26.03.1971
Neðri deild: 71. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1008 í B-deild Alþingistíðinda. (1210)

234. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Utanrrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Þetta litla frv. þarf ekki langa framsögu. Það er komið frá Ed., þar sem það var samþ., að ég ætla, ágreiningslaust. Efni frv. er aðeins það, að húsnæðismálastjórn kjósi þrjá menn í stjórn verkamannabústaða í sveitarfélögum í stað þess, að í núgildandi lögum er ætlazt til, að hún kjósi tvo.

Ástæðan fyrir þessari breytingu er sú, að það hefur komið upp ágreiningur um það í húsnæðismálastjórn, hvort kjósa skuli þessa tvo menn hlutfallskosningu eða ekki, og ég tel réttast, til þess að um það þurfi ekki neinn úrskurð, heldur verði það sjálfsagt, þegar þrír menn eru komnir í kosninguna, að það verði höfð hlutfallskosning og þarf þá ekki lengur um það að deila. Ég tel, að þetta sé svo lítil breyting, að hún geti verið fljótlega afgreidd og leyfi mér að leggja til, að eftir þessa umr. verði frv. vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og félmn.