01.04.1971
Neðri deild: 80. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 952 í B-deild Alþingistíðinda. (1052)

9. mál, Iðnlánasjóður

Frsm. (Sigurður Ingimundarson):

Herra forseti. Iðnn. hefur haft þetta mál til athugunar og m. a. rætt við fulltrúa frá Iðnlánasjóði og Iðnþróunarsjóði. Frv. er flutt til staðfestingar á brbl. um Iðnlánasjóð. Ég skal, með leyfi forseta, til þess að stytta mál mitt lesa örstutta grg. um þetta efni frá stjórn Iðnlánasjóðs sem n. hefur borizt. En þar segir m. a.:

„Á s. l. sumri stóð Iðnlánasjóði til boða lán hjá Iðnþróunarsjóði til tiltekinna framkvæmda, en slíkt lán var með gengisákvæði. Samkvæmt ofangreindu lagaákvæði hefði átt að endurlána þetta fé með gengisákvæði.

Stjórn sjóðsins taldi þessa leið ekki færa, þar sem þá hefði þurft að draga umsækjendur í dilka, þannig að sumir fengju lán með gengisákvæðum, en aðrir ekki. Á hinn bóginn taldi stjórn sjóðsins óverjandi annað en að gera einhverjar ráðstafanir til að tryggja hag sjóðsins gegn þeim möguleika, að gengisbreyting gæti átt sér stað á tímabilinu 1970–1980.

Önnur lausn var sú, að á öll útlán verði sett gengisákvæði að hluta til. Þessari leið hafnaði stjórnin einnig af ýmsum ástæðum, m. a. þeirri, að ógerlegt væri að ákveða gengisákvæðishluta, er ekki væri ljóst, hverjar yrðu heildarlánveitingar Iðnþróunarsjóðs til Iðnlánasjóðs á næstu árum. Niðurstaðan var sú, að óskað var eftir við iðnrh., að gerð yrði sú breyting á lögum Iðnlánasjóðs, að honum verði heimilt að endurlána lánsfé Iðnþróunarsjóðs án gengisákvæða, enda verði gerðar aðrar ráðstafanir til þess að tryggja hag sjóðsins gegn gengisáhættunni. Var þá ljóst, að hækkun útlánsvaxta væri raunhæfasta leiðin.

Að settum brbl. í júlí 1970 samþykkti ráðherra tillögu stjórnar sjóðsins um hækkun útlánsvaxta um ½%, úr 8½ í 9% á ári.“

Hér lýkur tilvitnuninni í grg. Iðnlánasjóðs, og það má segja, að vöxtum sé stillt mjög í hóf, að það séu góð skipti fyrir lántakendur að hlíta þessum vöxtum og losna við gengistryggingarákvæðið, a. m. k. þegar um löng lán væri að ræða. Ég skal geta þess til samanburðar, að mér hafa borizt í hendur upplýsingar um lánakjör iðnaðarins í Danmörku og Finnlandi og eru þau svipuð og sízt betri heldur en hér um greinir. T. d. hef ég þær upplýsingar frá Finanseringsinstitutet for industri og handel a/s í Danmörku, að samkvæmt ársskýrslu sjóðsins fyrir árið 1969 voru útlánsvextir 8½–10% á ári, meðalvextir útlána í árslok 1969 voru 9,20% það ár, en í árslok 1968 9.17%, þ. e. a. s. hærra heldur en hér er um að ræða hjá Iðnlánasjóði. En hámarkstími hefur þar verið lækkaður í 8 ár árið 1969, og lánstími til vélalána er aðeins 4–6 ár. Frá hliðstæðri stofnun í Finnlandi hef ég þær upplýsingar, að í desember 1970 hafa vextir til iðnaðarins verið frá 8½–10% á ári.

Herra forseti. Iðnn. leggur til samhljóða, að frv. verði samþ.