12.03.1970
Neðri deild: 58. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 531 í B-deild Alþingistíðinda. (548)

96. mál, álbræðsla við Straumsvík

Frsm. meiri hl. (Sigurður Ingimundarson):

Herra forseti. Iðnn. hefur haft þetta mál til athugunar og m.a. rætt við og fengið ýmsar upplýsingar hjá þeim dr. Jóhannesi Nordal, stjórnarformanni Landsvirkjunar, og Eiríki Briem verkfræðingi, framkvæmdastjóra Landsvirkjunar. Hér er um að ræða staðfestingu á viðaukasamningi við Swiss Aluminium um álbræðslu við Straumsvík. Efnislega er aðallega um tvö atriði að ræða, annars vegar hröðun á stækkun verksmiðjunnar um rúm 2 ár, eða frá 1975 til sept. 1972, og hins vegar ný stækkun hennar um 1/6 hluta og að þeirri stækkun verði lokið í júlímánuði n.k.

Alkunnugt er, að raforkuverð frá stórvirkjunum er að jafnaði miklu hagstæðara en frá smærri virkjunum. Þó er það háð því skilyrði, að hægt sé að selja verulegan hluta raforkuframleiðslunnar fljótlega eftir að virkjunarframkvæmdum er lokið. Rétt er að hafa það í huga í þessu sambandi, að þessi stórhuga framkvæmd við Búrfellsvirkjun nærri þrefaldaði vatnsvirkjun þjóðarinnar, og gefur auga leið, að nýting landsmanna sjálfra á þessari miklu raforku hefur orðið sáralítil fyrstu árin, án sérstakrar raforkusölu til ÍSALs eða annarra stórra aðila, og hefði kostnaðarverðið til almennra nota orðið geysilega hátt fyrstu árin, a.m.k. fyrsta áratuginn og sennilega fram á 9. áratug aldarinnar. Í þessu sambandi hefur m.a. verið upplýst, að meðalkostnaðarverð á raforku frá Búrfelli verður nú í ár 47.4 aurar á selda kwst., þegar reiknað er með sölu til ÍSALs, en hefði orðið 224 aurar ef aðeins væri seld orka til eigin þarfa landsmanna. Með ráðgerðri sölu til ÍSALs er áætlað, að meðalkostnaðarverð verði á árinu 1977 komið niður í 20.1 eyri, en án sölu til ÍSALs yrði það 52.5 aurar á því ári. Þessar tölur sýna svo glöggt sem verða má, hve hagstæð áhrif raforkusalan til ÍSALs hefur á verð raforku til almennra nota í landinu.

Einnig má benda á það, að hin mjög svo misjafna þörf fyrir raforku til almennra þarfa eftir árstíðum og hlutum sólarhringsins hefur mjög óhagstæð áhrif á raforkuverð og verður í rauninni að meta verðið miðað við þá notkun, sem gerir það að verkum, að meðalverðið á hverja kwst. verður miklu dýrara en ella. Áhrif þessa atriðis koma mjög skýrt í ljós, ef við hugsuðum okkur að álverksmiðjan væri aðeins starfrækt venjulegan 8 klst. vinnudag, þá yrði að selja henni raforkuna sem eins konar topporku, hvorki meira né minna en þrisvar sinnum dýrari, til þess að fá sömu tekjur af raforkusölunni. M.ö.o.: það hefði orðið að selja raforkuna á 79.2 aura hverja kwst. í stað 26.4 aura, sem nú er. Af þessu sést, að álverksmiðjan er framúrskarandi hagkvæmur raforkukaupandi hvað þetta snertir, ekki bara með tiltölulega jafna orkunotkun nótt og dag, heldur einnig sumar og vetur.

Stjórnarandstaðan telur, að raforkuverðið til álbræðslunnar sé of lágt. Um það má að sjálfsögðu lengi deila og raunar erfitt að fá úr því skorið, hvort hægt hefði verið að komast lengra í samningunum en raun var á, eða hvort of snemma hafi verið upp staðið frá þeim samningum. Um það er í rauninni fánýtt að deila. Og ég fyrir mitt leyti treysti því, að þeir Íslendingar, sem að samningunum stóðu, hafi betri aðstöðu til að meta það heldur en þeir, sem nú deila á samningana með litlum velvilja. Og ótvírætt er, eins og ég hef þegar sýnt fram á, að orkusalan til ÍSALs hefur haft mjög hagstæð áhrif á kostnaðarverð raforku til almennra nota, svo mjög, að þessi stórvirkjun hefði ekki verið framkvæmanleg án þessarar sérstöku sölu. Sannleikurinn er sá, að raforkuverðið verður ekki einangrað úr þessu stóra og flókna dæmi og rætt eða metið eitt sér. Og það hefur Swiss Aluminium áreiðanlega ekki gert. Það hefur áreiðanlega miðað sína samninga við heildarútkomuna úr dæminu. Þeir hafa aðeins reiknað það út, hvað það kostaði að senda talsvert mikið unnið hráefni, þ.e. súrál, sunnan frá Afríku norður til Íslands ásamt öðrum hráefnum, kolaskautum og kreólíti, frá öðrum löndum til þess að ganga í gegnum þessa sérstöku rafmagnsmeðferð hér, í landi, sem engan markað hefur fyrir ál, svo að senda verður alla framleiðsluna aftur suður á bóginn.

Staðsetning raforku og flutningskostnaður skiptir auðvitað miklu í sambandi við þetta mál. Staðsetning orkunnar í markaðslandinu væri hagkvæmari og staðsetning hennar við hráefnisnámurnar væri líka miklu hagstæðari, því að álið er ekki nema um helmingur þess súráls, sem notað er til framleiðslunnar, og koma þá önnur hráefni til. Þetta er svona mikið flutningaspursmál. Við höfum líka oft heyrt það, að við getum innan tíðar átt í erfiðri samkeppni við kjarnorkurafmagn, en það hefur m.a. þann kost, að það er hægt að staðsetja hvar sem er.

Augljóst samhengi er líka milli raforkuverðs og framleiðslugjalds. Þegar raforkuverðið lækkar, þá vex að sjálfsögðu hagnaðurinn að öðru jöfnu, og um leið líka skattarnir eða framleiðslugjaldið. Allt þetta sýnir, að erfitt er að einangra raforkuverðið eitt út af fyrir sig, og mætti nefna fleira í þessu sambandi.

Ef hins vegar er litið á samningana í heild, ættu allar deilur að vera óþarfar. Ég hef áður bent á hagstæð áhrif á raforkuverðið til almennra nota, mjög hagstæð áhrif, og það má einnig benda á það, að reiknað hefur verið út, að gjaldeyristekjur af raforkusölu og framleiðslugjaldi nægja til þess að endurgreiða öll lán virkjunarinnar með 7% vöxtum á fyrstu 15 árunum. En reikna má með, að slík vatnsaflsvirkjun endist í 60–90 ár, og ætti hún því að skila álitlegum hagnaði áður en lýkur. Enn er þó ótalinn margvíslegur óbeinn hagnaður, t.d. launatekjur þjóðarinnar við mannvirkjagerð, oft talsvert á annað þúsund manns, í hinu erfiða árferði að undanförnu og eftir hröðun framkvæmda og nýja stækkun vinna um 500 manns þarna við framleiðslustörf og gjaldeyrisöflun. Enn má bæta við margvíslegri innlendri þjónustu við þetta stóra fyrirtæki, hagnaði Hafnfirðinga af Straumsvíkurhöfn, útflutningi framleiðslunnar með íslenzkum skipum o.fl. Orkusölusamningurinn er undirstaða alls þessa, og ég hygg, að stuðningsmenn þessa máls þurfi ekki að kvíða dómi sögunnar. Mikilvægast af öllu tel ég þó, að skrifaður hefur verið nýr kapítuli í íslenzkri atvinnusögu með þessari þreföldun á vatnsvirkjun landsmanna og að undirbúningur er hafinn að öðrum stórvirkjunum. Þjóðin hefur um áratugi látið sér nægja að dreyma og yrkja um þjóðarauðinn í orkulindum landsins, en nú hefur verið hafizt handa. Öll þjóðin styður þetta framtak að undanskildum framámönnum stjórnarandstöðunnar, sem ekki þola algera forystu ríkisstj. í þessu stórmáli, en báru ekki gæfu til þess að stela frá henni glæpnum með því að gerast stuðningsmenn málsins frá upphafi.

Eiturverkanir flúorvatnsefnis og ísinn í Þjórsá hafa brugðizt illa við liðsbóninni. „Sumarhúsa-hagfræðin“ er á undanhaldi eins og vera ber, enda var hún ekki miðuð við síðari hluta 20. aldarinnar eða aðstæður á þeim tíma. Það er ánægjulegt, að framsóknarmenn eru sem óðast að átta sig á eðli þessa máls, og væri jafnvel ástæða til að slátra alikálfi. Það er a.m.k. meira já en nei í nál. þeirra, en maður hefði nú sennilega hrokkið við, hefðu þeir sagt afdráttarlaust já, eftir allt það, sem á undan er gengið.

Meiri hl. n. leggur til, herra forseti, að frv. verði samþ. óbreytt og vísað til 3. umr.