22.03.1971
Neðri deild: 66. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1340 í B-deild Alþingistíðinda. (1479)

19. mál, veiting ríkisborgararéttar

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Eins og hv. frsm. allshn. gat um, þá er ekki ágreiningur um það í n. að mæla með því, að þeim 42 útlendingum, sem tilgreindir eru á þskj. 576, verði veittur ríkisborgararéttur. Það er einnig rétt, sem hv. frsm. tók fram, að einstakir nm. hafa áskilið sér rétt til að fylgja brtt. við 2. gr. frv. Ég veit ekki, hverjir þessir einstöku nm. eru — sennilega tveir eða þrír í n., en vil taka það fram, að ég er ekki einn þeirra, sem stóð að þessum fyrirvara. Mér sýnist, að þau ákvæði, sem eru í 2. gr. frv., um, að þeir, sem heita erlendum nöfnum, fái ekki að öðlast ríkisborgararétt eftir lögum um mannanöfn, megi að skaðlausu standa í frv. og megi gjarnan vera í gildi, a.m.k. þangað til lagt hefur verið fyrir þingið álit mannanafnanefndarinnar, sem hæstv. ráðh. hefur skipað, till. hennar og væntanlegt frv. til nýrra mannanafnalaga.

Ég tel það vel farið, að hæstv. ráðh. hefur skipað þessa n., því að mannanafnalögin eru orðin nokkuð gömul og framkvæmd þeirra mun e.t.v. vera eitthvað áfátt og ekki óeðlilegt, að þau séu nú athuguð, og mér finnst það rétt, að hv. alþm. hafi tækifæri til þess að kynna sér eða fá yfirlit um þetta mál í heild, eins og það kemur frá n., áður en farið er að breyta þessu ákvæði, sem nú stendur í 2. gr. frv. um veitingu ríkisborgararéttar og hefur staðið þar í 20 ár. Það er misgáningur, sem mér heyrðist hv. frsm. segja, að þetta efni 2. gr. hefði verið samþ. árið 1952. Það var samþ. árið 1951 og skiptir auðvitað ekki miklu máli. En þannig var það. En á næsta þingi á eftir, þ.e. 1952, voru miklar umr. um þetta mál, og það eru sennilega þessar umr., sem hv. frsm. hefur kynnt sér eða haft spurnir af. Ég man nokkuð eftir þessum umr., sem fram fóru um þetta mál á þinginu 1951 og sérstaklega á þinginu 1952. Ég tók að vísu ekki þátt í þeim sjálfur, en ég studdi með atkv. mínu þá till., sem fram kom, um að taka 2. gr. í lög það ár, sem síðan hefur verið gert ár hvert.

Ég held, að það sé ekki alls kostar rétt, að það hafi verið mjög mikill ágreiningur um þetta ákvæði, þegar það var sett í lög 1951. Brtt. um þetta var flutt af allshn. Nd., og n. varð sammála um það að flytja þessa till. Mig minnir og sýnist það líka á Alþingistíðindum, að þar hafi ekki verið um neina andstöðu að ræða, a.m.k. hafi hún ekki komið fram í umr., en þess skal að vísu getið, að ég hygg, að hæstv. núv. menntmrh. hafi af einhverjum ástæðum ekki verið á þingi, en hann átti þar sæti, þegar þetta var sett í lög. En í allshn., sem bar fram þessa till., voru ýmsir þjóðkunnir menn þ. á m. núv. hæstv. forsrh. og tveir fyrrv. ráðh., og er annar þeirra látinn, Finnur Jónsson, og að auki voru í n. Jörundur Brynjólfsson og Jónas Rafnar, en Jörundur Brynjólfsson hafði framsögu fyrir n. í málinu. Enn fremur tjáði þáv. menntmrh., Björn Ólafsson, sig þessum breytingum mjög fylgjandi. Þetta var á þinginu 1951.

Í ræðu, sem frsm. n., Jörundur Brynjólfsson, flutti við þetta tækifæri, segir m.a. um þessa till. n.: „Þá flytur n. auk þess till. um, að þeir útlendingar, sem hljóta hér íslenzkan ríkisborgararétt, taki upp íslenzk heiti.“ Svo er þess getið, að hæstv. menntmrh. þáv. hafi haft orð á þessu við 2. umr. málsins og bent á það réttilega, að það væri varhugavert fyrir íslenzka tungu í framtíðinni, ef það væri látið haldast svo áfram, að þessir útlendingar og niðjar þeirra héldu sínum erlendu heitum. Síðan segir frsm.: „Í framtíðinni yrði þetta mjög afkáralegt og óæskilegt, ef það yrði látið svo til ganga. Ég er alveg sammála hæstv. menntmrh. um, að þetta eru orð í tíma töluð og að rétt sé að ráða bót á þessu nú þegar. — Það kann að þykja nokkur strangleiki í því fólginn, að þessir menn þurfi jafnvel að skipta um nafn. En þegar þess er gætt, hvað okkar tunga á í hættu, þá tel ég það alls ekki of harða kröfu, ef þeim er mikið kappsmál að verða íslenzkir ríkisborgarar, þó að þeir taki sér nýtt nafn.“ Þetta sagði frsm. n., sem gerði till. fyrir 20 árum. Og síðan hlaut þessi till. samþykki þingsins, án þess að á móti henni væri mælt eftir því, sem ég get munað eða séð í Alþingistíðindum. g skal geta þess, að einn af þeim, sem studdu þessa breytingu, var Bjarni heitinn Benediktsson, sem síðar varð forsrh.

Þetta var á þinginu 1951, en á þinginu 1952 var einnig frv. um ríkisborgararétt til meðferðar, og þá var það, sem núv. hæstv. menntmrh., Gylfi Þ. Gíslason, kom fram með þá brtt., sem hv. frsm. allshn. var nú að mæla fyrir. Þetta hefur verið áhugamál hans alllangan tíma eða síðan 1952, að ákvæðin næðu ekki til þeirra, sem ríkisborgararéttinn fengju, heldur til barna þeirra, og á því þingi urðu um þetta mjög verulegar umr. Brtt. þessi var felld í Nd. með mjög miklum atkvæðamun, en samþ. með eins atkv. mun, ef ég man rétt, í Ed., og síðan fór málið fyrir Sþ. og var þar samþ. með allmiklum meiri hl. Það er nú ekki ófróðlegt að heyra þessar raddir þingskörunganna frá því fyrir 20 árum, sem þá töluðu í þessu máli, og hvað þeir höfðu til málanna að leggja, og ég hygg, að þeir hafi nú mælt betur fyrir þessu lagaákvæði en ég er fær um að gera. Frsm. n., sem þá var hinn sami, Jörundur Brynjólfsson, hélt alllanga ræðu um þetta mál, en einnig talaði þáv. menntmrh., Björn Ólafsson. Hann sagði m.a.:

„Mér þykir mjög vænt um að sjá, að hv. allshn. vill halda fast við þá stefnu, sem hún markaði á síðasta þingi um það, að nýir ríkisborgarar skuli nefnast íslenzkum nöfnum. Ég er henni alveg sammála um það, að ekki sé heppilegt að hafa neitt millispor í þessu efni, eins og till. hv. 3. landsk.“ — þ.e. Gylfa Þ. Gíslasonar — „gerir ráð fyrir. Till. hans er engin lausn á málinu.“ Þetta var till., sem nú er komin fram. „Þó að hann hugsi sér, að hin erlendu nöfn muni deyja út með þeim mönnum, sem fá ríkisborgararéttinn, þá er ég a.m.k. einn af þeim, sem ekki trúa á, að svo muni verða, heldur að þessi nöfn muni verða hér við lýði um aldur og ævi og niðjarnir kenna sig til hins erlenda nafns þrátt fyrir það, sem hv. þm. ætlast til um breytingu á fornöfnum þessara manna.“

Þetta sagði þáv. hæstv. menntmrh. Björn Ólafsson. Frsm. n., Jörundur Brynjólfsson, sagði m.a. og er þá að svara flm. brtt.:

Hv. þm.“ — þ.e. Gylfi Þ. Gíslason — „telur, að mörgum finnist eins og nafnið sé hluti af sjálfum sér. Það má nú vel vera. Ég vil ekki vera með neinar getgátur um það, hvernig menn lita á það, en þess ber þó að gæta, að þegar útlendur maður á í hlut, og er ekki í sínu heimalandi, þar sem hans tungumál er ekki talað, heldur allt annað mál, og ef hann hugsar til fyrir sig að dvelja til æviloka í þessu landi og niðjar hans koma til með að dvelja þar áfram, þá finnst mér, að það hljóti að vera honum nokkur linkind, þó að hann breyti um nafn, og þá hafi minna að segja sú mikla hefð og helgi, sem kann að vera á ættarnafni hans. Ég vil taka það trúanlegt,“ segir þessi þm., „að þeir, sem sækja um ríkisfangsrétt, geri það í því skyni, að þeir vilji vera hér, þeir skoði það sem sitt föðurland orðið, þó að þeir hafi átt annað föðurland fyrir, og þeir hafi þá trú á landinu og þeirri þjóð, sem þeir taka sér bólfestu hjá, að þeir ætli niðjum sínum að lifa með þjóðinni og þá held ég, að það hljóti að vera þeim enn ríkara í huga, að það, sem niðjanna bíður í þessu efni, verði samkv. eðli þeirrar tungu, sem þeir tala, svo að það mál sé haft í heiðri, mál þess föðurlands, sem niðjar þeirra hafa tekið sér bólfestu í. Það hefði ég viljað meina, að þannig væru þeir ekki gerðir, þessir menn, þó að þeir séu komnir til fullorðinsára, að þeir meti ekki þessar ástæður fyrir niðja sína meira en það, sem þeim kann að virðast í fljótu bragði um sínar eigin tilfinningar, aðeins fyrir heiti sínu. Ég vil engan veginn gera lítið úr þessu atriði í sjálfu sér, þar sem það á heima, en úr því að maðurinn er seztur að í allt öðru þjóðlandi, þar sem allt annað mál er talað, og úr því að hann hugsar til, að hann dvelji, — þannig verður maðurinn að taka þetta, –að hann dvelji ævi sína í þessu landi, og ef hann á niðja, þá komi þeir til með að vera þar, þá hefði ég haldið, að það væri enn helgari réttur og meira virði en þ6 að hann skipti um nafn um leið og hann fær íslenzkan þegnrétt. Ég meira að segja lít þannig á, að mörgum útlendum manni, sem svona er ástatt um, væri ljúft einmitt að færa þessa fórn fyrir sjálfan sig, til þess að öðlast þegnréttinn, og fyrir niðja sína. Hinir, sem þannig kann að vera ástatt um, að þeir eigi ekki niðja og það sé aðeins um þá sjálfa að ræða, þá verð ég að segja það að ef þeim finnst það mikils virði að fá íslenzkan þegnrétt, þá held ég, að þeir verði að færa þessa fórn. Ég held, að við getum ekki tekið svo mikið tillit til þeirra, að við getum undanþegið þá, því að það er vitaskuld ekki hægt, ef hitt á ávallt að vera reglan og þeir verði þá að færa þessa fórn, ef þeim finnst þá einhver fórn í því. Finnist þeim, að þeir geti það alls ekki, þeir geti ekki unnið það til að fá þennan þegnrétt, þá verður náttúrlega að vera án þeirra, og þó að það kunni að vera góðir menn, þá finnst mér samt, að við verðum að láta það ráðast, hvort þeir láta þetta ráða sínum óskum eða ekki.“

Ég hef lesið upp hér þessa kafla úr umr. fyrir 21 ári og fyrir 20 árum til þess að menn fái að heyra, hvað fyrir þeim vakti, sem stóðu að breytingunni og ekki vildu þá samþykkja brtt. hæstv. núv. menntmrh. og þeirra, sem tekið hafa undir hana með honum. Ég hef viljað lofa mönnum að heyra, hvað fyrir þeim vakti og hvernig þeir orðuðu það, þessir þingskörungar, sem hér er um að ræða, í þann tíð. Þeir litu ekki svo á, að það væri verið að gera neinum manni órétt með þessu. Hér væri aðeins verið að vernda tunguna, og það að vernda tunguna er snar þáttur í því að vernda þjóðernið. Þeir litu svo á, að með því að veita útlendum mönnum íslenzkan ríkisborgararétt þá væri verið að veita þeim mikilsverð réttindi, sem þeim væri mikið í mun að öðlast, og það væri þá ekki nema sanngjarnt, að þeir féllu frá því að hafa með nafni sínu óhagstæð áhrif á þróun tungunnar í landinu. Og vitanlega er enginn neyddur til þess að skipta um nafn. Hér er ekki um það að ræða að knýja neinn til þess að verða hér ríkisborgari. Alþ. Íslendinga er búið að veita miklum fjölda manns ríkisborgararétt á undanförnum áratugum, og ég vil nú taka undir það, sem einnig kom fram í þessum umr., að þó að þarna sé sjálfsagt yfirleitt um gott fólk að ræða, sem þjóðinni er ávinningur að, að setjist að í landinu, þá er þetta vandmeðfarið mál og Alþ. má gæta þess að vera ekki of örlátt á þennan dýrmæta rétt. Við lítum svo á, að hann sé mikils virði, hann sé dýrmætur réttur.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð öllu fleiri. Ég er ekki fylgjandi þessari brtt., sem hér hefur verið borin fram. Ég vil a.m.k. bíða, þangað til álit mannanafnanefndarinnar kemur fram og við getum skoðað þessi mál í heild. Ég hef ekki skipt um skoðun á þessum árum, sem liðin eru síðan. Ég fylgdi þeim mönnum að málum, sem fluttu þau rök á Alþ., sem ég nú hef lýst lítillega með því að fara hér með kafla úr ræðum þeirra. Ég held, að við eigum hér nokkuð í vök að verjast, Íslendingar, við að halda uppi tungunni og þjóðerninu og íslenzkri menningu, og vökin er að þrengjast hún er þrengri nú en hún var fyrir 20 árum. Og kannske er það einn vottur þess, að vökin sé að þrengjast, að þetta mál skuli nú vera upp tekið. En þó vil ég nú ekkert fullyrða um það, fyrr en ég sé eða heyri þá atkvgr., sem væntanlega fer fram um till. síðar hér í hv. deild.