27.01.1970
Neðri deild: 44. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 348 í B-deild Alþingistíðinda. (286)

126. mál, söluskattur

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. Það er eingöngu vegna ólæknandi þrákelkni hv. 4. þm. Austf., sem ég ætla að segja hér nokkur orð.

Ég fullyrti það í dag, að það mundi nálega vera einsdæmi í þingsögunni, að menn væru þannig andlega á sig komnir, að þeir settu slettur og brigzlyrði til þingfélaga sinna í nál., því venjulega reyndu menn á yfirborðinu að hafa form nál. þannig, að þau litu út fyrir að vera málefnaleg. En það er eins og einn hv. þdm. sagði við mig í dag: Ég held, að þetta séu einsdæmi. Nú er það ekki svo, að hv. þm. hafi ástæðu til þess að draga nafn mitt og Björns Jónssonar alþm. inn í umtal í nál. eða við höfum verið starfandi í n. með honum og verið honum þar erfiðir. Nei, nei, við komum þar ekkert við sögu og það var því ekki til neitt beint tilefni til þess að sletta óþverra á okkur. Það var ekki einu sinni gert í tilefni af því, að við værum þm., heldur varð hann að koma þessu á forseta og varaforseta Alþýðusambandsins. Það var tilgangurinn og það varð að koma fram í nál. Hann fæst ekki til þess að sjá neina yfirsjón sína í þessu og þá ann ég honum þess, að þetta verði hans minnisvarði í þingtíðindum, þessi munnsöfnuður, því hann er einsdæmi. Og einsdæmin eru verst.

Hv. þm. heldur því fram, að ég og Björn Jónsson berum ábyrgð á söluskattsfrv. ríkisstj., af því ríkisstj. hafði látið það uppi strax og EFTA–málið var til afgreiðslu, að hún ætlaði að bæta sér upp tekjutap ríkissjóðs með söluskatti. Þar af leiðir, að þið berið ábyrgð á þessu frv., segir hv. þm. Nú spyr ég: Getur hv. þm. fært nokkur rök að því, að nokkur stafur eða stafkrókur sé í EFTA–sáttmálanum um það, að söluskattur skyldi hækkaður á Íslandi, ef Ísland gerðist aðili? Ég hygg að hann geti það ekki. Ég hygg, að það hafi ekki verið samkvæmt neinum fyrirmælum eða skuldbindingum við EFTA, að ríkisstj. vill hækka söluskatt til þess að bæta sér upp tekjutap vegna tollalækkana. Það var áreiðanlega hennar eigin ákvörðun og uppfinning, óháð EFTA–löndunum eða kröfum frá þeim.

Ég vil gjarnan spyrja hæstv. fjmrh. að því, því hann getur svarað því með jái eða neii, eða bara með höfuðhneigingu eða höfuðhristingu, ef hann vilt: Var ríkisstj. Íslands á nokkurn hátt skuldbundin EFTA–löndunum með að afla sér tekna með nokkrum ákveðnum hætti, ef Ísland yrði aðili að EFTA? – Ég var að beina spurningu til hæstv. ráðh. og sagði, að honum væri auðvelt að svara, ef hann vildi gera svo vel, með jái eða neii, eða með höfuðhristingu eða höfuðhneigingu, því spurningin væri bara þessi: Var ríkisstj. Íslands á nokkurn hátt skuldbundin EFTA–löndunum með að afla sér tekna með ákveðnum hætti, t.d. söluskatti? (Fjmrh.: Nei. - Gripið fram í.) Hún hafði ákveðið það og það er auðvitað hennar ákvörðun og er á hennar eigin ábyrgð, hvenær sem hún er tekin. En ráðh. hefur svarað af drengskap. Það var engin skuldbinding hvílandi á ríkisstj. Íslands um það að leggja á söluskatt í sambandi við inngöngu Íslands í EFTA. Málin eru tvö sjálfstæð mál og þar með er búið að afhjúpa hv. þm. svo rækilega frammi fyrir öllum þingheimi, að hann getur ekki klórað í bakkann lengur, þó hann langi til þess. Hér með læt ég þessu andsvari mínu lokið.