn Pálsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. Ég ætla ekki að blanda mér inn í þær umr., sem hér hafa farið fram, um almenn fjármál. Söluskattshækkun þessi fylgir EFTA–aðildinni. Það er afráðið, að við förum í EFTA. Þess vegna geri ég ráð fyrir, að það sé ekki til neins að tala um það og það sé óhjákvæmilegt að taka söluskattinn.

Það hefur komið hér fram í umr., m.a. hjá hæstv. fjmrh., að ætlunin er að afnema söluskatt á fiski. Þetta er að vísu vel gert. Fyrir eitthvað 4—5 árum, held ég, að við Jón Skaftason höfum flutt till. um það, að söluskattur væri afnuminn á þeim vörum, sem voru niðurgreiddar af ríkinu og fiskur var þar meðtalinn, auk þess kjöt og mjólkurafurðir, aðrar en nýmjólk. Með því að afnema söluskatt á fiski breytist verðlagið í landinu, þannig að það verður hagkvæmara fyrir fólkið að kaupa fisk heldur en landbúnaðarvörur, sem þarf að greiða söluskatt af.

Mér hefur skilizt á því, sem fram hefur komið hér í umr., að meiningin sé að hækka ekki söluskatt á smjöri og kjöti, en sá söluskattur, sem er 7 1/2%, haldist. Nú vitum við það, að fólkið er alltaf að leita eftir þeim vörum, sem ódýrastar eru og það er peningaleysi, sem veldur því. Við vitum það einnig, að maður, sem þarf að vinna með venjulegum daglaunum fyrir 4—5 manna fjölskyldu, þarf að spara hvern einasta eyri og er tæpast að kaupið endist, enda sennilega illmögulegt. Þar sem hjónin vinna bæði úti, en það eru ekki allir, sem hafa aðstöðu til þess, þar er afkoma fjölskyldunnar mjög sæmileg, en það er mál út af fyrir sig, sem þarf að taka til athugunar, ef ógerlegt verður að hækka kaupið neitt að ráði, hvort það verður þá ekki hreinlega að styrkja þær fjölskyldur meira með barnalífeyri, þar sem konan hefur enga möguleika á að vinna úti, fyrir utan það, að það er engan veginn víst, að konur fái vinnu, þótt þær vilji vinna úti. Þess fór að gæta s.l. ár, að fólkið fór að draga stórkostlega úr kjötneyzlu og mikill fjöldi fólks er farinn að borða smjörlíki í staðinn fyrir smjör. Þetta hlýtur að stórdraga úr sölu á kjöti og smjöri.

Fyrir okkur, sem rekum landbúnað, er þetta alvörumál. Ef söluskattur er afnuminn á niðurgreiddar vörur, þá þarf það ekki að hafa áhrif á afkomu ríkisins. En þá er ekki hægt að lækka vöruna, en það væri æskilegast fyrir okkur, sem rekum landbúnað, að hægt væri að afnema söluskattinn og hafa sömu niðurgreiðslur. Það kostar dálítil fjárútlát fyrir ríkið. Ég sé ekki annað en þarna sé dálítið alvarlegur hlutur að gerast fyrir landbúnaðinn, ef fiskur er lækkaður í verði, því þá eykst fiskneyzlan og dregur úr kjötneyzlunni. Þess vegna væri brýn þörf á að gera einhverjar ráðstafanir til þess að lækka kjötvörur, svo framarlega sem kaup fólksins í landinu hækkar ekki. Það er engin afkoma að geta aldrei veitt sér það að borða kjöt.

Annað var það, sem kom réttilega fram hjá fjmrh. og það er það, að fólk kaupir mikið af fiski, án þess að söluskattur sé greiddur. En það er nákvæmlega það, sem er að gerast í kjötmálunum. Fólkið er meira og minna að fara inn á það að kaupa heila skrokka frá bændum, setja þá í frystikistur hjá sér, sérstaklega hér á Suðurlandsundirlendinu og meira að segja fyrir norðan líka og geymir það til vetrarins. Þetta er sjálfsbjargarviðleitni hjá fólkinu.

Ég skil vel, að það er ekki þægilegt að taka alla kornvöru, olíu, rafmagn og því um líkt og undanþiggja það söluskatti. Það er endalaust hægt að koma með slíkar lækkunar till. Vitanlega þarf ríkissjóður einhvers staðar að fá sínar tekjur, og ef við komum með lækkunar till., verðum við að benda á einhverjar aðrar tekjuöflunarleiðir. Ég skal ekki fullyrða um, hvernig afkoma ríkissjóðsins verður s.l. ár og má vera, að skattarnir séu það háir, að það væri hægt að hækka þá eitthvað. Það liggur a.m.k. ekki ljóst fyrir enn. En þarna er atriði, sem við verðum að taka mjög til athugunar, hvort ekki er nein leið til að lækka útsöluverð á kjöti og smjöri, ef á að lækka útsöluverð á öðrum matvörum, eins og t.d. að afnema söluskatt á fiski.

Ég sé ekki annað, en það reki að því, þegar við göngum algerlega í EFTA og ef á að fara þá leið að hækka söluskattinn og hafa hann fyrir aðaltekjustofn ríkisins, að söluskatturinn fari upp í 20% á flestum vörum og þá skiptir miklu máli, að það sé ekki neinu skotið undan af þessum söluskatti. Það má vel vera, að kassarnir geri eitthvert gagn, en einhlítir eru þeir ekki. Við vitum það, að menn þurfa alls ekki að stimpla inn, þó að þeir selji einhvern hlut, svo að það er engan veginn einhlítt ráð. En það getur skeð, að þeir geri eitthvert gagn og má vera, að þeir séu til bóta, en það þarf þó að athuga öll fskj. með í verzlunum og allar vinnuskýrslur og allt slíkt. Vitanlega er minni hætta á, að stóru fyrirtækin skjóti undan söluskatti. Það er ákaflega erfitt að rugla bókhald og rekstur stórra fyrirtækja með því, en smáfyrirtæki, sem eru rekin algerlega eða að mestu leyti af eigandanum, þar sem lítil vinna er keypt, þá er erfitt að koma algerlega í veg fyrir þetta.

Viðvíkjandi því, sem kom fram hjá fjmrh., að ógerlegt væri að taka fullt tillit til vísitölunnar við skattútreikning og það mundi valda ríkissjóði allt að 300 millj. kr. tjóni, þá skal ég ekki dæma um það, hvað ríkissjóður þolir. Uppgjör fyrir s.l. ár liggur ekki alveg ljóst fyrir, en hitt er annað mál, að vegna útsvaranna væri það hægt, ef vilji væri fyrir hendi. Við vitum það, að tekjur og eignir manna gera hvorki að vaxa né minnka, hvort sem vísitalan er hærri eða lægri, sem dregin er frá vegna persónulegra þarfa. Það þarf bara að breyta eitthvað niðurjöfnunarreglunum. Vitanlega er fólkið ekkert færara um að borga, þó það greiði hærri skatt, því það vaxa ekkert tekjur þess eða eignir við það, að vísitalan sé óraunhæf. Það má vel vera, að það þyrfti að breyta niðurjöfnunarreglunum til þess að hrepparnir næðu því, sem þeir þyrftu að fá. En þetta hefur engin áhrif á gjaldþolið og þess vegna væri náttúrlega auðvelt, ef fjmrh. hefði viljað og álitið gerlegt fyrir ríkissjóðinn að draga alveg fulla vísitölu frá.

Ég skal ekki hafa þessi orð fleiri. Aðalatriðið er það, að ég vildi benda á, að ég er hræddur við þetta misræmi, sem verður í verðlagi matvæla, með því að lækka söluskattinn á neyzlufiskinum, en láta verðið vera óbreytt á landbúnaðarafurðunum. Það er að verða mjög ískyggilegt fyrir bændurna, hvað sölumöguleikarnir minnka. Má vera, að þeir rýmkist eitthvað lítillega til annarra landa, en það verður ekki sambærilegt verð við það, sem bændurnir þurfa að fá.