29.03.1971
Efri deild: 78. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1507 í B-deild Alþingistíðinda. (1578)

281. mál, almannatryggingar

Frsm. meiri hl. (Jón Árm. Héðinsson):

Herra forseti. Eins og fram kemur á nál. meiri hl. heilbr.- og félmn. hv. d. á þskj. 689, hefur n. haldið tvo sameiginlega fundi heilbrigðisn. beggja d., Ed. og Nd. Alþ. Á þessa fundi komu Hjálmar Vilhjálmsson ráðuneytisstjóri, sem var form. í endurskoðunarnefndinni um almannatryggingalögin, Sigurður Ingimundarson alþm. og forstjóri Tryggingastofnunar ríkisins og Guðjón Hansen tryggingafræðingur. Þessir fundir stóðu í alllangan tíma í hvort skipti, og var frv. rætt og nefndarmenn spurðir um margvísleg atriði, sem hinir þrír áðurnefndu gestir nm. útskýrðu og báru saman við gildandi lög. Ég mun nú í stuttu máli fjalla um sum þessara atriða, sem til umræðu voru. Fyrst má nefna, að nm. voru sammála um að bæta inn í 9. gr. ákvæði, er mæli svo fyrir, að Tryggingastofnunin skuli kynna almenningi rétt sinn til bóta með meiri upplýsingastarfsemi. Það var rætt um það, hvort ætti að binda þetta með ákveðnum hætti, en forstjóri Tryggingastofnunarinnar upplýsti, að þeir væru sjálfir með hugmyndir í þessu efni, og við töldum, að þetta væri nægilegt aðhald og síðar mundi reyna á framkvæmd í því efni. Í öðru lagi var n. sammála um, að ákvæði 35. gr. um tímatakmörk, ef slys valda dauða, skuli breytt, þannig að þau verði tvö ár í stað eins árs varðandi bótarétt. Á þessu stigi varð ekki samkomulag um fleiri brtt. fyrir 2. umr., sbr. till. á þskj. 690.

Þegar hafa einstakir hv. þm. í Ed. lagt fram margar brtt., sem munu kosta marga tugi milljóna, ef ekki mun meira, fram yfir það, sem frv. sjálft gerir ráð fyrir, en áætlað hefur verið, að útgjaldaaukningin muni verða rétt um 500 millj. kr. við gildistöku þeirra laga. Þrátt fyrir þessa miklu aukningu hafa stjórnarandstæðingar fundið margt að frv., og búast má við, að þeir komi með í viðbót mikið af brtt., er hafi stórútgjöld í för með sér. Einnig hafa þeir mjög gagnrýnt gildistöku laganna, sem er 1. jan. 1972, og sagt, að vandalaust væri að láta breytinguna koma til framkvæmda 1. júní á þessu ári. Það er þó skemmtileg þversögn og athyglisverð í þessum málflutningi stjórnarandstöðunnar. Í ótal skipti í sambandi við ýmis mál hafa þessir ágætu menn lýst því yfir á litríkan hátt með orðaforða og viðeigandi áherzlum, sem jafnvel Snorri Sturluson mætti öfunda þá af, ef hann væri nú meðal vor, hversu allt væri hér á hverfanda hveli og stefndi í eina átt, norður og niður, og ekki væri að vita, hvar enda mundi, en stefnan væri — svo að notað sé margnefnt orð undanfarna daga — hrollvekjandi, og má því búast við, að ekki verði staðar numið hjá þessum vondu mönnum, sem landinu stjórna og styðja vilja frv., og hæstv. ríkisstj., fyrr en jafnvel neðan við Húsavíkur-Jón, og vita þó allir, hvar hann fékk samastað vegna eigin verka. Á hinn bóginn er það athyglisverð viðurkenning á stefnu ríkisstj. og getu efnahagslífins, að það sé vel framkvæmanlegt að láta lögin taka gildi nú 1. júní, þótt það hafi í för með sér skyndilega útgjaldaaukningu, a.m.k. upp á 250 millj. kr. Þótt margt standi nú vel og útlit á ýmsum sviðum gott, eru það þó óraunhæf vinnubrögð að setja lög, sem hafa svo mikla útgjaldaaukningu í för með sér, án þess að tryggja og útvega nægjanlegt fjármagn samtímis. Þetta er öllum háttv. alþm. ljóst, en vegna nálægðar kosninganna skal nú ekki hugsa rökrétt, heldur skal kylfa látin ráða kasti og tækifæri notað til að lumbra á stjórnarsinnum. Hér á eftir mun ég í fáum orðum fjalla um ýmis atriði, sem rædd voru á nefndarfundum og skýringar fengust á.

Í 12. gr. er fjallað um rétt til örorkulífeyris og kveðið svo á, að búseta eða lögheimili hér á landi a.m.k. þrjú síðustu árin sé skilyrði til þess að öðlast rétt til örorkulífeyris. Áður var ríkisborgararéttur skilyrði í þessu sambandi, en þetta er mikilsvert atriði til samræmingar við löggjöf annarra þjóða.

Samkv. 14. gr. er nú skylt í fyrsta sinni að greiða barnalífeyri með börnum að 17 ára aldri, ef annað hvort foreldra er látið. Áður náði þetta aðeins til móður, en heimilt var að greiða barnalífeyri til ekkla, en sú heimild var litið notuð. Árlegur barnalífeyrir með hverju barni skal vera 36 108 kr.

Í 15. gr. eru ákvæði um mæðralaun, sem eru þannig, að með fyrsta barni á að greiða 6192 kr., en með tveimur börnum 33 600 kr. og með þremur börnum eða fleiri 67 200 kr. á ári. Hér vilja stjórnarandstæðingar gera á verulega breytingu og hækka með fyrsta barni í allt að 16 800 kr. Í frv. er gert ráð fyrir sama hlutfalli á milli barna og ákveðið var í l. 1968, en tölurnar hækka núna verulega til samræmingar við verðlag í dag. Rökin fyrir þessum mikla mun á fyrsta og öðru barni eru þau, að kona með eitt barn getur í langflestum tilfellum komið barninu fyrir á barnaheimili eða hjá nánustu vandamönnum, en hins vegar á kona með tvö börn í miklu meiri vanda, og með þrjú börn á hún varla kost á öðru en að gefa sig eingöngu að heimilinu. Þessi venja hefur verið í nokkur ár, en ef til vill má deila um þetta hlutfall, og kann svo að vera, að nefna megi dæmi um erfiða framfærslu hjá konu með eitt barn á sínum vegum.

Í 19. gr. er fjallað um elli- og örorkulífeyri, og er kveðið svo á, að lágmarksgreiðsla skuli vera 84 000 kr. sem tryggð er þeim körlum og konum, sem ekki njóta lífeyrissjóða eða hafa annan tekjumöguleika, er tryggir þeim þessar tekjur. Hér er um merkilegt nýtt ákvæði að ræða, sem allir eru sammála um, að fram skuli ná og á að tryggja betri lífsskilyrði gömlu fólki, sem ekki hefur náð félagslegum réttindum og stendur því meira og minna utanveltu, vegna þess að ekki var myndaður einn lífeyrissjóður fyrir alla landsmenn, sem hefði verið raunhæfasta og skynsamlegasta leiðin til tryggingar elli- og örorkulífeyri. Stjórnarandstaðan hefur haft uppi gagnrýni á þessa tölu og telur hana auðvitað of lága og einnig, að hún gildi aðeins um fólk, sem ekki hefur tekið greiðslur frá öðrum lífeyrissjóðum, þó að lágar séu. Hér er rétt að undirstrika, að löggjafinn er að veita nýjum hópi manna, karla og kvenna — og þó líklega í miklum meiri hluta gamalla kvenna, eðlilega viðurkenningu og nokkra tekjutryggingu án þess að svipta nokkra aðra nokkru af sínum fyrri réttindum, og enn er ekki vitað, hversu margir munu lenda í þessum hópi, og því er erfitt að áætla útgjaldaaukningu í þessu sambandi, en þó mun öruggt, að hún muni skipta nokkrum milljónum króna.

Í 20. gr. er fjallað um það, með hvaða hætti skuli aflað tekna til að greiða lífeyristryggingarnar. Það er með þessu móti: Ríkissjóður skal greiða 36%, hinir tryggðu 32%, sveitarsjóðir 18% eða sveitarfélögin og atvinnurekendur 14%. Þetta er óbreytt frá fyrri lögum.

Í 23. gr. er fjallað um, hverjir skuli greiða iðgjöld, og er sú breyting gerð hér á, að unglingar 16 ára að aldri eru teknir út og falla því iðgjöldin á aldursflokkana 17–67 ára. Af þessu leiðir að sjálfsögðu, að iðgjöld fólks á aldrinum 17–67 ára hækka sem nemur iðgjaldakvöð 16 ára aldursflokksins, en áætlað er, að það nemi rúmlega 25 milljónum kr. Auk þess er svo rétt að undirstrika, að aldrei skal leggja iðgjöld á þann, sem hefur ekki haft aðrar tekjur en bætur samkvæmt l. þessum. Í þessu sambandi er rétt að minna á ákvæði 67. gr., þar sem fjallað er um, hvernig skólafólk hefur rétt til þess, að sveitarfélag greiði iðgjald þetta, en gagnrýnt hefur verið, hvers vegna skólafólk, sem er í langskólagöngu, skuli ekki vera undanþegið iðgjaldagreiðslu. Með ákvæðum 67. gr. er skólafólki gert mögulegt að fá sveitarfélag sitt til að inna iðgjald af hendi, en sækja þarf um greiðsluna, og svo virðist sem margt skólafólk hagnýti sér ekki þennan rétt. Þó er vitað, að í sumum bæjarfélögum eru greiddar verulegar upphæðir í tryggingaiðgjöld fyrir langskólafólk.

Í 26. gr. er fjallað um fjölskyldubæturnar, og þar segir, að þær skuli vera 8000 kr. með öllum börnum yngri en 16 ára. Hugmyndir voru uppi um það í n. að hækka aldursmarkið upp í l7 eða 18 ár. Slík breyting mun kosta stórfé. Auk þess hafa verið uppi ýmsar hugmyndir um breytt kerfi á fjölskyldubótum og tengsl fjölskyldubóta við skattkerfið. En allt þetta mál þarf viðamikla endurskoðun og samræmingu á fleiri l., og langur tími mun sennilega liða, þangað til slík breyting nær fram að ganga, því að nokkuð mun mönnum sýnast sitt hvað í þessum efnum.

Rétt er að vekja athygli á því, að útgjöld vegna fjölskyldubóta eru að fullu greidd úr ríkissjóði, og gert er ráð fyrir, að á yfirstandandi ári nemi fjölskyldubætur um 580 millj. kr. Á þessu sést, að breyting á þessu kerfi er mikið mál, sem þarf góðan undirbúning.

Í 34. gr. er fjallað um það, er slys veldur varanlegri örorku og hvernig úr skal bæta eftir því, hversu örorkan er metin mikil. Umræður urðu um það í heilbr.- og félmn., hvort setja ætti inn sérstakt ákvæði um, hvort meta skyldi örorku manna eftir visst árabil að nýju. Meiri hl. nm. taldi þess ekki nauðsyn, þar sem það er oft gert, þegar um vaxandi örorku er að ræða, að örorkustigið er metið upp að nýju. Einnig hefur örorkumaður möguleika á því að velja á milli greiðslu á örorkubótum í einu lagi eða greiðslu á vissu tímabili. Hins vegar var það upplýst, að nær er það undantekningarlaust, að menn hafni greiðslu í einu lagi við örorkumatsniðurstöðu.

Í 32. gr. er að finna mörg ákvæði um þátttöku í kostnaði vegna slysa í lið nr. 2. Í þessari grein er rætt um ferðakostnað sjúklings til læknis í leigubíl og sagt, að helmingur kostnaðar sé greiddur. Hins vegar er ekki greiddur kostnaður af ferðalagi í eigin bifreið, og er litið svo á, að menn séu ekki verr settir um ferðalag á eigin farartæki en að greiða að hálfu gjaldið með leigubíl.

Í 43. gr. er aftur á móti fjallað um þátttöku sjúkrasamlags í kostnaði vegna veikinda. Undir lið h. er sagt, að 3/4 hlutar kostnaðar skuli greiddir, enda sé flutningsþörf svo bráð og heilsu hins sjúka svo varið, að hann verði ekki fluttur eftir venjulegum farþegaflutningsleiðum. Um þennan lið urðu miklar umræður og m.a. það vandamál, er varðar sjúklinga, er búa í héruðum, þar sem læknislaust er. Einnig var rætt um það, hvort réttmætt væri að líta á ferðalag þungaðrar konu í læknislausu héraði til barnsburðar á fæðingardeild sem venjuleg veikindi eða öryggisráðstöfun. N. gerði ekki breytingu hér á frv.

Í lok greinarinnar segir svo: „Í samþykktum sjúkrasamlaga er heimilt að ákveða víðtækari hjálp vegna veikinda, svo og greiðslu fyrir tannlækningar.“ Í sambandi við tannlækningar urðu miklar umræður. Fyrir d. liggja bæði frv. og brtt. varðandi þátttöku í kostnaði við tannlækningar, og vilja flm., að sjúkrasamlag geri samning við tannlækni, sem sé staðfestur af rn., og kostnaður að 3/4 hlutum sé greiddur, þegar tannlækningin er, eins og það er orðað, heilsufarsleg nauðsyn. Ráðuneytisstjórinn Hjálmar Vilhjálmsson upplýsti, að raunverulega þyrfti ekki að beita l. neitt í þessum efnum, en ekki hefðu sveitarfélögin sýnt áhuga á þessu máli á breiðum grundvelli, þegar undan er skilinn Húsavíkurkaupstaður. Upplýst var á nefndarfundum, að viða er greiddur helmingur af kostnaði við tannviðgerðir skólabarna. Augljóst er, að framkvæmd á eftirliti við reikningslegt mat á kostnaði við tannviðgerðir er mikið vandamál, ef aðeins á að greiða fyrir aðgerð, sem fellur undir hugtakið heilsufarsleg nauðsyn. Engu að síður er rétt, að það komi fram, að tímabært er talið af mörgum aðilum og brýn nauðsyn að mótuð sé ákveðin stefna varðandi hugsanlega þátttöku sjúkrasamlags í greiðslu á lækningum í eða út frá tönnum. Varðandi kostnað við tannviðgerðir getur verið um að ræða svonefndar fyrirbyggjandi læknisaðgerðir, þ.e. að læknirinn geri við tennur til að koma í veg fyrir meiri tannskemmdir eða aðra sjúkdóma, sem af þeim kunna að stafa.

Í 49. gr. segir, að ríkissjóður greiði Tryggingastofnun ríkisins framlag til sjúkratrygginga, er nemi 250% greiddra sjúkrasamlagsiðgjalda samlagsmanna. Alls munu þetta vera iðgjöld fyrir ríkissjóð upp á um það bil 1056 millj. kr. Raddir voru uppi um það, að hækka þyrfti hlutfall ríkissjóðs upp í 260%, sem hefði þá útgjaldaaukningu um 40 millj. kr. í för með sér. Skipting sjúkrasamlagsgjalda samkvæmt frv. er þannig: 100 kr. á samlagsmann, 86 kr. á sveitarfélög og 250 kr. koma á Tryggingastofnunina. Upphæð sjúkratrygginga hefur farið ört vaxandi á undanförnum árum, og gera má ráð fyrir, að á næsta ári fari sjúkratrygging jafnvel fram úr lífeyrissjóði og fjölskyldubótum til samans.

Ég hef, herra forseti, í stórum dráttum fjallað um helztu umræðuliði, sem teknir voru fyrir á nefndarfundum, þar sem fram koma margar brtt. Munu umræður örugglega verða um fleiri greinar, og sé ég á þessu stigi ekki ástæðu til að fjalla nánar um frv., en meiri hl. leggur til, að það verði samþ. að samþykktum brtt., eins og þær koma fram á þskj. 690.