01.04.1970
Sameinað þing: 42. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 863 í D-deild Alþingistíðinda. (3828)

144. mál, endurskoðun laga um þjóðleikhús

Fyrirspyrjandi (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. svörin, en mér urðu það mikil vonbrigði, að hann skyldi ekki fást til þess að ræða hér málefnalega um ýmis helztu vandamál Þjóðleikhússins. Ég held, að það sé forsenda þess, að endurskoðun laga um þjóðleikhús verði hagað á skynsamlegan hátt, að fyrst fari fram málefnalegar og víðtækar umræður um þau atriði, og ég trúi ekki öðru en þessi hæstv. ráðh. hafi hugleitt þessi mál og hafi myndað sér ákveðnar skoðanir á þeim. Ég held, að það hefði verið ákaflega gagnlegt, að hann hefði gert grein fyrir þeim skoðunum opinberlega og rætt þær við aðra.

Ég verð að segja það, að mér finnst n. sú, sem hæstv. ráðh. hefur skipað, vera næsta furðulega samansett. Eins og hann greindi frá áðan, er hún skipuð 3 mönnum. Þar er Birgir Thorlacius ráðuneytisstjóri, sem auðsýnilega á sæti í n. sem sérstakur fulltrúi þessa hæstv. ráðh., þar er Þórður Eyjólfsson fyrrv. hæstaréttardómari, sem eflaust á að gæta að því, að hin nýja löggjöf verði fullkomin lögfræðileg smíð, og þar er Baldvin Tryggvason, sem mér virðist vera þarna sem sérstakur fulltrúi Sjálfstfl. Ég hygg, að það hefði verið skynsamlegra að haga skipan þessarar n. á allt aðra leið. Það er alkunna, að starfsmenn Þjóðleikhússins og íslenzkir listamenn hafa mjög mikinn áhuga á endurskoðun þessara laga og á því, að Þjóðleikhúsið verði endurskipulagt á þann veg, að vegur þess geti orðið sem mestur. Nú mun þessi n. að sjálfsögðu hafa samráð við samtök listamanna, eins og hæstv. ráðh. tók fram, en ég hefði talið sjálfsagt, að samtök listamanna hefðu átt fulltrúa í þessari n., og mér finnst það lýsa alveg furðulegri pólitískri innilokunarstarfsemi að hafa n. þannig skipaða eins og hæstv. ráðh. hefur gert. Slíkt getur dregið hættulegan dilk á eftir sér. Ég held, að það þurfi að reyna að losa þessa stofnun úr þeim viðjum, að þarna eigi að vera um að ræða einhver pólitísk helmingaskipti á milli stjórnarflokkanna. Einmitt pólitísk helmingaskiptaregla var á dagskrá, þegar Þjóðleikhúsið hóf starfsemi sína, og var áreiðanlega til einskis gagns þá. Ég held, að það sé orðið tímabært að leysa þessa stofnun úr þeim viðjum.