25.03.1971
Efri deild: 75. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1074 í B-deild Alþingistíðinda. (1276)

213. mál, náttúruvernd

Björn Jónsson:

Herra forseti. Ég mun ekki lengja hér umr. að neinu marki. Það eru aðeins örfá orð varðandi afgreiðslu hv. menntmn. á þeim tillögum, sem ég hef flutt á þskj. 539 ásamt hv. 3. þm. Vestf.

Um fyrstu tillöguna er það að segja, að efni hennar er að öllu leyti tekið upp í tillögu n., og drögum við þá tillögu að sjálfsögðu til baka, þar sem hún er efnislega algerlega tekin upp, bætt aðeins við hana, og ég tel það sízt til skaða, að það sé gert með þeim hætti, sem þar er gert, þ. e. að við þá aðila, sem sæti eiga á náttúruverndarþingi, bætist Samband ísl. sveitarfélaga. Það tel ég fullkomlega eðlilegt og sú breyting á okkar tillögu því sízt til skaða. Ég vil lýsa ánægju minni yfir því, að hv. n. hefur fallizt á 4. brtt. okkar við 24. gr. um, að 2. mgr. orðist eins og í þskj. segir. En um 2. og 3. brtt. lýsi ég nokkrum vonbrigðum yfir því, að ekki skuli hafa getað orðið sætti í hv. n. um þær tillögur. Ég undrast það að vísu ekki, að menn geti kannske litið ofurlítið misjöfnum augum á brtt. við 6. gr. um, að það sé fest, að bæði náttúrufræðingar og lögfræðingar eigi sæti í náttúruverndarráði að því marki, sem í okkar tillögu segir. Um þetta geta eðlilega verið skiptar skoðanir, þó að ég telji það hiklaust til bóta og falli ekki frá neinum þeim röksemdum, sem ég hef haft uppi í sambandi við þetta.

Hins vegar verð ég að láta í ljós vonir um það, að þó að n. hafi ekki getað öll í heild mælt með 3. brtt., sem er við 13. gr., þá hljóti hún samþykki í hv. þd. Mér finnst þar vera um svo sjálfsagða hluti að ræða, að það sé varla hægt um þá að deila, og vona, að þm. að athuguðu máli fallist á þá skoðun. Ég skal að vísu játa það, að sérstök reglugerð um akstur og umgengni á öræfum kann að verða ofurlítið erfið vegna eftirlits eða skorts á eftirliti. En ég held, að slíkar reglur, ef settar yrðu hlytu alla vega að vera til bóta frá því, sem nú er. Ég bendi á það, að þessi tillaga er engan veginn flutt að ófyrirsynju. Núna nýlega t. d. hef ég lesið í ritgerð eftir jafnágætan náttúruverndarmann og vísindamann eins og Sigurð Þórarinsson grein, sem einmitt fjallar sérstaklega um þetta. Hann bendir á ákveðna staði í óbyggðum landsins, þar sem umhverfi sé að fara í örtröð og náttúruundur séu í stórfelldri hættu vegna óforsvaranlegrar umgengni og skorts á eftirliti og reglum um það, hvernig umgengni megi vera háttað á öræfum landsins. Það hefur oft verið talað um það hér á hv. Alþ. af ýmsum mætum mönnum, hvílík nauðsyn það væri að opna öræfin meira fyrir almenningi, og þessi tillaga fjallar einmitt um að auðvelda það og jafnframt að koma í veg fyrir þær hættur, sem því eru vissulega samfara. Þar sem engin haldbær rök hafa komið fram gegn því, að þessi brtt. sé til bóta um það efni, sem hún fjallar um, þá vænti ég þess sem sagt, að hv. þd. muni samþykkja hana, enda þótt einstakir nm. í menntmn. hafi óbundnar hendur um afstöðu til hennar.