05.03.1970
Sameinað þing: 51. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 829 í D-deild Alþingistíðinda. (3791)

103. mál, hafnarmálefni

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Fsp. á þskj. 122 frá hv. 4. þm. Sunnl. og hv. 6. þm. Sunnl. um rannsóknir á möguleikum til hafnargerðar í Þykkvabæ í Rangárvallasýslu og við Dyrhólaey í Vestur-Skaftafellssýslu er út af fyrir sig eðlileg. Þessir hv. tveir þm. hafa áhuga á hafnargerð á Suðurlandi og einnig aðrir þm. Sunnlendinga og Sunnlendingar yfirleitt.

Það er ekki rétt, sem hv. fyrirspyrjandi sagði hér áðan, að það hefði ekkert verið gert í rannsóknum í þessu máli. Og ef hann hefði nú vitað raunverulega, að það hefði ekkert verið gert, þá hefði hann ekki þurft að koma með fsp. á hv. Alþ. til að spyrja um, hvað rannsóknunum liði. Það hefur nefnilega verið ýmislegt gert til rannsókna á þessu svæði og það held ég, að hv. 4. þm. Sunnl. viti, ef hann hugsar sig vel um. Og ég vil hér á eftir leitast við að gefa upplýsingar um það, hvað þessum rannsóknum liður. Ég hef beðið vitamálastjóra um grg. um þetta, hann þekkir þetta bezt. Rannsóknirnar hafa farið fram á vegum Vitamálaskrifstofunnar og vitamálastjóri hefur nú nýlega sent mér grg. um þetta, og með leyfi hæstv. forseta, vil ég leyfa mér að lesa orðrétt það, sem hann hefur um þetta að segja:

„Á vegum Vitamálaskrifstofunnar og Hafnamálastofnunar ríkisins hefur um árabil verið unnið að rannsóknum á hafnarstæði við Dyrhólaey. Það eru nú liðin mörg ár síðan fyrst kom fram hugmynd um byggingu hafnar við Dyrhólaey, en segja má, að hugmyndir manna hafi verið allóljósar um það, hvers konar höfn ætti þar að vera. Lengi var fyrst og fremst hugsað um fiskihöfn, þar sem gjöful mið eru stutt út af Mýrdalnum. Var þá aðeins hugsað um að gera slíkar endurbætur á ströndinni, að lending yrði auðveldari, en útgerð hefur verið stunduð úr Mýrdal við Dyrhólaey um langa hríð, þótt segja megi, að hún hafi að öllu leyti lagzt niður seinni árin. Hinar fyrstu athuganir leiddu strax í ljós, að mjög fjárfrekt yrði að gera viðunandi aðstöðu við eyna þar sem bæði er við að eiga opið Atlantshafið og sömuleiðis feikilegan sandburð með ströndinni. Hafa allar athuganir leitt í ljós, að óhugsandi er með litlum tilkostnaði að gera þær umbætur á lendingu við Dyrhólaey, er nokkra þýðingu hefðu gagnvart útgerð eða siglingum. Hefur því verið lögð megináherzla á grundvallarrannsóknir í sambandi við mögulega hafnargerð við Dyrhólaey. M.a. hafa tveir stúdentar fengið það sem prófverkefni að gera tillögur að höfn við eyna. Verkefni þessi hafa verið unnin undir leiðsögn prófessora, sem báðir hafa nokkra þekkingu á íslenzkum staðháttum og þá staðháttum við Dyrhólaey sérstaklega.

Árið 1963 varð prófessor Per Brun, nú kennari við Tækniháskólann í Þrándheimi, starfandi sem sendikennari við Háskóla Íslands á vegum bandarísku Fulbright- stofnunarinnar, og var hann þá fenginn til að gera áætlun um þær rannsóknir, er gera þyrfti við Dyrhólaey með tilliti til væntanlegrar hafnargerðar þar. Nokkru áður eða 1957 voru hafnar mælingar við Dyrhólaey og var þá mælt hafsvæðið út af eynni. Sú mæling var endurtekin 1963, og þyrfti að endurtakast nú innan skamms og verður endurtekin. Í till. þeim, er prófessor Brun gerði, var megináherzla lögð á grundvallarrannsóknir á þeim náttúruöflum, sem við er að etja við eyna. Er hér fyrst og fremst um að ræða mælingar á straumum, bylgju, vindi og sandflutningi. Þessum rannsóknum hefur verið sinnt nokkuð, og hefur nú verið fengið til landsins mælitæki til þess að mæla bylgjuhæð. Þetta mælitæki var uppi í Hvalfirði, en týndist í óveðrinu um daginn. Ég hef hins vegar lagt svo fyrir, að annað mælitæki verði keypt til landsins, sem kemur með vorinu, og verður það sett upp við Dyrhólaey í sumar og haft þar til prófunar. Þetta tæki var til reynslu í nágrenninu, á Reykjavíkursvæðinu, í mynni Hvalfjarðar, í sambandi við ferjuleið yfir Hvalfjörð eða milli Reykjavíkur og Akraness. Þá gerði prófessorinn tillögu um, að aflað yrði upplýsinga um byggingarefni til hafnargerðar í nágrenni við Dyrhólaey. Er hér um að ræða grjót til byggingar hafnargarða, svo og steypuefni. Þá gerði hann einnig tillögu um, að athugað yrði jarðvegsdýpi í nágrenni eyjarinnar. Hefur það verið gert.

Þá hefur prófessor Trausti Einarsson gert athuganir á breytingum suðurstrandarinnar með það fyrir augum að áætla sandflutninga út frá því sjónarmiði.“

Það er ýtarleg grg. í Tímariti verkfræðingafélagsins 1966 eftir Trausta Einarsson um þetta efni, mjög ýtarleg, sem skýrir frá öllum þeim rannsóknum, sem hann hefur gert á sandflutningi meðfram suðurströndinni. Þetta er löng grein, og þar sem hún liggur fyrir í prentuðu máli, í Tímariti verkfræðingafélagsins 1966, tel ég ekki ástæðu til þess að lesa hana hér upp við þetta tækifæri, en greinin er fróðleg og gefur glögga mynd af ýmsu, sem við er að fást í sambandi við væntanlega hafnargerð á suðurströndinni.

„Niðurstöður athugana prófessors Bruns og hinna tveggja stúdenta eru í meginatriðum þessar:

Ef byggja skal höfn við Dyrhólaey, er nauðsynlegt að gera hafnargarða, en út á það mikið dýpi, að ekki sé veruleg hætta á, að úthafsöldu brjóti í hafnarmynninu. Var talið, að til þess þyrfti að fara út á 16 m dýpi, og lengd hafnargarðanna yrði þá 600–800 m. Gerð þessara garða yrði mjög kostnaðarsöm eins og gefur að skilja, þar sem vinna þarf fyrir opnu Atlantshafinu og á miklu dýpi. Lítur því út fyrir, að meginkostnaður við hafnargerð við Dyrhólaey yrði gerð hafnargarðanna, þar sem aðstæður til að gera hin innri mannvirki, þ.e.a.s. bryggjur og viðlegukanta, virðast í meðallagi góðar.

Aðeins mjög lauslegar kostnaðaráætlanir hafa verið gerðar um þessi mannvirki, enda erfitt að gera nákvæmlega grein fyrir kostnaðinum, þar sem meginhluti hans yrði háður öflun stórgrýtis til garðanna, en kostnaður við það er mjög háður aðstæðum og flutningavegalengdum. Rannsóknum á því atriði er hvergi nærri lokið. En óhætt er að segja með þeirri reynslu, sem er á gerð hafnargarða úr grjóti annars staðar á landinu, að lágmarkskostnaður við gerð hafnarmannvirkja við Dyrhólaey mundi skipta mörgum hundruðum millj. kr. Lægstu tölur, sem nefndar hafa verið í því sambandi, eru 500 millj. og tel ég það það allægsta, sem búast má við.

Sjálfsagt tel ég að halda áfram rannsóknum á hafnarstæðinu við Dyrhólaey, enda má telja, að þeim mun meiri og betri upplýsingar sem fyrir liggi, þeim mun auðveldari og hraðari geti endanleg áætlunargerð og framkvæmdir orðið, ef til þyrfti að taka. Jafnframt því, sem rannsóknir á hafnarstæðinu við Dyrhólaey eru mikilsverðar vegna byggingar hafnar þar, þá eru þær einnig mjög mikilsverðar vegna allrar annarrar hafnargerðar á sunnanverðu landinu og auk þess mikilvægur þáttur í almennri könnun á bylgjum og sandburði við suðurströndina.“

Þetta er það, sem vitamálastjóri hefur að segja um hafnargerð við Dyrhólaey og þær rannsóknir, sem fram hafa farið, og auk þess liggur fyrir það, sem ég minntist á áðan, umsögn og greinargerð Trausta Einarssonar prófessors. Það verður því ekki hægt að segja, að ekki hafi verið unnið nokkuð að rannsókn á hafnargerð við Dyrhólaey. En fullnaðarrannsóknum er ekki lokið, m.a. vegna þess, að ekki hefur verið reiknað með því, að ráðizt yrði í þessar framkvæmdir alveg strax kostnaðarins vegna. Og það er alveg ljóst, að áður en hafizt verður handa um hafnargerð í Dyrhólaey, þarf að fá samþykkta löggjöf um landshöfn þar.

Það er alveg útilokað, að Vestur-Skaftfellingar — og jafnvel þótt fleiri Sunnlendingar væru með — gætu tekið að sér að gera þessa höfn eftir hafnalögunum og borga þannig stóran hluta af kostnaði við hafnargerðina. Það þarf fyrst að fá samþykkta löggjöf um landshöfn, áður en höfn við Dyrhólaey getur orðið að veruleika. Ég segi það enn, það væri vitanlega mikil lyftistöng fyrir héruðin að fá þessa höfn, en umfram allt verðum við fyrst að fá löggjöf um landshöfn.

Hv. 4. þm. Sunnl. minntist hér á þátt Guðlaugs sýslumanns og barónsins á Hvítárvöllum, og enginn vafi er á því, að Guðlaugur sýslumaður var mikill athafnamaður og áhugamaður um framfaramál Vestur-Skaftfellinga, en það hafa einnig verið í Vestur-Skaftafellssýslu og á Suðurlandi fleiri áhuga- og dugnaðarmenn, sem hafa viljað beita sér þar fyrir framkvæmdum. En hafnargerð í Dyrhólaey hefur samt sem áður ekki orðið að veruleika, og það er í hreinskilni sagt vegna kostnaðarins og þeirrar aðstöðu, sem við er að búa.

Þá er það Þykkvibær. „Hvað varðar hafnargerð í Þykkvabæ,“ segir vitamálastjóri, „þá hafa af hálfu Íslendinga engar rannsóknir farið þar beinlínis fram aðrar en athuganir á sandburði við suðurströndina í heild, eins og ég minntist á áðan. Hins vegar voru af ameríska varnarliðinu gerðar nokkrar athuganir á árunum kringum 1950 á byggingu hafnar við Þykkvabæ. Til eru frá þeim tíma allgóðar sjómælingar af svæðinu nær ströndinni á milli Holtsóss og Þjórsárósa. Benda lauslegar athuganir til þess, að mjög mikill sandburður sé á þessu svæði jafnframt því sem útgrynni er þar mjög mikið.

Eins og áður sagði í sambandi við Dyrhólaey, má gera ráð fyrir, að ef höfn ætti að vera sæmilega trygg, yrðu hafnargarðar að ná út á a.m.k. 15–20 m dýpi. Við Dyrhólaey eru um 600 m út á 16 faðma dýpi, en við Þykkvabæ virðast vera a.m.k. 1000 m út að tilsvarandi dýptarlínu. Það er því auðséð, að hafnargarðar í Þykkvabæ yrðu alltaf tvöfalt lengri en í Dyrhólaey og ekki vitað um neina grjótnámu þar í nágrenninu, þannig að búast má við, að hafnargerð þar yrði sýnu dýrari heldur en í Dyrhólaey. Til þess að hafa sem gleggsta mynd af hafnarskilyrðum og möguleikum til hafnarbygginga á suðurströndinni, tel ég, að eðlilegt sé, að haldið verði áfram þeim frumrannsóknum, sem þegar eru í gangi, og hyggst ég á yfirstandandi ári nota nokkurn hluta af því fé, sem veitt er til almennra hafnarrannsókna, í þessu skyni, en það verður varið talsverðum hluta af því fé þar núna. Telja má, að flestar þær athuganir, sem gerðar eru á öðrum staðnum, séu einnig í gangi fyrir hinn.“

Í stuttu máli má segja, að á báðum áðurnefndum stöðum, við Dyrhólaey og í Þykkvabæ, séu möguleikar til hafnargerðar, en kostnaðurinn er mjög mikill, og ef gizkað er á, að hafnargerðin í Dyrhólaey kosti 500 millj., eins og vitamálastjóri telur að sé lágmark, þá kostar höfn í Þykkvabæ 800–1000 millj. Það er vitanlega sjálfsagt að rannsaka þetta eins og hægt er. En ég er hræddur um, að það sé eins með Þykkvabæ og Dyrhólaey, að ef hefjast ætti handa með hafnargerð þar, yrði að fá lög um landshöfn, áður en hægt væri að hefjast handa, því þótt Rangárvallasýsla sé helmingi fjölmennari en Vestur-Skaftafellssýsla, þá er ég viss um, að hún er ekki fær um að taka á sig þann hluta, sem hún þyrfti að greiða samkv. hafnalögum fyrir slíka hafnargerð. Þetta er sjálfsagt að taka allt saman með í reikninginn, og ég held, að það væri gott, ef hv. fyrirspyrjandi vildi, — ég sé, að hann hefur verið að skrifa svolítið hjá sér og ætlar kannske að gera einhverjar aths. við það, sem ég hef sagt, — það væri fróðleikur að vita það, hvora höfnina hann metur meira, hvort það ætti frekar að byrja í Dyrhólaey eða í Þykkvabæ. Rannsóknirnar verða látnar fara fram eftir því, sem fé er fyrir hendi, og við þá höfnina, sem á að verða á undan, þarf að flýta rannsóknum. Ég vil hafa góða samvinnu við hv. fyrirspyrjanda og því væri gott að heyra álit hans á því, hvor höfnin ætti að ganga fyrir.

Hv. fyrri fyrirspyrjandi vitnaði í það áðan, hvernig þetta hefði verið fyrr á árum við suðurströndina. Þá minntist ég þess, sem ég hef lesið í sögum, að Ketill hængur sigldi í Rangárós og lagði skipi sínu á Tóftum, þar sem Hrafn lögsögumaður fæddist. Og vissulega væri það gaman að vinna að hafnargerð á þessum stað, og vissulega er þetta mál þess virði, að það sé kannað. En það væri algerlega óraunhæft að viðurkenna ekki þá erfiðleika, sem yfir þarf að stíga til þess að geta gert þetta að veruleika. Það er kostnaðurinn. Möguleikar eru til þess að framkvæma verkið, ef peningar eru fyrir hendi. Enginn vafi er á því, að með nútímatækni er það mögulegt. En fjármagnið vantar, og jafnvel þó að fjármagnið væri fáanlegt mundi verða að því spurt, hvernig svona höfn gæfi arð, hvort það fengist arður af því fjármagni, sem í framkvæmdirnar væri látið.

Herra forseti. Ég vona, að ég hafi nú svarað þessari fsp. nokkurn veginn, og hv. fyrirspyrjendur séu nú sannfærðir um það, að stjórnvöldin hafa látið rannsóknir fara fram, víðtækar rannsóknir, þegar rannsóknir prófessors Trausta Einarssonar eru einnig teknar með, en að sjálfsögðu er rannsóknum ekki enn að fullu lokið, þannig að það yrði hægt að hefjast handa við hafnarframkvæmdir, ef peningar væru fyrir hendi. En ég vil lofa hv. fyrirspyrjendum því, að þessum rannsóknum verður haldið áfram og m.a. því að láta bylgjumæli, sem verður fyrir hendi á næsta vori, fara austur til þess að mæla strauma og styrkleika úthafsbylgjunnar.