12.03.1970
Neðri deild: 58. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 552 í B-deild Alþingistíðinda. (554)

96. mál, álbræðsla við Straumsvík

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Það er hér aðeins fsp., til stuðningsmanna þessa máls, þessa nýja samnings. Ég held að báðir aðilar, meiri hl. og 2. minni hl. iðnn., hafi látið orð falla á þá leið, að það væri gróði fyrir Landsvirkjun að selja viðbótarorkuna jafnvel fyrir þetta verð, sem er nú mikið búið að ræða um, vegna þess að það séu engir kaupendur að henni, eins og sakir standa, nema álverksmiðjan. Þess vegna sé hagur í þessu og alveg hreinn gróði fyrir þjóðina að geta selt þessa orku fyrir þetta verð. Nú skilst mér, að viðbótarvirkjunin kosti eitthvað, svo að þessi viðbótarorka, sem talað er um, er ekki alveg ókeypis. En hitt get ég vel skilið, að framleiðsluverð hennar út af fyrir sig sé mun lægra en framleiðsluverð orkunnar í heild, og sé því a.m.k. ekki verra að selja hana með sama verði og hina fyrri. En þegar verið er að tala um gróða af þessum viðskiptum, þá vil ég fá að vita, við hvað þeir miða. Mér skilst, að þarna eigi að semja fyrir alla framtíð um viðbótarorkuna, sem fæst úr viðbótarvirkjuninni. M.ö.o., Íslendingar geti ekki nokkurn tíma hagnýtt sér þá orku, sem fæst úr þessari viðbótarvirkjun, og ef dæmið er reiknað í heild, þá held ég, að menn verði að bera það saman við væntanlega virkjun Íslendinga handa sjálfum sér, jafnmikla. Og hvað kostar hún? Við skulum hugsa okkur, að sú virkjun, sem Íslendingar þyrftu að byggja eftir örfá ár, kannske 4–6 ár, handa sjálfum sér, framleiddi orku, sem kostaði kannske helmingi meira en orkan frá Búrfellsvirkjun, og við það verð verða Íslendingar sjálfir að búa um alla framtíð. Hvað verður gróðinn þá mikill af því að afsala sér viðbótarorkunni núna fyrir þetta verð?

Þetta langar mig til þess að heyra eitthvað um frá þeim, sem hafa rannsakað þetta mál mikið betur en ég.