12.03.1970
Neðri deild: 58. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 552 í B-deild Alþingistíðinda. (555)

96. mál, álbræðsla við Straumsvík

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Ég er nú því miður ekki svo reikningsglöggur, að ég geti reiknað hér út í ræðustólnum, hvað viðbótarorkan um alla framtíð muni kosta Íslendinga, en af tilefni þessarar fsp. get ég þó sagt, að vegna þess að hér eru seld til viðbótar 20 MW, þá er núna tekin inn í reikningsdæmið sú 20 MW viðbótarvirkjun, sem þarf til þess, og áætlað hvað hún muni kosta. Eins og kemur fram í skýrslunni, sem lögð var fram í maímánuði á s.l. þingi og er sem fskj. með þessu frv., er gerð alveg sérstaklega grein fyrir því, að sú viðbótarvirkjun, sem þarf að komast fyrr í gagnið, vegna þessa innskots núna, er tekin inn í dæmið, þegar ákvarða skal, hvort rétt sé að selja þessa orku við þessu verði eða ekki.

Svo er það í öðru lagi mikill misskilningur hjá hv. 1. þm. Vestf., að Íslendingar geti aldrei nokkurn tíma hagnýtt sér þessa orku. Þetta er tímabundinn samningur. Frá þeim tíma, sem við byrjuðum að selja orkuna, var hann til 25 ára, með framlengingarrétti á báða bóga til 10 ára fyrst og svo 10 ára aftur, þ.e.a.s. til 45 ára. Það eru hin endanlegu mörk. Eftir þann tíma geta Íslendingar skrúfað fyrir þessa orku til álbræðslunnar.