02.02.1970
Neðri deild: 51. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 446 í B-deild Alþingistíðinda. (383)

115. mál, iðja og iðnaður

Frsm. 2. minni hl. (Gísli Guðmundsson):

Herra forseti. Ég hafði nú gert ráð fyrir, að 1. minni hl. mundi kveðja sér hljóðs á undan 2. minni hl. eða vera til þess kvaddur, en þar sem ég hef verið kvaddur til þess af hæstv. forseta að mæla hér fyrir hönd 2. minni hl., þá mun ég að sjálfsögðu gera það, en ég mun ekki vera margorður um þetta mál.

Ég skal geta þess fyrst, að í 2. minni hl. ásamt mér er hv. 4. þm. Reykv.

Þetta frv., sem hér liggur fyrir, um breyt. á l. um iðju og iðnað, er einn af fylgifiskum EFTA–frv., ef svo mætti að orði kveða, en aðild Íslands að EFTA var, eins og kunnugt er, samþ. hér á hinu háa Alþ. í desembermánuði og gert ráð fyrir því, að mér skilst, að Ísland verði aðili að þessum samtökum 1. marz n. k.

Þetta frv. miðar að því, a.m.k. að nokkru leyti, að samræma þau l. um iðju og iðnað, sem nú gilda, og sérstök ákvæði í EFTA–samningnum. Segja má, að það sé rökrétt afleiðing af því, að EFTA–samningurinn hefur verið samþ. hér á Alþ. Við í 2. minni hl. teljum hins vegar, að á frv., sem hér liggur fyrir, séu gallar, sem Alþ. ætti að bæta úr.

Þetta frv. fjallar fyrst og fremst um iðjuleyfi. Það er gert ráð fyrir því eins og áður, að umsóknir um iðjuleyfi eða leyfi til iðjurekstrar séu sendar hlutaðeigandi lögreglustjóra, en í 3. málsgr. frv. segir, að lögreglustjóri skuli vísa umsókninni til ákvörðunar ráðh., ef svo stendur á, sem nánar er tilgreint:

„1) Ef iðjan er líkleg til að valda einstökum mönnum, héraðinu eða ríkinu tjóni eða óhagræði að ráði.

2) Ef iðjan er sérstaklega hættuleg mönnum, sem hana stunda.

3) Ef iðjunni er annars svo háttað, að varhugavert þykir að leyfa hana, m.a. vegna þess að möguleikar til öflunar hráefnis teljist ónógir, framleiðslu– eða söluaðstæður ófullkomnar, eða telja megi stofnun og starfrækslu iðjufyrirtækisins þjóðhagslega óhagkvæma.“

Síðan segir í næstu málsgr., að ráðh. sé heimilt „að veita undanþágu frá ákvæðum 1. tölul. 1. málsgr. 3. gr. sjálfra iðjulaganna og sömuleiðis ákvæðum 4. gr., ef sérstaklega stendur á“, en þessar undanþágur varða ríkisfang og heimilisfestu. Þetta eru því nokkuð þýðingarmiklar undanþágur og þarf ekki að hafa mörg orð um það.

Ég vil þó í fyrsta lagi segja það, að ég tel, að nokkuð mikill vandi sé lagður á herðar lögreglustjórum, ef þeim er ætlað að skera úr um það sjálfum, hvort iðju þeirri, sem um er að ræða, sé annars svo háttað, að varhugavert þyki að leyfa hana, m.a. vegna þess að möguleikar til öflunar hráefnis teljist ónógir, framleiðslu– og söluaðstæður ófullkomnar eða telja megi stofnun og starfrækslu iðjufyrirtækisins þjóðhagslega óhagkvæma. Okkur í minni hl. finnst of mikill vandi lagður á herðar lögreglustjórunum, ef þeim er ætlað að úrskurða um þetta og baka sér ábyrgð af þeim úrskurði, hver svo sem hann verður. Í öðru lagi sýnist okkur minnihlutamönnum, að þegar svo kemur að því, að slíkum umsóknum er vísað til ráðh., sem l. ætlast til, þá sé þeim ráðh. þar með fengið nokkuð mikið vald. Þegar hið opinbera hefur tekið sér slíkt vald, sem þarna er um að ræða, í öðrum tilfellum, þá hefur það verið venja, að þá hafa verið settar til þess sérstakar n. eða stofnanir að meta aðstæður og veita leyfi, en ekki falið einstökum ráðh. að gera það. Það er til of mikils ætlazt, að einstakur ráðh. eigi að hafa aðstöðu til að gera slíkt og ýmislegt er athugavert við það að öðru leyti, að pólitískur ráðh. úthluti einn slíkum leyfum. Nú geri ég að vísu ekki ráð fyrir því, að það sé tilgangurinn með þessu frv. að það vald, sem þessum ráðh. yrði þarna fengið, yrði notað á þennan hátt og ég geri ekki ráð fyrir, að núverandi ráðh. hafi hugsað sér það, en þetta eru l., sem eiga að gilda áfram og þeim er þannig háttað, að ráðh. er þarna að okkar dómi fengið óeðlilegt vald. Auk þessa er svo ráðh. í frv. fengið vald til þess að veita umsækjendum undanþágu frá gildandi l. að því er varðar heimilisfang á Íslandi og ríkisfang. Og má nú vera að það sé í reyndinni stærsta atriðið af þessum, sem ég hef nú nefnt.

Það kom fram við 1. umr., að ýmsir, sem um þetta mál ræddu, töldu að vald til þess að veita slíkar undanþágur ætti ekki að vera í höndum ráðh., heldur í höndum Alþ. hverju sinni, þannig að það ætti ekki að veita erlendum aðilum leyfi, nema það væri samþ. af Alþ. og hefur þetta vissulega nokkuð til síns máls. Það hefur alltaf verið talið, að það skipti miklu, að verndarákvæði væru í íslenzkri löggjöf, sem tryggðu Íslendingum meiri rétt en öðrum til þess að reka hér atvinnu. Nú þykjumst við hins vegar vita það, að ákvæði um það að koma þessu þannig fyrir, að Alþ. fjalli um svona undanþágur hverju sinni, eigi varla fylgi hér á hinu háa Alþ. og má að vísu segja, að það sé nokkuð þungt í vöfum að ætla Alþ. að taka slíkar ákvarðanir í löggjöf, þar sem slíkt gæti borið að milli þinga og væri óþægilegt að geta ekki veitt svör við umsóknum af þessu tagi.

Þess vegna höfum við hnigið að því ráði í 2. minni hl. að leggja til, að Alþ. kjósi sér sérstaka fulltrúa, sem séu til staðar og hafi það hlutverk, eins og segir í brtt. okkar á þskj. 342, að gefa umsögn um þessi mál til ráðh. og sömuleiðis að leggja á ráð um það, hverjar reglur ráðh. skuli setja lögreglustjórum um þau atriði, sem þeir verða að úrskurða. Við teljum þessa till. þess efnis, að hæstv. ríkisstj. ætti að geta samþ. hana og hún ætti að geta gengið fram hér á hinu háa Alþ.