08.04.1970
Sameinað þing: 43. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 937 í D-deild Alþingistíðinda. (3911)

201. mál, nefndir

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég get verið mjög stuttorður. Ég hygg, að það sé engan veginn eins mikill ágreiningur milli mín og hv. 1. þm. Norðurl. v. eins og hann vildi vera láta, vegna þess að hann viðurkenndi einmitt strax í upphafi ræðu sinnar, að sér fyndist það nokkuð öndvert, að það væri verið að beina til ráðh. fsp. út af gerðum Alþingis. Og ég segi það eins og er, að mér hefði aldrei komið til hugar að gera nokkra aths. við þessa fsp., ef hún hefði einungis fjallað um þær nefndir, sem ráðh. hafa skipað. Ég tel þvert á móti eðlilegt, að fsp. um slíkt efni sé beint til ráðh., og þingið á rétt á því að fá að vita um það. Hitt tel ég alveg út í hött, að Alþ. sé að beina fsp. til ráðh. um það, sem Alþ. hefur sjálft ýmist lögfest eða sett ákvæði um með öðrum hætti. Og aðaluppistaðan í þeirri vinnu, sem hér liggur fyrir, hlýtur að verða að safna gögnum um það efni, sem ég veit, að hv. þm. hefur auðvitað mjög á fingrum sér, vegna þess að hann er fræðimaður í þeim efnum, stjórnarfarsrétti. Þetta er verulegur hluti af stjórnarfarsrétti landsins, sem hér er verið að óska eftir, að stjórnin geri skýrslu um. Slíkt hið sama er hægt að gera um ótalmörg efni, sem liggja fyrir og engin launung er á, og segja: Stjórnin á að gefa skýrslur um þau. En það er bara miklu meira mál og flóknara heldur en hægt sé að sinna með þessum hætti. Við erum sammála, hygg ég, um það, að varðandi fsp. um aðgerðir ríkisstj. og ráðh. sé eðlilegt, að þeim sé til þeirra beint, en það er ekki eðlilegt að beina fsp. til ráðh. um aðgerðir Alþingis og allra sízt, þegar um flóknar og margþættar aðgerðir er að ræða, eins og hér um ræðir og er að tefla. Það er vegna þessa, sem ég hreyfði þessu máli. Ég hygg, að það sé rétt, að svipað þessu hefur stundum komið fyrir áður. Þó er það undantekning, að ráðh. er spurður um það, sem í raun og veru heyrir undir Alþingi og forseta Alþingis eða aðgerðir Alþingis eins og á sínum tíma var spurt um lóðaúthlutun á Þingvöllum. Formlega er það svo, að Þingvellir heyra undir forsrh., en efnislega er það þannig, eins og menn vita, að það er Þingvallanefnd, kjörin nefnd, sem um þá fjallar. Þess vegna var hæpið að beina þessu til forsrh. Látum það vera. Það var þó annars eðlis, en hér er verið að fara fram á í fsp.-formi, að ríkisstj. taki að sér að safna vissum víðtækum, fræðilegum upplýsingum um störf Alþingis og svari þeim. Ég tel, að slíkt sé með öllu fráleitt.

Og út af því, sem hæstv. forseti sagði og raunar hv. andmælandi minn viðurkenndi einnig, að fsp. hafi stundum farið nokkuð úrskeiðis, og ég hygg, að ekki verði um það deilt, að þessi fsp. varðandi störf Alþingis fer úrskeiðis, þá er það í raun og veru nokkurs annars eðlis en samþykkt Alþingis á fsp. Ég skil það þannig, að það sé pólitísk ákvörðun um það, að Alþ. geti neitað fsp., sem hafa verið lagðar fram, vegna þess að verið sé að ræða um svo viðkvæm mál, að menn telji, að þau eigi að liggja í þagnargildi. Það geta verið utanríkismál, það geta verið einkamál manna o.s.frv., o.s.frv. Hér er um hitt að ræða, hvort fylgt er því, sem eðli sínu samkv. og lögum samkv. getur orðið meðhöndlað af þinginu í fsp.-formi. Það er þetta, sem fyrir mér vakir, og það er ekki, eins og ég segi, vegna þess að ég sé á móti því, að þessi gögn séu lögð fram og þeirra sé aflað. En það er ekki hægt að ætlast til þess, að ríkisstj. taki sig fram um, nema þá með ærnu starfsliði og tíma, að semja þann kafla úr stjórnarfarsrétti, sem hér er farið fram á, að lesinn verði upp úr þessum stól eftir vikutíma.