22.03.1971
Neðri deild: 66. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1435 í B-deild Alþingistíðinda. (1536)

186. mál, Kennaraháskóli Íslands

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Þegar þetta mál fer nú loks út úr þessari hv. d., þá vildi ég aðeins láta fylgja örfá orð af minni hálfu. Ég mun þó ekki flytja neinar brtt. við frv., og ég mun greiða því atkvæði. En þótt ég á vissan hátt fagni því, að kennaramenntunin kemst á háskólastig, þá er ég þó ekki ánægður með öll ákvæði þessa frv. Ég vil þó alveg sérstaklega nefna eitt atriði í frv. Það er kennslumagnið eða sá kennslutími, sem á að fara til æfingakennslunnar í hinum nýja kennaraháskóla; það eru 12 vikur á þremur árum. Ég tel þetta fjarri öllu lagi, og það væri lágmarkið, að þessi tími væri helmingi lengri. Ég tel æfingakennsluna, hina verklegu þjálfun, svo mikils virði eða svo þýðingarmikla í öllu kennaranámi, að þar megi ekki skera við nögl sér, og þetta segi ég út frá minni eigin reynslu í kennaraskóla. Á þessu gat þó ekki fengizt rýmkun, sem hægt væri að kalla svo, þó að bætt sé við eða gert skýrara þarna orðalag, en ég held, að þetta sé mjög óheppileg ráðstöfun, og ég lýsi óánægju minni yfir þessu ákvæði frv.

Annað er það, sem ég vil nefna jafnframt. Það er, að mér þykir það með öllu óeðlilegt, að þegar kennarar hafa stundað nám í þrjú ár í menntaskóla, þrjú ár í kennaraháskóla og eitt ár til þjálfunar eða í sjö ár, þá hafa þeir engin réttindi til að kenna við nokkurn skóla á Íslandi nema skyldunámsskólana. Þetta tel ég með öllu óeðlilegt og lítt viðunandi. Ég hélt, að þessir kennarar eftir þetta nám allt hlytu þó að vera orðnir það menntaðir, að þeir gætu kennt við einhverja framhaldsskóla í landinu á eftir. En svo er nú ekki, þeir eiga engin réttindi að hafa til þess.

Að lokum er atriði, sem ég vil nefna, en snertir ekki beint þetta frv. Það er það, að ég álít, að stúdentar, sem fara í kennaraháskóla, þurfi að fá nokkra menntun þegar í menntaskóla undir kennaranámið, og því hef ég talið eðlilegt og beini því til þeirra, sem síðar kunna að fjalla um þessi mál, að í menntaskólunum verði settar á fót kennaradeildir, þar sem byrjað væri að mennta væntanlega stúdenta undir kennaranám í háskóla. Hliðstætt því, sem verið hefur, að í þeim eru stærðfræðideildir og máladeildir, þá kæmu þar kennaradeildir. Og inn í kennaraháskólann kæmu aðeins þeir stúdentar, sem hefðu lokið námi við menntaskóla í kennaradeild.

Ég skal nú ekki hafa þessi orð fleiri. Ég mun fylgja þessu frv., en ég vil gjarnan taka undir það, sem hér kom fram áðan, að það má ekki líða langur tími, þangað til þessi löggjöf verður endurskoðuð.