24.02.1971
Efri deild: 53. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1026 í B-deild Alþingistíðinda. (1246)

213. mál, náttúruvernd

Einar Ágústsson:

Herra forseti. Þetta verða nú ekki nema nokkur orð hjá mér við 1. umr. Ég vil byrja á því að taka undir það, sem hér hafa aðrir sagt, að um merkilegt og þýðingarmikið mál er að ræða og ekki sízt þess vegna furðar mig nokkuð á því seinlæti, sem ríkt hefur um það að koma þessu frv. öðru sinni fyrir Alþ., þar sem frv. var flutt í fyrra fullbúið, en kemur svo ekki fyrir Alþ. nú fyrr en tæpir tveir mánuðir eru eftir af þingtímanum, eða kannske ekki nema rúmur mánuður. Sérstaklega vekur þetta nú furðu, þegar þær breytingar eru skoðaðar, sem á frv. hafa verið gerðar á þessu langa tímabili, sem liðið er. En þær eru taldar í athugasemdunum fjórar. Samin hafa verið ný ákvæði um greiðslu kostnaðar við framkvæmd laganna, sem eru auðvitað sízt til bóta, því að sjóðurinn er sviptur þeim litlu tekjum, sem honum voru þó tryggðar samkv. fyrra frv. Ég er svo sem ekki að segja, að það sé sú fjárhæð, að ekki sé hægt við að jafnast með öðru móti, þar sem um 3.7 millj. var að ræða, en það var þó tryggur tekjustofn og hann var miðaður við hlutfallslega upphæð af tekjustofnum, sem hefði kannske getað tryggt það, að hann hefði getað haldið áfram að vaxa, þó að verðbólgan héldi eitthvað áfram, eins og sumir halda að hún geri kannske. Út af fyrir sig fagna ég þeirri leið, sem hægt var að benda á í fyrra, að tekjustofnar væru ákveðnir hlutfallslegir, en þegar ég hef verið að reyna að bera fram frv. í því skyni, þá hefur það ævinlega verið svæft.

Aðrar breytingar eru í ákvæðum malarnáms, sandnáms, grjótnáms og gjallnáms, það er vafalaust mikið til bóta, og svo eru breytingar á orðalagi nokkurra greina, sem virðist fyrst og fremst miða að því að auka vald ráðuneytis, en draga úr valdi þeirra nefnda, sem með þessi mál fara. Þetta álit ég ekki til bóta.

Hluti verkefnisins — eins og hv. síðasti ræðumaður gat um — var óleystur, þegar nefndin skilaði frv. hér í fyrra og hann er óleystur enn. Það eru breytingar á lögum um friðun Þingvalla, en lög um Þingvelli eru frá 1928, og mætti ætla, að einhverra breytinga á þeim væri þörf, og það er vafalaust ekki andi þjóðgarðastefnu nútíðarinnar að taka land af einum til þess að afhenda það öðrum til að girða og banna umferð um, eins og gert hefur verið á Þingvöllum. Ég held, að það sé meira en tímabært, að þau lög verði endurskoðuð og skora á hæstv. menntmrh. að beita sér fyrir því að sýna frv. um það efni á þessu þingi, þó að lítil von sé til, að það geti náð fram að ganga, þó er það ekki útséð enn.

En það, sem mig langaði til að vekja athygli þeirrar n., sem málið fær til meðferðar, alveg sérstaklega á, eru ákvæðin um fólkvanga, sem er að finna í 26. gr. frv. Þar er svo fyrir mælt, að eignist bæjar- eða sveitarfélag landsvæði, sem það ætlar til útivistar, eða ef félag eða einstaklingar leggja slíkt landsvæði fram, þá megi lýsa það fólkvang. Náttúruverndarráð skal setja reglur um almenna umgengni þar í samráði við sveitarstjórnir. Allan kostnað af fólkvöngum greiða hlutaðeigandi bæjar- eða sveitarstjórnir. Svona er greinin. Um þessa grein er það að segja, að ákvæðunum er nokkuð breytt frá því, sem er í gildi nú í 8. gr. náttúruverndarlaganna frá 1956, en samkv. gildandi lagagrein ráða bæjarstjórnir því einar í kaupstöðum, hvort landsvæði skuli gert að fólkvangi, en utan kaupstaða ráða náttúruverndarnefndir og sveitar eða sýslustjórnir í sameiningu. Breytingin á greininni, sem ég var að lesa, er sú, að eftir henni mun yfirlýsing um, að tiltekið landsvæði sé gert að fólkvangi, eiga að koma frá náttúruverndarráði. Í grg. frv. með 26. gr. — það er greinargerð frá því í fyrra — segir, að frumkvæðið um stofnun slíkra fólkvanga sé í höndum bæjar- eða sveitarstjórna og verður greinin þá vafalaust skýrð í samræmi við það, en af því leiðir, að náttúruverndarráð mun ekki lýsa tiltekið landsvæði fólkvang, nema fyrir liggi samþykki hlutaðeigandi bæjar- eða sveitarstjórnar og hef ég ekkert við þetta að athuga, en í framkvæmd er þetta ekki eins auðvelt og ætla mætti, og það, sem ég hef í huga, er ákveðið tilvik, þ. e. sú ákvörðun borgarstjórnar Reykjavíkur, sem tekin var 2. okt. 1969 um að friðlýsa tiltekið landsvæði, eða nánar tiltekið landsvæði frá Elliðavatni suður til Krýsuvíkurbergs, og gera það í framtíðinni að almenningssvæði eða fólkvangi í beinum tengslum við Heiðmörk og Elliðaárdal, eins og í samþykktinni segir. Borgarstjórnin samþykkti að beita sér fyrir því í samstarfi við önnur sveitarfélög við sunnanverðan Faxaflóa og náttúruverndarráð, að gera ítarlega könnun á þessu svæði með það fyrir augum, að það verði friðlýst útivistarsvæði fyrir almenning, samkv. 1. og 8. gr. laga um náttúruvernd frá 1956, eins og þar segir. Þetta var samþykkt í borgarstjórn Reykjavíkur samhljóða og framkvæmdaraðili borgarstjórnarinnar, þ. e. borgarráð, skrifaði sveitarfélögunum í Reykjanesumdæmi. Svar frá þeim barst nánast samstundis, eftir viku eða svo. Það hljóðaði svona, með leyfi forseta:

„Á fundi stjórnar SASIR, Sambands sveitarfélaga í Reykjaneskjördæmi, var lagt fram erindi yðar, dags. 8. okt. s. l., varðandi friðlýsingu á útivistarsvæði fyrir almenning, frá Elliðavatni suður til Krýsuvíkurbjargs. Erindið fékk jákvæðar undirtektir og var undirrituðum falið að taka upp viðræður við yður um málið, þegar yður hentar.“ Undirritað af þar til bærum embættismanni.

Það næsta, sem gerðist svo í þessu máli, var það, að borgarlögmanninum í Reykjavík, Páli Líndal, var falið að taka upp viðræður við þessi samtök um þetta mál. Þær viðræður voru langar og ítarlegar og ég ætla ekki að rekja þær, en aðeins að minna hv. þm. á niðurstöður þeirrar athugunar. En ályktun borgarlögmanns er þessi: „Af því, sem nú hefur verið rakið, er meðferð máls eins og hér um ræðir ákaflega þung í vöfum og raunar óvíst, hvort hún leiðir til nokkurrar niðurstöðu. Sú spurning hlýtur því að vakna, ekki sízt með hliðsjón af hinu nýja lagafrv. um náttúruvernd, sem lá fyrir síðasta þingi, hvort ekki er nauðsynlegt að taka þennan þátt málsins sérstaklega upp og gera málsmeðferð alla einfaldari í sniðum og greiðari. Að lítt athuguðu máli virðist mér sem slíkt ætti ekki að vera mjög erfitt, þar sem friðlýsing í samræmi við anda 8. gr. náttúruverndarlaga ætti ekki að skipta landeigendur verulegu máli fjárhagslega. Þó kann ég ekki að orða formlega tillögu um slíkt, enda kemur fleira til. Sú spurning er nefnilega gróflega áleitin í þessu sambandi, hvort eðlilegt sé, að sveitarfélög standi fyrir stofnun fólkvangs. Nú má hugsa sér, að sum sveitarfélög á svæðinu vildu taka þátt í friðlýsingu, en önnur ekki. Hins vegar mundu íbúar þeirra sveitarfélaga, sem utan við standa, hafa öll skilyrði til að hagnýta sér fólkvanginn. Sama ætti við um íbúa annarra sveitarfélaga og erlenda ferðamenn. Það er því skoðun mín,“ segir þessi embættismaður, „að slík friðlýsing, sem tekur yfir mörg sveitarfélög, væri eðlilegri í höndum ríkisins. Hér eru alls ekki höfð í huga nein fjárhagsleg sjónarmið, heldur eingöngu það, að hér sé um að ræða rökrétta stjórnarathöfn og sæmilega framkvæmanlega. Það er alltaf óeðlilegt, að eitt sveitarfélag taki að sér stjórn mála í öðru sveitarfélagi. Hætt er og við, að samstjórn sveitarstjórna yrði mjög þung í vöfum.“

Nú er skylt að geta þess, að sú breyting er í 26. gr., að úrslitavald er falið náttúruverndarráði. Má því segja, að þar sé til kominn aðili, sem geti skorið úr um deilu, ef upp kemur milli sveitarfélaga, hvort friðlýsa skuli eða ekki. Þó finnst mér, að mjög komi til athugunar einmitt í sambandi við þetta frv. að breyta ákvæðunum eitthvað til samræmis við það, sem ég var hér að lýsa, að borgarlögmaðurinn hér í Reykjavík, Páll Líndal, hefði sett fram sem sína skoðun. Þetta er líka skoðun borgarstjórnar eða borgarráðs Reykjavíkur, því að 27. okt. s. l. sendi borgarstjórinn í Reykjavík, eftir ákvörðun borgarráðs, menntmrn. bréf, þar sem því er lýst, hvað fram fór við þá athugun, sem ég var hér að gera grein fyrir, og frá því greint, að þessi grg. hefði verið rædd á nokkrum fundum borgarráðs. Enn fremur, að könnunin virðist leiða í ljós, að mjög miklir örðugleikar eru á því að hrinda í framkvæmd friðlýsingu samkv. gildandi lögum. Því er sett fram í umræddu bréfi ábending um það, að þar sem lögin eru nú í endurskoðun, þá þykir vænlegra til árangurs að freista þess að fá breytt nokkrum ákvæðum laganna en að ráðast í undirbúning friðlýsingar, sem vafasamt er að leiddi til tilætlaðs árangurs, a. m. k. ekki fyrr en að löngum tíma liðnum. Og tillagan var sem sagt sú, að í fyrsta lagi færi hún í menntmrn. að fengnum meðmælum náttúruverndarráðs og eftir að hlutaðeigandi sveitarfélögum hefði gefizt kostur á að tjá sig um, hvort ákveðið svæði skuli friðað, þar skuli vera fólkvangur. Í öðru lagi, að þessi ákvörðun verði birt opinberlega og þeim, sem telja rétti sínum hallað, gefinn kostur á að gera athugasemdir. Í þriðja lagi, að eftir að ráðuneytið hefur kannað athugasemdir, sem fram hafa komið, verði tekin fullnaðarákvörðun um það, hvort friðlýsing skuli haldast. Og í fjórða lagi, ef ákvörðun ráðuneytis verður á þann veg, að friðlýsing skuli haldast, verði skipuð sérstök matsnefnd, er meti þeim bætur, sem hún telur rétt eiga til bóta og kröfur gera. Svo að öllu þessu framkvæmdu yrði fólkvangur, sem stofnaður yrði samkv. þessu, undir yfirstjórn náttúruverndarráðs eða einhvers aðila, sem háður væri eftirliti þess, og í fimmta lagi er þá lagt til, að sá stofn- og rekstrarkostnaður, sem af þessari stofnun hlytist, legðist á ríkissjóð, enda fólkvangar öllum opnir. Þó er engan veginn útilokaður sá möguleiki, að sveitarfélög, sem einkum teldust njóta góðs af hverjum fólkvangi fyrir sig, tækju tiltekinn þátt í kostnaðinum. Þrátt fyrir þetta bréf og þessar ábendingar og þessa reynslu af því að koma á fólkvangi, þá hefur ráðuneytið ekki séð sér fært að verða við þessum tilmælum. Þvert á móti er eina breytingin á 26. gr., sem gerð hefur verið frá fyrra frv. til hins síðara, sú, að við er bætt: „Allan kostnað af fólkvöngum greiðir hlutaðeigandi bæjar- eða sveitarfélag.“ Og þá verður að álykta að mínu viti það, að þarna sé komið svar menntmrn. við tilmælum borgarráðs Reykjavíkur, sem ég hef verið að gera hér grein fyrir. Ég vildi, að þetta mál og svipuð mál færu ekki fram hjá hv. n., sem fær þetta mál til meðferðar.

Það er margt gott um þetta frv. að segja, og ég ætla ekkert að fara að endurtaka það, sem aðrir hafa hér sagt, aðeins fagna þeirri meginstefnu, sem mér finnst koma fram í 30. gr. frv., þar sem segir, að leita skuli álits náttúruverndarráðs, áður en tilteknar framkvæmdir, sem þar eru upp taldar, hefjist, og meiri háttar mannvirki skuli hönnuð í samráði við náttúruverndarráð og að sama skuli gilda um vegalagningu til slíkra mannvirkja. Þetta eru nýmæli, sem eru áreiðanlega mjög til bóta og ýmis mál í brennidepli nú, sem betur hefðu sjálfsagt leystst, ef slíkt ákvæði hefði verið í fyrri lögum. Það er svo, að þrátt fyrir það, að gildandi lög eru aðeins 15 ára gömul, þá er framþróunin í þessum málum svo ör og skilningur manna svo ört vaxandi, að það er full ástæða til þess að setja nýja löggjöf um þetta mál, og ég tek undir þær óskir, sem hér hafa verið settar fram, og skal gera það að mínum síðustu orðum að sinni, að mál þetta nái fram að ganga á þessu þingi, þótt slælega hafi verið að mínum dómi staðið að því í upphafi.