25.03.1971
Neðri deild: 69. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 968 í B-deild Alþingistíðinda. (1132)

283. mál, eftirlaun til aldraðra félaga í stéttarfélögum

Sjútvrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Eins og fram kemur í grg. þessa frv., sem samþ. hefur verið einróma í Ed. Alþ., þá fól heilbr.- og trmrn. í desember 1970 Guðjóni Hansen tryggingafræðingi að endurskoða lög nr. 18 frá 1970, um eftirlaun aldraðra félaga í stéttarfélögum. En tildrög þess voru þau, að tvö frv. um þetta efni höfðu komið fram á Alþ. og hafði nokkuð verið rætt um hugsanlega samræmingu á þeim frv. Flm. þessara frv. voru þeir Björn Jónson og Eðvarð Sigurðsson í Ed., en Jón Þorsteinsson og Bragi Sigurjónsson, að ég hygg, í Nd. Við endurskoðun l. var höfð hliðsjón af þeim tveim lagafrv., sem áður er minnzt á —fyrirgefið, það er rangt til getið um flm. Flm. í Nd., voru Eðvarð Sigurðsson og Magnús Kjartansson og í Ed. Björn Jónsson og Jón Þorsteinsson, og leiðréttist það hér með. Við endurskoðunina hafði Guðjón Hansen tryggingafræðingur samband bæði við launþegasamtökin og samtök atvinnurekenda.

Frv. var borið fram til að ná samkomulagi um tvö áðurnefnd frv., eins og fram kemur í grg., og ætti því vart að valda deilum hér, enda er staðreynd málsins sú, að þeim fjármunum, sem ætlunin var að verja til þessa fólks, sem þarna lenti á milli laga, ef svo mætti að orði komast, og gæti vart öðlazt réttindi vegna aldurs, en væri þó vinnandi, yrði varið til ákveðinnar lágmarkstryggingar, sem með frv. þessu yrði 2000 kr. og verður vart talin of há. En þeim fjármunum, sem fjárlög hafa áætlað, að varið sé til þessara hluta, hefur hvergi nærri verið úthlutað, og sannast sagna hefur samkv. könnun ekki verið úthlutað nema aðeins broti af því, sem fjárlög hafa gert ráð fyrir. Það þykir því eðlilegt, að þetta fólk, sem er æðistór hópur og ekki nýtur þeirra nýju lífeyrisréttinda sem stéttarfélögin hafa samið um, fái þessa lágmarkstryggingu, sem frv. gerir ráð fyrir. Og ég vænti þess, að hér eins og í hv. Ed., verði ekki ágreiningur um málið og það nái fram að ganga á þessu þingi eftir þá samræmingu, sem farið hefur fram á frv.

Ég legg til, herra forseti, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og félmn.