10.12.1969
Neðri deild: 22. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 435 í B-deild Alþingistíðinda. (372)

115. mál, iðja og iðnaður

Magnús Kjartansson:

Herra forseti. Frv. það, sem hæstv. iðnrh. mælti hér fyrir, og næsta frv., sem hér er á dagskrá, eru bæði flutt í tengslum við till. um aðild Íslands að EFTA. Eins og öllum er kunnugt, eru í 16. gr. EFTA–sáttmálans ákvæði um gagnkvæm réttindi til atvinnurekstrar í aðildarlöndum EFTA og hér á landi hafa komið fram ýmsar aths. um það, hvað þetta gæti haft í för með sér í sambandi við atvinnurekstur útlendinga á Íslandi. Í því efni er bent á ýmsa möguleika, sem opnast erlendum aðilum og menn hafa látið í Ijós ótta í þessu sambandi.

Því hefur verið haldið fram um langt skeið í ræðum manna og í blöðum, að ætlun ríkisstj. væri sú, að girða fyrir þennan vanda með ákveðinni lagasetningu og því hefur verið lýst yfir hér, að þetta væri mjög auðvelt. EFTA–sáttmálinn væri það losaralegur, að ríkisstj. hvers lands um sig gæti gert slíkar ráðstafanir. En þau frv., sem hér liggja fyrir, fela ekki í sér neinar slíkar ráðstafanir. Það er alger blekking. Í rauninni er það alveg rétt, sem hæstv. iðnrh. sagði hér áðan, að í frv. um breyt. á l. um iðju og iðnað er í rauninni um sáralitla breytingu að ræða. Breytingin er raunar helzt í því fólgin, að hæstv. ráðh. fær ögn meira verksvið en ætlazt er til, að hann hafi í samræmi við núgildandi lög. En í hvorugu þessara frv. felst nein trygging, sem komið gæti í veg fyrir, að erlendir aðilar geti hafið hér þann atvinnurekstur, sem heimilt verður samkv. EFTA–sáttmálanum, m.a. af þeirri einföldu ástæðu, að þeir hæstv. ráðh., sem nú fara annars vegar með iðnaðarmál og hins vegar með viðskiptamál, eru báðir miklir hvatamenn þess, að draga hingað sem mestan erlendan atvinnurekstur á þessu sviði, eins og allir vita. Hæstv. iðnrh. hefur haft öðrum mönnum meiri forgöngu um að fá hingað til landsins erlent stórfyrirtæki, er hefur hafið hér starfrækslu með alkunnum árangri, sem mikið hefur verið rætt um á þessu þingi og það er vitað, að hann hefur gert margar fleiri ráðstafanir til þess að reyna að hvetja erlenda aðila til þess að stofna fyrirtæki á Íslandi. M. a. greindi sjónvarpið frá því í fréttum á s.l. sumri, að hæstv. iðnrh. væri farinn utan til Norðurlanda til þess að kanna það, hvort iðnrekendur á Norðurlöndum mundu ekki vera reiðubúnir til þess að stofna dótturfyrirtæki á Íslandi, um leið og við værum gengnir í EFTA. Þessi sjónarmið hafa komið fram hjá mörgum fleiri ráðamönnum stjórnarflokkanna. Það kemur fram í grg. fyrir EFTA–till., að menn geti ekki haft mikið á móti því, að hér verði hafin útflutningsframleiðsla á vegum útlendinga. Ég vil minna á það í þessu sambandi, að einn af forystumönnum iðnaðarmála á Íslandi, Ottó Schopka, hélt fyrir nokkrum vikum ræðu í fulltrúaráði Sjálfstfl. í Reykjavík, og taldi hann það EFTA–aðild m.a. til tekna, að með því að ganga í EFTA mundum við geta fengið bandaríska aðila til þess að stofna iðnfyrirtæki á Íslandi, vegna þess að þau kæmu þá afurðum sínum inn á EFTA–markað án þess að þurfa að fara yfir tollmúra. Og hann lagði á það mikla áherzlu, að þetta gæti orðið æskilegt fyrir bandarísk fyrirtæki, vegna þess að þau gætu hér fengið ódýrari orku en völ væri á annars staðar í Evrópu og ódýrara vinnuafl. Að halda því fram, að frv., sem leggur það í vald hæstv. iðnrh., hvort erlendir aðilar fái að stofna hér fyrirtæki eða ekki, feli í sér tryggingu gegn því, að slíkur atvinnurekstur hefjist, er alger firra. Þar er verið að fela valdið þeim manni, sem er einna áfjáðastur í að fá slíka aðila til þess að stofna atvinnurekstur á Íslandi. Og alveg það sama á við um frv. um verzlunar atvinnu. Það er líka alkunnugt, að hæstv. viðskrh. hefur nákvæmlega sömu afstöðu til þessara mála og hefur raunar túlkað hana lengi.

Í bakgrunni alls þessa EFTA–máls er fræg ræða, sem hæstv. viðskrh. hélt á 100 ára afmæli Þjóðminjasafnsins, sem ég geri ráð fyrir að ýmsir muni eftir. En þá flutti hæstv. ráðh. þau fleygu orð, „að bezta ráðið til að tryggja sjálfstæði þjóðar væri að fórna sjálfstæði hennar“. Og hann rökstuddi þetta með því, að sá tími væri liðinn, að lítil þjóðfélög, eins og hið íslenzka, gætu starfað af eigin rammleik. Þau yrðu að tengjast stærri heild og þau yrðu einnig að leyfa erlendu fjármagni að, athafna sig hér á landi.

Ég verð að segja það, að ef mönnum er raunverulega alvara með það, að gera þurfi ráðstafanir til að koma í veg fyrir, að 16. gr. EFTA–samningsins leiði hættur yfir Íslendinga, ef við göngum í EFTA, þá verður að gera það á einhvern annan hátt en með ákvæðum þeim, sem felast í þessum frv. Þessi frv. eru fyrirheit um hið gagnstæða. T.d. gæti það verið athugunarefni fyrir þá n. eða þær n., sem fá þessi mál til meðferðar, hvort ekki væri rétt að festa í lög ákvæði um það, að umsóknir um slíkan atvinnurekstur yrði að leggja fyrir Alþ. Í því er miklu meira öryggi. Þá er þó alla vega tryggt, að málin séu rædd fyrir opnum tjöldum og almenningur eigi þess kost að fylgjast með því, en þegar valdið er í höndum ráðh., veit enginn um málalok fyrr en allt er búið og gert. En að lýsa þessum frv. sem einhverjum ráðstöfunum til þess að tryggja hagsmuni Íslendinga í þessu máli eru hreinar blekkingar. Og ég vil vænta þess, að n., sem fá þetta mál til meðferðar, taki það þeim tökum, sem ég minntist á áðan, að í þeim felist einhver trygging fyrir landsmenn.