18.11.1970
Efri deild: 17. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 282 í B-deild Alþingistíðinda. (107)

101. mál, atvinnuöryggi

Karl G. Sigurbergsson:

Herra forseti. Það er nú svo mikið búið að ræða þetta frv., sem liggur hér fyrir til afgreiðslu, að það má segja, að það sé að bera í bakkafullan lækinn að fara að bæta þar við ræðu. En þó finnst mér nú rétt að gera það.

Það var viðurkennt af öllum eða a. m. k. af öllum sanngjörnum mönnum, að kauphækkunin, sem samið var um í sumar, hefði verið réttmæt og verkamenn og aðrir launþegar hefðu þar ekki farið fram úr því, sem þeim bar miðað við aðstæður í þjóðfélaginu. En í kjölfar þeirra samninga hljóp samt af stað ein gífurlegasta verðhækkunarskriða á neyzluvörum og þjónustu, sem þekkzt hefur hingað til. Fóru þær verðhækkanir langt fram úr því, sem hægt hefði þó verið að réttlæta með kauphækkuninni, sem aðeins nam 15–18%, þar sem verðhækkanirnar aftur á móti munu vera komnar um og yfir 30% í mörgum greinum. Ég ætla ekki að fara að telja þær verðhækkanir hér upp í einstökum liðum, því að það hefur verið gert hér margoft við umr. um þetta frv. En ég get ekki látið hjá líða að víta það aðgerðaleysi ríkisstj., að hún skyldi ekki reyna að stöðva þessar verðhækkanir með því að fyrirskipa verðstöðvun án fyrirvara, á meðan rannsókn færi fram á því, sem gera þyrfti til lagfæringar. Ríkisstj. fór öðruvísi að. Hún beinlínis auglýsti eftir verðhækkunum, og þegar þær verðhækkanir voru komnar fram samkv. þeirri auglýsingu, þá kom verðstöðvunin. Aðgerðir ríkisstj. hafa því aðeins miðazt við það að setja skorður við því, að kaupgjald hinna lægst launuðu hækkaði samkv. samningum. Ríkisstj. hefur ekki reynt að stöðva verðbólguna á raunhæfan hátt, á þann hátt, sem ætla mætti, að hefði átt á sér fullkominn rétt, þ. e. að tryggja launamönnum samningsbundin laun, sem þó hefði verið hægt að gera við þær aðstæður, sem hér hafa orðið, þar sem saman hafa farið mikill sjávarafli og stórkostlegar verðhækkanir á útflutningsafurðum, sem valdið hafa stórauknum þjóðartekjum. Nei, hér er ekki stefnt að því, heldur öfugt, vegna þess að hér er stjórnað samkv. íhaldsog afturhaldsstefnu fyrir braskara og skuldakónga, fyrir okrara og afætur í þjóðfélaginu, stjórnað samkv. stefnu, sem því aðeins er hægt að framkvæma, að Alþfl. láni til þess þm. sína og ráðh. að knýja slík frv. í gegn.

Þm. Alþfl. og ráðh. hefur á liðnum áratugum verið óspart att fram til að afsaka árásir á gerða kjarasamninga. Á sama tíma hafa aftur á móti kjósendur þessara þm., menn í verkalýðs- og launþegafélögum og öðrum samtökum launamanna, staðið með annarra flokka mönnum til að mótmæla þeim árásum. En þessum þm. hefur verið att fram til fleiri verka en að afsaka árásirnar. Þeim hefur einnig verið beitt fyrir árásarplóginn. Má í því sambandi nefna árásir á gerða kjarasamninga sjómanna á undanförnum árum eða a. m. k, á liðnum áratug. Í samstarfstíð núv. ríkisstj.-flokka hefur

Alþfl. farið óslitið með sjávarútvegsmál. Aðgerðir þeirra ráðh., sem farið hafa með þau mál, hafa einkennzt af lögþvingunum og gerðardómum og gerðardómslögum. Æ ofan í æ hafa þeir skellt á brbl. eða lögþvingunum í einhverri mynd, sem allar hafa einkennzt af því að rýra kjör sjómannastéttarinnar og beinlínis breytt kjarasamningum þeirra, sem í gildi voru á hverjum tíma. Kjarasamningum þeirra við útvegsmenn hefur verið breytt með brbl., og þeir hafa verið dæmdir til að falla frá samningaviðræðum um kjör sín með lagaboði, með gerðardómi. Hér skal aðeins bent á nokkur dæmi af þó allmörgum.

Brbl. voru sett 24. júní 1962. Þessi lög fólu það í sér, að gerðardómur skyldi ákveða kjör síldveiðisjómanna, ef samningar tækjust ekki. Gerðardómsúrskurðurinn kom svo daginn eftir. En til hvers voru þessi lög sett? Þau voru sett til þess m. a. að færa atvinnurekendum, þ. e. útvegsmönnum, álitlegan hluta af umsömdu skiptaverði, sem gilt hafði í mörg ár milli þessara samningsaðila, færa þeim hluta af umsömdu skiptaverði til þess að greiða tækjakaup og annan kostnað, sem til útgerðarinnar þurfti. Þá var einnig tekið með í leiðinni í þessum brbl., að sérstakur skattur var lagður á sjómenn. Síðan hafa dunið yfir sífelldar lagasetningar, sem miðast við það, að svo og svo mikið skuli tekið af fiskverðinu, áður en skiptaverð er ákveðið. Í rauninni hefur hér oft og tíðum gilt margs konar fiskverð. Í júnímánuði árið 1965 sigldi allur síldveiðiflotinn í höfn, allir síldarsjómenn komu í land, ekki til að setjast að veizluborði, heldur til að mótmæla of lágu síldarverði og jafnframt til að mótmæla brbl., sem þá voru sett um sérstakan skatt, stóran skatt, sem kallaður var því fína nafni verðjöfnunarskattur. Skattur þessi var, að mig minnir, eða átti að vera, 15 kr. af hverju bræðslusíldarmáli. Þennan skatt átti að nota til þess að standa straum af tilraunum með síldarflutninga til Norðurlandshafna. Það var m. a. til þess að mótmæla þessum skatti, að sjómennirnir sigldu í höfn. Ég skal ekki ræða hér meira um tildrög heimsiglingar flotans að sinni, en tek þó fram, að ég geri mér fulla grein fyrir því, að hér lá einnig meira á bak við. Sjómenn voru hér að mótmæla sífelldum árásum undangengin ár og vildu, að lát yrði á þeim árásum.

Í des. 1968 voru sett lög um ráðstafanir í sjávarútvegi vegna breytingar gengis íslenzkrar krónu. Það hefur nokkuð verið minnzt á þessi lög við umr. að undanförnu, nú síðast í sjónvarpsþætti í gærkvöldi, og get ég þess vegna ekki látið hjá líða að minnast aðeins á þau. Með þessum lögum var ráðizt svo harkalega á gildandi kjarasamninga fiskimanna, að annað eins hafði ekki áður gerzt og hefur jafnvel ekki gerzt síðan, þótt margt ljótt hafi komið fyrir í þessum efnum. Með þessum ráðstöfunum einum var kippt út úr umsömdu skiptaverði álitlegri fúlgu, 17%, til greiðslu upp í útgerðarkostnað, 10–20% eftir tegundum afla, til greiðslu í stofnfjársjóð fiskiskipa, þegar landað væri hér heima, og 22% til sama stofnfjársjóðs, þegar landað væri erlendis. Samtals voru þetta 27–37%, sem útvegsmönnum var rétt þarna á silfurfati, sem tekið var beint af umsömdu skiptaverði. Þetta var nokkuð stórt stökk í einu, og það var vægast sagt vogunarstökk hjá ríkisstj. að leyfa sér þetta. Hún var minnug þess, sem gerðist sumarið 1965, eins og ég gat um áðan, þegar síldveiðiflotinn sigldi í höfn. Og hún kærði sig ekki um slíkt ástand aftur. Þess vegna var 9. gr. sett í þessi lög, en hún er ekki í lagafrv. í upphafi, heldur kom hún inn í lögin samkv. sterkum áskorunum og beiðnum utan frá, og leyfi ég mér að minnast hér aðeins á tildrög þess, að þessi 9. gr. kom hér inn í.

Það stendur hér í nál., sem var lagt fram af minni hl. sjútvn. við umr. um þessi nefndu lög, með leyfi hæstv. forseta:

„Eftir að frv. var lagt fram, hafa sjómannaráðstefna Sjómannafélags Íslands, haldin 8. þ. m., [þ. e. des. 1968] og stjórn Farmanna- og fiskimannasambands Íslands mótmælt harðlega þeirri skerðingu á kjörum sjómanna, sem ráðgerð er í umræddu frv., eins og fram hefur komið í fréttum. Í samþykkt þessara samtaka er jafnframt lögð áherzla á, að réttur sjómanna verði tryggður með öðrum ráðum, ef Alþ. samþykki frv.“

Eftir að þessi mótmæli komu fram, var þetta tekið inn í frv., eins og kemur hér fram í brtt. á þskj. 151 frá meiri hl. sjútvn., þar sem segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Á eftir 8. gr. komi ný gr., sem verði 9. gr.: „Kjarasamningum milli útvegsmanna og sjómanna, sem samkv. ákvæðum þeirra var ætlað að gilda til ársloka 1969, er heimilt að segja upp án fyrirvara eftir gildistöku þessara laga.“

Hæstv. fjmrh. sagði hér í umr., að þetta ákvæði hefði verið sett inn af þeirri einu ástæðu, að nokkur hluti sjómannastéttarinnar hefði verið með lausa samninga, og það hefði þess vegna verið talið rétt, að þeir sætu allir við sama borð og gætu setzt að samningum um sín kjör á eftir. Það má vel vera, að hann hafi nokkuð rétt fyrir sér í því, þegar hann segir þetta, því að mig minnir nú, að samtök yfirmanna hafi verið með lausa samninga, en undirmennirnir voru aftur á móti ekki búnir að segja upp. Ég vil minna hæstv. ráðh. á það og fleiri, sem hér eru staddir, að ég álít, að þetta ákvæði hafi verið sett inn einnig af annarri ástæðu og ekki síður af þeirri ástæðu, að ríkisstj. var þess minnug, að sjómannastéttin lét ekki bjóða sér alla hluti umyrðalaust. Og ég álít, að hún hafi einmitt hræðzt það í þessu tilfelli, að sjómannasamtökin beindu spjótum sínum gegn henni sjálfri til þess að ná einhverju aftur af því, sem af stéttinni var tekið með þessu lagaboði. En með því að leyfa þeim að hafa lausa samninga, þá leiddi ríkisstj. málið að samningaborði við útvegsmenn. Hitt var annað mál, að hún hafði aftur í bakhöndinni að hjálpa til við þá samningagerð, eins og kom í ljós síðar. Þannig er háttað með samninga fiskimanna og hefur verið í langa tíð, að þeim þarf að segja upp með tveggja mánaða fyrirvara miðað við, að þeir renni út eða falli úr gildi um hver áramót, annars framlengjast þeir um eitt ár í senn. Nú höfðu, eins og ég gat um áðan, ekki öll félögin sagt upp þessum samningum sínum, og þau tóku því það tækifæri eða því tilboði að setjast að samningaborði og reyndu að ná aftur hluta þess, sem af þeim var tekið með lögunum. En auðvitað reyndu útvegsmenn, sem ég lái þeim ekkert, og sennilega láir þeim það enginn, að halda því, sem var búið að rétta þeim á silfurdiski, eins og ég nefndi áðan. Og þeir sátu við sinn keip og gáfu ekkert eftir. En þá kom til kasta ríkisstj. aftur að kippa í spottann. Og það var kippt í spottann 18. febr. 1969. Þá voru sett lög hér á Alþ. um lausn kjaradeilunnar. Það var deilt mikið um þá lagasetningu hér á þingi, þegar frv. var til umr. Ég hlustaði á allar þær umr. og vil nú minna hv. þm. suma hverja á það, að þeir ættu að rifja það upp, sem þeir létu út úr sér í sambandi við þær umr., hér á hv. Alþ. Það hefur breytzt viðhorfið hjá sumum þeirra síðan, a. m. k. ofurlítið.

Ég tel það rétt að geta þess hér í leiðinni, að í sumar voru sett brbl., sem bönnuðu farmönnum að leysa mál sín við samningaborðið. Raunar voru þetta endurtekningarlög, sem sett voru á þennan starfshóp, sem leiddi til þess, að hver einasti maður sagði starfi sínu lausu, og voru það hrein neyðarúrræði af þeirra hálfu. Þeir áttu ekki annarra kosta völ. En þessi mál hafa verið rædd allmikið hér á þingi ekki fyrir ýkja löngu, svo að ég ætla ekki að rifja þau frekar upp hér. En hlut að þessum aðgerðum átti raunar ráðh., sem kennir sig og stefnu sína við annað en alþýðuna, svo að af honum var ekki eins mikils vænzt í þessum efnum. En það gegnir öðru máli með þá ráðh. og þm., sem kenna sig við alþýðuna, þ. e. Alþfl.-þm. Það er full ástæða fyrir þm. Alþfl. að endurskoða afstöðu sína til frv., sem hér liggur fyrir hv. d. Ástæða til þess fyrir þá að athuga afstöðu sína til umbjóðenda sinna, láta ekki alltaf hafa sig til þess að svíkja á þeim kosningaloforð. Ef þeir gera það ekki, er full ástæða fyrir óbreytta liðsmenn þeirra að skoða og meta afstöðu sína til þeirra. Það má kalla meira en litla kokhreysti af frammámönnum Alþfl., að samtímis því, sem þeir eru að berja í gegn frv., sem aðallega er gert til að eyða vísitölustigum til að rifta umsömdum grundvelli samninga, þá eru þeir að reyna að auglýsa fyrir sínum óánægðu flokksbræðrum viðræður um vinstra samstarf. Það sjá raunar allir, sem ekki sáu það strax í upphafi, að slíkt marklaust snakk um vinstra samstarf á þessum tíma var til annars ætlað. Það var ætlað til þess að friða óánægða Alþfl.-menn, sem knúðu á um breytta stefnu Alþfl.-þm. og ráðh. Svo getur líka raunar verið, að þetta hafi verið sett á svið af einhverjum öðrum annarlegum ástæðum.

Frv. það, sem hér liggur fyrir, vegur ekki beint eða eingöngu að sjómönnum eða sjómannastéttinni. Það vegur að kjarasamningum yfirleitt, að samningsréttinum, að gildi kjarasamninga. Að vísu hefur ríkisstj. hopað örlítið, slegið aðeins af, þar sem lofað er, að 2 vísitölustigin, sem áttu að hverfa alveg bótalaust, skuli verða greidd niður næsta vísitölutímabil eða kaupgjaldstímabil. Þetta sýnir, að hún hefur hræðzt undirtektir launþegasamtakanna víðs vegar um landið, sem fordæmt hafa þessar ráðstafanir harðlega. Efnahagsráðstafanir þessara stjórnarflokka bæði nú og fyrr, hvað sem þær heita, hvort sem þær heita gengisfelling, ráðstafanir í sjávarútvegi eða ráðstafanir til stöðugs verðlags, hafa allar miðað að því að þyngja bagga þeirra, sem mest bera á herðum sér, gera þá ríku ríkari og fátæku fátækari. Mér dettur í hug í þessu sambandi sagan af manninum, sem flutti búferlum og hafði ekki annað til að flytja búslóðina á en hest sinn. Þegar kom að eldavélinni, sem var þyngsti hluturinn í búslóðinni, var hún ein orðin eftir. Hann hengdi hana upp á hestinn öðrum megin og setti stóran stein hinum megin. Nú var sá steinn of þungur. Brá hann þá við og jafnaði baggana með því að setja stein ofan á eldavélina. Þetta var einföld ráðstöfun af hans hendi og handhæg fyrir hann, en ekki að sama skapi fyrir hestinn, sem bar allt saman. En maðurinn gerði ekki nema eina ferð að því að jafna baggana. Þessu er öðruvísi farið með ríkisstj., þegar hún er að jafna baggana. En í því dæmi er alþýðan klárinn, sem ber byrðarnar. Þá verða steinarnir ætíð of þungir, svo að það þarf alla tíð að vera að jafna metin, enda er það óspart gert. Ríkisstj. notar gjarnan til þeirra hluta sprenglærða efnahagsráðunauta og hagfræðinga og alls konar fræðinga, sem ég kann ekki nöfn á, en þeim tekst ekki betur til en þetta. Ég vildi nú beina því til hæstv. ríkisstj. eða ráðh., að það væri ekkert verra fyrir þá að leita ráða hjá minna lærðum mönnum í þessum fræðum, ef þeir á annað borð þurfa á aðstoð að halda í þeim efnum. Ég held, að það hljóti að vera til sjálfmenntaðir hagfræðingar meðal alþýðumanna, verkamanna og annarra láglaunamanna, sem hafa getað náð saman endum með laununum sínum undanfarin ár. Ég held það hljóti að vera miklu meiri hagfræðispeki, sem liggur á bak við það afrek, en sú, sem lýsir sér í frv. þessu, sem hér liggur fyrir.

„Efnahagsaðgerðir ríkisstj. eru stöðugt þrátefli,“ varð einhverjum þm. að orði við umr. hér áður. M ig minnir, að það hafi verið í hv. Nd., og það má segja, að það sé nokkurt sannmæli. Hún teflir sífellt sama leiknum aftur og aftur. Verkamenn léku sínum leik í sumar og höfðu þá aðeins skárri stöðu, aðeins betri taflstöðu en þeir höfðu haft áður. En nú hefur ríkisstj. leikið sínum þráteflisleik enn einu sinni. Ég tel, að það sé verkamanna og launþega að leika næst, og þeir þurfa að hafa það í huga, að næsti leikur getur haft úrslitaáhrif á endataflið. Ég tel, að þeir geti haft stærst úrslitaáhrif á endataflið, ef þeir leika sínum leik rétt í næstu kosningum.