29.04.1970
Sameinað þing: 49. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 484 í D-deild Alþingistíðinda. (3207)

89. mál, byggingarkostnaður íbúðarhúsnæðis

Frsm. minni hl. (Gísli Guðmundsson):

Herra forseti. Eins og hv. frsm. meiri hl. allshn. tók fram, hefur n. haft til athugunar till. þá, sem liggur fyrir um athugun á byggingarkostnaði íbúðarhúsnæðis. Samkomulag hefur ekki náðst um afgreiðslu till.

Í lögum um Húsnæðismálastofnun ríkisins er gert ráð fyrir því, að Húsnæðismálastofnunin vinni að umbótum í byggingarmálum og lækkun á byggingarkostnaði. Hér er um mikilsvert hlutverk að ræða og sýnist minni hl. ástæða til þess að gera sér grein fyrir því, hversu til hefur tekizt um framkvæmd þessara lagaákvæða og þá jafnframt, hverjir hafa náð beztum árangri í því að lækka byggingarkostnað, ef um slíkt er að ræða, og þá einnig, hver árangur hafi orðið af tilraunum, sem gerðar hafa verið til þess að lækka byggingarkostnað, hvort þær hafi tekizt eða ekki. Minni hl. n. telur ástæðu til þess, að gerðar væru ráðstafanir til athugunar af þessu tagi og leggur til, að till. á þskj. 101 verði samþ.