24.03.1971
Efri deild: 73. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1061 í B-deild Alþingistíðinda. (1266)

213. mál, náttúruvernd

Dómsmrh. (Auður Auðuns):

Herra forseti. Það er eitt atriði í þessu frv., sem ég vildi segja um nokkur orð, og ég beini því þá þar með til menntmn., að hún athugi það ákvæði, sem þar er um að ræða, því að mér hefur skilizt, að það muni verða, að menntmn. muni hafa málið til athugunar á milli umræðna.

Það, sem um er að ræða, er 3. mgr. 19. gr. frv., sem fjallar um spjöld með leiðbeiningum fyrir vegfarendur, sem ekki skuli falla undir bannákvæði greinarinnar. Mér er ekki ljóst, satt að segja, hvort undir þetta, þessi spjöld með leiðbeiningum, mundu falla þau spjöld, sem umferðarráð og reyndar fleiri aðilar hafa sett við vegi eða þar sem þau blasa vel við frá vegum, t. d. spjöld með hvatningarorðum til vegfarenda um að sýna varúð í akstri. Mér dettur í hug það, sem umferðarráð lagði sérstaklega áherzlu á með þessum spjöldum á síðastliðnu ári. Það var, að menn notuðu öryggisbeltin við akstur á vegum úti, og ætlunin mun vera að breyta e. t. v. til og taka eitthvert annað atriði fyrir. Í þessari 3. mgr. 19. gr. er talað um leiðbeiningar fyrir vegfarendur, svo sem um leiðir, nöfn bæja, áningarstaði, þjóðgarða o. s. frv., sem frekar má skoða þannig, að þessi mgr. eigi við leiðbeiningar um, hvert menn skuli halda, ef þeir ætla til einhverra ákveðinna staða eða leita að einhverjum ákveðnum stöðum, en vafasamt e. t. v., hvort slík hvatningar- og áróðursspjöld gætu fallið undir þessa mgr., og ég hef ekki séð undanþáguheimildir ráðherra eða öðrum aðila til handa í frv., sem gætu þá náð til þessarar gr.

Ég vildi sem sagt mælast til þess, að hv. menntmn. tæki þetta atriði til athugunar, hvort ekki kynni að vera ástæða til þess að setja inn þarna eitthvert ákvæði, sem gerði það alveg ótvírætt, að slík áróðursspjöld til aukins umferðaröryggis mundu einnig falla undir þessa mgr.