02.02.1970
Neðri deild: 51. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 445 í B-deild Alþingistíðinda. (382)

115. mál, iðja og iðnaður

Frsm. meiri hl. (Sigurður Ingimundarson):

Herra forseti. Iðnn. hv. d. hefur haft þetta mál til athugunar, en hefur ekki orðið sammála um afgreiðslu þess. Eins og fram kemur í aths. með frv., þá er markmiðið með þessu frv. að efla aðstöðu stjórnarvalda til aðhalds um það, hverjir hafa leyfi til atvinnureksturs hér á landi, í þessu tilviki til iðju og iðnaðar. Atvinnurekstrarleyfi voru mjög til umræðu á sínum tíma í sambandi við 16. gr. EFTA–samningsins. Ég skal ekki nánar rifja þær umr. upp, en ég vil aðeins benda á, að þeir, sem voru varfærnastir varðandi þann samning og töldu sig mest varða framkvæmd þeirrar greinar, ættu að fagna því nýja frv., sem hér liggur fyrir.

Frv. er að sjálfsögðu þannig úr garði gert, að það stangast ekki beinlínis á við EFTA–samningana. Það má vera, að form þeirra sé með þeim hætti, að þeir, sem hug vilja hafa til þess, telji sig litlu bættari, þó að þetta frv. sé komið fram. Ég vil þó benda á það, að hér er farið að dæmi Norðmanna, en þeir hafa með svonefndri „konsessions-löggjöf“ markað stefnuna í þessum efnum og telja hana fullnægja sínum hagsmunum. Ætti það að vera þeim nokkur huggun, sem huggast vilja.

Frv. gerir ráð fyrir, að lögreglustjórar veiti almennt atvinnurekstrarleyfi, eins og verið hefur, en kveður ótvírætt á um það, að ef atvinnureksturinn er á einhvern hátt óæskilegur eða þjóðhagslega óhagkvæmur, þá skuli vísa umsókninni til ákvörðunar ráðh. Í iðnn. komu fram efasemdir um það af hálfu minni hl., hvort óhætt væri að fela lögreglustjóra að meta það, hvað þeim bæri að senda til úrskurðar ráðh. og hvað ekki. Ég sé enga ástæðu til að vantreysta þeim í því efni, enda tel ég vist, að ríkisstj. eða viðkomandi ráðh. sendi þeim nánari fyrirmæli um meðferð þessara mála, en hægt er eða rétt að setja í lög og er þessi ótti því með öllu ástæðulaus. Það má að sjálfsögðu endalaust um það deila, hvort úrskurðarvaldið í þessum efnum eigi að vera í höndum ráðh. eða einhverrar n., eins og hugur minni hl. virðist standa til. Ég tel víst, að viðkomandi ráðh. muni telja sér skylt að hafa samráð við ríkisstj. alla, þegar um verulegt hagsmunamál er að ræða eða mál, sem orkað geta tvímælis og það getur verið fróðlegt við þessa umr. að heyra álit ráðh. eða yfirlýsingu í því efni. Hins vegar sé ég ekki, hvaða aðili geti verið ábyrgari gagnvart Alþ. og þjóðinni, en einmitt ríkisstj. og tel ég því ekki ástæðu til að breyta til í þessu efni.

Meiri hl. n. leggur til, að frv. verði samþ. óbreytt við þessa umr. og vísað til 3. umr.