12.11.1969
Sameinað þing: 12. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 674 í D-deild Alþingistíðinda. (3542)

52. mál, lán og styrkveitingar atvinnumálanefndar ríkisins

Axel Jónsson:

Herra forseti. Ég vil eins og aðrir hv. ræðumenn þakka þá skýrslu, sem hér hefur verið lögð fram og er mjög fróðleg og ítarleg. Ýmsir hv. þm. hafa tekið til máls um lánveitingar til sinna kjördæma og þótt þeirra hlutur of lítill án þess þó, að nokkur hafi eðlilega tekið það fram, að aðrir hafi fengið of mikið. Það er kannske ekki nema mannlegt, að hverjum og einum finnist hans hlutur ekki nógu stór, þegar skipta á tilteknum upphæðum.

Ég ætla ekki að blanda mér inn í þann samanburð. Aðeins vil ég segja það, vegna þess að álverksmiðjuna hefur borið hér á góma, að vissulega lítum við Reyknesingar á þá framkvæmd sem mjög þýðingarmikla til atvinnuaukningar fyrir okkar kjördæmi og hefur hún verið eitt af okkar stærstu hagsmunamálum. Og ég segi það í fullri hreinskilni, að ég vorkenni alltaf samþm. mínum, hv. 2. þm. Reykn., fyrir hans afstöðu á sínum tíma í því máli.

Ég vil aðeins vekja athygli á nokkuð broslegu atviki, sem komið hefur fram í sambandi við þessar umr. og umr., sem urðu hér fyrir nokkru síðan. Hv. 11. þm. Reykv. vakti athygli á því, að stór hluti af lánveitingafjármagni til Reykjavíkur væri til, opinberra framkvæmda og gagnrýndi þessa ráðstöfun frekar. Fyrir skömmu átaldi 1. þm. Norðurl. v., formaður Framsfl., ríkisstj. fyrir að hafa ekki, nú á þessum tímum, einmitt ráðizt í byggingu alþingishúss og stjórnarráðshúss, þannig að það er nokkuð ljóst, þegar litið er á afstöðu varaformanns og formanns Framsfl., að þá greinir nokkuð á um gildi þess, hvort verja skal meira eða minna af fjármagni til opinberra framkvæmda.