24.02.1971
Efri deild: 53. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1030 í B-deild Alþingistíðinda. (1247)

213. mál, náttúruvernd

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Það er nú raunar búið að fjalla um sum atriðin, sem ég ætlaði að minnast á hér, af fyrri ræðumönnum, svo að ég get verið stuttorður. En þó sé ég ástæðu til þess að minnast hér á þann þátt í þessu, sem ég dreg í efa að nái þeim tilgangi, eins og hæstv. menntmrh. drap á. Það eru nefndirnar, svo margar nefndir, sem gert er ráð fyrir að stofnaðar séu, eins og segir í 3. gr., í hverri sýslu og bæjarfélagi, og í Reykjavík skal starfa þriggja manna náttúruverndarnefnd. Það kom fram í ræðu hæstv. ráðh., ef ég hef tekið rétt eftir, að þáttur þessara nefnda undanfarinn 1½ áratug hefur verið minni en efni stóðu til, og ég dreg í efa, að svona fjölmargar nefndir muni skila því, sem þeim er ætlað í þessu efni. Hitt vil ég undirstrika, eins og ráðh. drap á, að víðtækar kröfur skulu gerðar til þeirra aðila — og á ég þar við náttúruverndarráð — sem eiga að sjá um framkvæmdirnar. Það er aðalatriðið og þess vegna þarf þetta að vera nokkuð lipurt í framkvæmd, en ekki með sífelldum umsögnum eða þörfum um umsagnir fjölmargra nefnda út um allt land og skipt niður í svo smáar einingar eins og í sýslu- eða bæjarfélagi. Annars verður þetta mjög þungt í vöfum og reynslan hefur sýnt, að þetta er erfitt í framkvæmd.

Um einstakar greinar get ég verið stuttorður. Eins og ég sagði áðan, er búið að fjalla um það. En náttúruverndarráð er skipað sjö mönnum og ég verð að ætla það, að kosning í ráðið takist það vel, að þessum mönnum sé vel treystandi til þess að hafa framkvæmdina að mestu eða öllu leyti í sínum höndum, þó að eðlilegt sé, að menntmrn. sé æðsti aðill í því efni. Á hitt vil ég leggja áherzlu, að nánara samstarf og nánari tengsl séu á milli ráðsins og þeirra félaga, sem eru starfandi í landinu af áhugamönnum, því að ég tel, að þau séu betur vakandi heldur en nefndir úti um allt, sem menn eru settir í og starfa með hangandi hendi. Ég held, að áhugamennirnir séu einmitt sú driffjöður, sem náttúruverndarráð þarf að hafa gott samband við, og vildi, að hv. n., sem fær frv. til meðferðar, athugi það gaumgæfilega.

Í 21. gr. er fjallað um sumarbústaðabyggingar. Það er mikið vandamál og segir þar: „Sveitarstjórn skal, áður en leyfi er veitt, leita umsagnar náttúruverndarnefndar héraðsins.“ Nú er það blessunarlega mögulegt fyrir marga menn að eiga sumarbústaði viða um landið, en eðlilegt er líka, að nokkrar ákveðnar reglur gildi um þetta. Verður þetta ekki allt mjög þungt í vöfum, þegar á að fara frá einbirni í tvíbjörn og tvíbjörn í þríbjörn og þríbjörn í fjórbjörn og svo áfram, og gengur þá nokkuð eins og í sögunni? Er ekki einfaldara að geta mótað um þetta skýrar og ákveðið og um þetta séu hreinar og ákveðnar línur í heild. Ég held það. Ég held, að það sé nauðsynlegt, því að ella verður staðasjónarmiðið mjög ríkjandi, en ég vil, að heildarstefna sé uppi um allt landið frá hendi náttúruverndarráðs og menntmrn., en ekki að einstakar nefndir séu að móta mjög þröng sjónarmið. Framkvæmdin verður þá varla nokkur og allt situr fast.

Um framkvæmd friðlýsingar segir í 28. gr.: „Náttúruverndarráð skal með aðstoð náttúruverndarnefnda . . .“ Því stendur ekki einfaldlega: Náttúruverndarráð skal kynna sér eftir föngum náttúruminjar? Því þurfa þeir að leita til Péturs og Páls í því efni, þessir sjö menn, nema þeir ráði þá ekki við sitt verkefni, ef það skal standa svo, að þeir skuli fara fyrir hverja nefnd og vinna í samráði við hana um helztu náttúruminjar landsins? Ég held, að það geti ekki verið svona flókið verkefni, að svona framkvæmd eigi að standa í lögum. Mér finnst það persónulega.

Varðandi 32. gr. eins og fyrsti ræðumaður hér í dag drap á, þá hefði ég nú talið eðlilegt að athuga um valdsvið ráðsins nokkru nánar og hvernig fer um þeirra ályktanir. Er það svona gersamlega skilyrðislaust háð samþykki menntmrn.? Ég vildi heldur hafa þann hátt á, að a. m. k. í vissum tilfellum væri hægt að koma því við í reglugerð, að menntmrn. gæti heldur stöðvað það, ef náttúruverndarráð verður of ákaft í friðlýsingum, en það verður nokkuð seint í vöfum, ef alltaf þarf að bera undir rn. og nefndirnar, eins og ég drap á áðan, hverja einustu aðgerð. Þetta tel ég, að dragi úr gildi laganna í framkvæmd og geri þetta allt mjög þungt. Það eru mín áhrif við lestur þessara greina.

Í 35. gr. er fjallað um eignarnám. Það getur vei verið, að það megi standa svona ósköp einfalt eins og þar stendur: „Menntmrn. er heimilt að taka eignarnámi lönd, mannvirki og réttindi til þess að framkvæma friðlýsingu, er í lögum þessum greinir.“ Ekki hef ég vit á því, hversu viðkvæmt mál þetta er eða mjög flókið lagalega. En ég held, að það sé mikill vandi á höndum, hvernig á að framkvæma slíka hluti, og e. t. v. er bægt að kveða nánar á um það í reglugerð. En ekki fer mikið fyrir þessari setningu í lögunum sjálfum, og áreiðanlega er þó hér erfitt mál á ferðinni varðandi eignarnám.

Um friðlýsingu á landsvæðum, sem verða gerð að þjóðgörðum, þá er það gott. Þar stendur: „enda sé svæðið ríkiseign“ og hlýtur þá eignarnámsheimildin að hafa verið notuð áður í því sambandi. Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til þess að fjalla um fleiri þætti. Það hefur verið drepið á þá. En ég fagna því, að þetta kemur fram og vil taka undir þá ósk manna hér, að frv. nái fram að ganga á þessu þingi, því að það er ekkert vafamál, að efni þessa frv. er mjög þýðingarmikið fyrir alla landsmenn, og eins og segir í 1. gr. á það að auðvelda þjóðinni umgengni við náttúru landsins og auka kynni af henni.