23.03.1971
Efri deild: 72. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1439 í B-deild Alþingistíðinda. (1542)

186. mál, Kennaraháskóli Íslands

Kristján Ingólfsson:

Herra forseti. Einu sinni var ort um ráðh. sem mikinn svip setti á Alþ., kvæði, sem margir kunna, og í því voru þessar línur, sem áttu að lýsa framtakssemi hans:

„Undirskriftirnar eru stundum ekki meira en svo þornaðar.“

Ýmsir munu kannast við, við hvern hér er átt. Mér dettur þetta í hug í sambandi við það, að nú hafi okkar hæstv. menntmrh. komizt spönn lengra, því að áður en undirskriftirnar verða til, er farið að undirbúa og það meira en með venjulegum undirbúningi, að því er ég bezt veit, stofnun kennaraháskóla á næsta ári.

Ég ætla ekki að þreyta hv. d. með því að fara að rekja hér sögu íslenzkrar kennaramenntunar. Þar hefur oltið á ýmsu, eins og mönnum er kunnugt, og sú menntun hefur ekki alltaf verið hátt virt með þjóðinni. En með tilkomu hins nýja kennaraskólahúss breyttist nokkuð afstaða yfirvalda menntamála — og segja má almenningsálitsins — til þessa, og þegar því fylgdi — því að þetta stóð þannig af sér — mikil aukning á ungu fólki í langskólanámi, þá þróaðist þetta þannig með byltingarkenndum hraða, að það hús, sem upphaflega var ætlað á þriðja hundrað nemendum, yfirfylltist svo, að um undanfarin ár hefur þar verið vandræðaástand þrátt fyrir það, að stofnuninni veitti forstöðu valinkunnur og góður skólamaður. Það er ekki við neinn að sakast um þetta fortíðaratriði; því er lokið. Réttara sagt, því mun vera að ljúka.

Ég geri ráð fyrir því, að hæstv. ríkisstj. hafi tryggt sér hér fylgi meiri hl. Alþ., og ég heyri það, að þetta frv. á líka fylgjendur ófáa í stjórnarandstöðuflokkunum, þannig að eflaust verður þetta að l. eftir nokkra daga. En eigi veldur sá, er varar, og þar sem ég er nú brátt á heimleið úr þessari d. og mun ekki þreyta hana meir, þá hefði mig langað til þess að minnast hér á nokkur atriði. Ég ætla þá fyrst að koma að 4. gr., sem Nd. hefur breytt frá því, sem var í hinu upprunalega frv. Þar sakna ég mjög meðal inntökuskilyrða framhaldsdeildar gagnfræðaprófs með uppeldiskjörsviði. Það er að vísu almennt ákvæði í 1. lið 4. gr. um annað nám, ef skólastjórn tekur það jafngilt og mælir með því, en menntmrn. fellst á það. Nú vitum við það hins vegar, að ekki lítill fjöldi nemenda hefur stundað nám á uppeldiskjörsviði, að því er ég bezt veit, og ég geri ráð fyrir því, að þetta fólk hafi m.a. miðað sitt val á sínum tíma við það að geta komizt í kennaraskólann. Ég hefði kosið, að þetta atriði væri alveg á hreinu; það þyrfti ekki neinar hliðarvendingar í því sambandi.

Eins og ég minntist á hér áðan, hefði ég kosið, að þetta frv. hefði fengið hægari gang í gegnum þingið og þar af leiðandi þingræðislegri meðferð. En því er nú ekki að heilsa. Það á að reka það hér áfram með hraða, og ég er því miður hræddur um, að sjálft frv. gjaldi þess. Úr því að hæstv. ráðh. er farinn hér úr d., beini ég fyrst og fremst máli mínu til hv. menntmn., sem ég veit, að í sitja ágætir og rólegir menn, sem munu athuga þetta frv, eins vel og tími þeirra leyfir.

En þegar við lítum hér á þá námsgreinaskrá, sem birtist hér í t.d. 7. gr., þá verð ég að segja það, að mér þykir þar verða harla lítil breyting á frá því, sem verið hefur. Það má e.t.v. segja, að þetta sé undirstaða kennaranáms, en þá komum við að öðru. Er sú stofnun, sem við erum hér að stofna, það, sem við köllum háskóla? Er hún „universitet“? Eftir því sem ég bezt fæ skilið, þá er þetta það, sem við gætum á erlendu máli kallað „seminarium“. Þetta er skóli, sem býr menn undir ákveðið starf í lífinu, en ekki hugsað til þess, að hann verði vísindaleg rannsóknastofnun nema að mjög litlu leyti. Til þess að sanna það mál mitt vildi ég aðeins benda á það, sem segir upphaflega í 11. gr., þar sem segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Skipa skal allt að sjö prófessora, tvo í uppeldisgreinum, einn í íslenzkum fræðum, einn í erlendum málum, einn í raungreinum, einn í félagsgreinum og einn í listgreinum.“

Eftir mínum skilningi í þessu máli þá á einn prófessor í rauninni að vera prófessor á mörgum sviðum. Ég held nú, að þar sem hæstv. menntmrh. var talinn ágætur prófessor hér, áður en hann tók við menntmrh.-embætti, þá ætti hann manna bezt að skilja, að einum prófessor hlýtur að vera ætluð fyrst og fremst sú sérgrein, sem hann hefur menntun til að sinna. Prófessor í raungreinum á að sjá um eðlis- og efnafræði, stærðfræði og landafræði. Getur hann verið svo hámenntaður og fjölmenntaður á öllum þessum sviðum, að honum beri prófessorstitill og prófessorsskilyrði? Er hægt að rækja þetta starf með þeim hætti, sem við ætlumst til af prófessorum? Og nú kem ég að því, að mér finnst þess gæta nokkuð í þessu frv., að í rauninni sé breytingin á kennaranáminu sú, að með því að gera stúdentspróf að inntökuskilyrði fækkum við nemendum í húsinu, fáum betri starfsfrið og starfsmöguleika og höldum mikið til gömlu námsskránni, en til þess að gera þetta nú allt í samræmi við fínheit þjóðfélagsins þá köllum við þetta háskóla, þó að það sé ekki háskóli og köllum kennarana prófessora, dósenta, lektora og aðjúnkta. Ég get ekki að því gert, að mér finnst kenna eilítils hégómabragðs af þessu öllu saman, og ég hefði kosið, að sá skóli, sem hér áður var, hefði fengið að halda sér í sinni mynd, þó að e.t.v. hefði verið rétt að gera stúdentspróf og hliðstæðan undirbúning að inntökuskilyrði í samræmi við aðra þróun í menntamálum þjóðarinnar, þar sem stúdentsprófið er að verða álíka algengt og gagnfræðapróf var fyrir nokkrum áratugum síðan.

Ég skal ekki þreyta d. öllu meir, en áður en þessu lýkur vildi ég aðeins minnast hér á tvö atriði, sem ég hefði óskað eftir, að hv. menntmn. hefði tekið til betri athugunar. Persónulega efast ég um það, að 12 vikur séu nægjanlegur, verklegur undirbúningur, þó að það sé rétt hjá hæstv. menntmrh., að þetta sé mikil breyting til batnaðar frá því, sem verið hefur. Og ég held, að það væri rétt að athuga þetta atriði nánar. Auk þessa held ég, að það væri rétt að athuga mun betur, á hvern hátt starfandi kennurum, sem ekki hafa undirbúning, sem heitir stúdentspróf eða annað því um líkt — en þurfa á því að halda hins vegar að koma úr sínu daglega starfi til þess að endurnýja sig og til þess að kynnast nýjungum — verði gert það kleift að komast í skólann; það þarf að hafa það ögn skýrara en nú er. Ég efast ekkert um það, að það væri ágætt fyrir þá að mega fara beint inn í skólann, eins og gert er ráð fyrir þarna í frv., en ég álít, að það gæti verið mun gagnlegra fyrir þá að fá deild, sem væri sérstaklega skipulögð við þeirra hæfi.

Ég persónulega lít svo á, að frv. í megindráttum muni ekki taka miklum stakkaskiptum frá því, sem komið er. En ég álít, að enn séu á því nokkrir agnúar, sem gera muni framkvæmd þess erfiða eða réttara sagt væri full ástæða til þess að sníða af. Nokkra þeirra hef ég nefnt, og ég geri ráð fyrir því, að hv. menntmn. muni sjá bæði þá agnúa og aðra, og ég held, að það eigi að vera hægt með góðri athugun að ná þeim burtu. Úr því að hv. Nd. hefur nú sent okkur 3–4 mál aftur í höfuðið hér í Ed., þá held ég, að hún væri ekkert of góð til að fá þetta í hausinn til yfirferðar einu sinni.