03.04.1971
Efri deild: 90. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1311 í B-deild Alþingistíðinda. (1407)

296. mál, virkjun Svartár í Skagafirði

Björn Jónsson:

Herra forseti. Ég vildi með örfáum orðum skýra afstöðu mína í þessu máli og byrja þá fyrst á því að minnast þess, sem hæstv. iðnrh. sagði hér við 1. umr. málsins, að nú í dag væru eftir a.m.k. þrjú þau atriði, sem mestu máli skipta, þegar um slíka framkvæmd er að ræða sem nýja virkjun. Það væri eftir að gera samninga við landeigendur vegna hugsanlegra spjalla eða skaða af skertum möguleikum til fiskræktar. Það væri eftir að útvega fjármagn til þessa fyrirtækis, og hönnun væri að mestu ólokið. Hér er aðeins um heimildarlög að ræða, og þegar það er hugleitt, að þessi þrjú mikilvægu atriði eru öll óunnin, þá sýnist ekki líklegt, að í þessa framkvæmd verði ráðizt á næstunni og örugglega ekki fyrr en eftir að Alþ. kemur næst saman. Ég vil því draga mjög í efa af ýmsum ástæðum, að það sé nokkur ástæða til þess að samþykkja þetta frv. nú og það væri á margan hátt hyggilegra að fresta því og taka það fyrir síðar hér á hv. Alþ., þegar þeir hlutir, sem ég nefndi og reyndar ýmsir fleiri, liggja ljósar fyrir en þeir gera nú. Ég tel það hyggilegt m.a. til þess að fyrirbyggja deilur, sem gætu orðið erfiðar heima í héraði, að samþykkja ekki þetta frv. fyrr en liggur fyrir, hvaða samkomulag gæti náðst við Íandeigendur og eigendur að veiðirétti og hver kostnaður yrði af þeim samningum og hugsanlegum skaðabótum. Þá held ég, að fyrst væri kominn tími til, ef hyggilega væri að málum unnið, að samþykkja lög um þessa virkjun.

Ég hef orðið fyrir þeim örlögum að hafa nokkur afskipti af mjög erfiðri deilu, sem öllum hv. þm. er kunnugt, þ.e. Laxárdeilunni svokölluðu, en l. um virkjun Laxár, sem unnið hefur verið eftir, voru samþ. hér á Alþ., ef ég man rétt líklega 1966 eða um svipað leyti og l. um Búrfellsvirkjun í Þjórsá voru samþ. Þegar þessi lög voru samþykkt, voru þau byggð á hönnun, sem þá hafði þegar farið fram og hafð verið vandlega undirbúin og fullgerð af Sigurði Thoroddsen verkfræðingi, og gerði hann ráð fyrr 35 m stíflu fyrir Birningsstaðaflóa. Þegar bæði þessi hönnun og þetta frv. til l. lá fyrir hér á Alþ. og reyndar í nokkur næstu ár, komu ekki fram neinar óánægjuraddir heiman úr héraði hvorki frá landeigendum né öðrum. Þeir virtust sætta sig fullkomlega við þau lög, sem þarna voru samþ., og yfirleitt var þessum l. fagnað þar nyrðra bæði af landeigendum, sem lönd eiga að Laxá, og öðrum aðilum á Norðurl. e. En samt sem áður hefur svo síðan spunnizt af þessu deila, sem enginn sér í dag fyrir endann á. Ég held, að ef þessi mál hefðu verið skoðuð betur niður í kjölinn strax, þegar l. um Laxárvirkjun voru sett, og afstaða heimamanna hefði þá verið könnuð og leitað eftir samningum, þá hefði Laxárdeilan aldrei komið upp. Eins og ég sagði, var þeim l. fagnað á sínum tíma, sem þó gerðu ráð fyrir miklu meiri framkvæmdum en nú stendur til, að gerðar séu við Laxá, en nú þykir það aftur goðgá af vissum aðilum í Þingeyjarþingi, að byggð sé stífla við Brúar, sem ekki á að verða nema í kringum 20 m. En þegar l. voru sett, þótti öllum sjálfsagt og enginn skaði skeður, þó að það yrði byggð 35 m stífla.

Þetta sýnir aðeins, hversu hlutirnir geta breytzt, og eins og ég segi, þá er ég nokkurn veginn sannfærður um, að ef samninga hefði verið leitað og það beinlínis gert að skilyrði fyrir samþykkt frv., að samþykki og samningar heima í héraði lægju fyrir, þá hefði þessi erfiða og að mörgu leyti hörmulega deila aldrei átt sér stað. Ég held, að þetta sé víti til varnaðar og engu væri spillt, þó að menn gæfu sér tíma til þess nú á milli þinga að athuga þetta mál, þannig að það gæti legið fyrir, að einhugur væri heima í héraði um málið, sem mér virðist alls engin trygging fyrir, heldur þvert á móti sé margt í því þannig vaxið, að þarna eigi eftir að koma upp deila, sem verði alveg hliðstæð Laxárdeilunni, og þess óska ég ekki nágrönnum mínum þar nyrðra að þurfa að fara í gegnum þann skóla, sem sú deila hefur orðið okkur í Norðurl. e.

Ég mun því af þessum ástæðum, sem ég hef nú rakið, greiða atkv. gegn þessu frv. í trausti þess, að þessi mál verði skoðuð betur niður í kjölinn og málið lagt fyrir, þegar fyllri upplýsinga og samninga hefur verið leitað heima í héraði.