29.03.1971
Efri deild: 78. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1527 í B-deild Alþingistíðinda. (1584)

281. mál, almannatryggingar

Björn Jónsson:

Herra forseti. Það var ekki mín meining að lengja hér umr. mikið. Aðallega taldi ég mig eiga erindi hér upp í ræðustólinn til þess að mæla fyrir till., sem við í minni hl. heilbr.- og félmn. flytjum á þskj. 702 og hv. frsm. n., 1. þm. Vesturl., gerði hér ekki að umtalsefni. En áður en ég vík að þessari till., þá get ég ekki stillt mig um vegna framkominnar yfirlýsingar hæstv. trmrh. fyrir hönd ríkisstj. að fara um hana nokkrum orðum. En þessi yfirlýsing er gefin af því beina tilefni, að við flytjum 1 minni hl. heilbr.- og félmn. á þskj. 694 brtt. við 78. gr. þess efnis, að skylt verði á þessu ári að hækka tryggingabætur, ef kauphækkanir verða á árinu. En eins og hæstv. ráðh. tók fram, þá er þetta heimilt núna, en verður skylt eftir áramót. Sjálfsagt er að virða vel þá yfirlýsingu, sem hæstv. ráðh. gaf um, að núverandi ríkisstj. mundi fá þessa heimild, þó að ákvæðum l. yrði ekki breytt, en ég hlýt þó að benda á það, að það er algerlega undir hælinn lagt og í fullkominni óvissu eins og nú standa sakir, þar sem alþingiskosningar standa fyrir dyrum, hvort það verður þessi ríkisstj. eða einhver önnur, sem kemur til með að fjalla um þetta mál. Mestar líkur eru á því, að kauphækkanir verði síðari hluta sumars, þegar almennir samningar renna út, og enginn veit nú, hvaða ríkisstj. fer þá með völd.

En ég hlýt þá að spyrja í þessu sambandi, hvað bagar hæstv. ríkisstj. og talsmenn hennar hér í hv. d. að samþykkja ekki þá brtt., sem við gerum við 78. gr., ef hún er fyrir sitt leyti ákveðin í því að framkvæma það á þann veg, sem þar er sagt. Ég sé þá ekki, að það kosti hana neitt. Og ég fæ sannast að segja ekki skilið annað en hún hljóti að fallast á það að gera breytinguna í samræmi við okkar till., þ.e. 11. till., b-liðinn, um, að hvað sem liði annars gildistöku laganna, þá bætist við greinina þetta ákvæði, þ.e. að skylt sé að hækka verðlagsbætur í samræmi við kaupgjaldshækkanir nú þegar, en það eigi ekki aðeins að gilda á næsta ári. Hins vegar er það svo ekki alveg fjarri lagi að athuga í þessu sambandi, að við erum sakaðir um það í minni hl. heilbr.- og félmn., að við séum ekki ábyrgir menn vegna þess, að við flytjum till. eins og þessa, og ábyrgðarleysið að meiningu hv. stjórnarsinna er m.a. fólgið í því, að við viljum, að gildistaka laganna fari fram nú þegar. En nú vildi ég spyrja hæstv. ráðh., sem stendur að því að gera hér till. um að hækka bætur um 20% frá næstu áramótum og telur, að það megi ekki ganga í gildi fyrr vegna þess, að ekki sé séð fyrir því á fjárlögum: Hvaðan ætlar hann að taka peninga til þess, ef kauphækkanir verða á árinu og hann ætlar að standa við þá yfirlýsingu, sem hann var nú að gefa? Ekki er fyrir því séð á fjárlögum. í annan stað vil ég svo benda á það, að hækkanir á tryggingabótum á s.l. ári voru látnar taka gildi án þess, að á nokkurn hátt hefði verið séð fyrir því fyrir fram og ekki var aflað fjár til þess fyrr en með fjárlögum þessa árs. Þetta vita auðvitað allir.

En hér er auðvitað ekki aðeins um það að ræða, að hæstv. ríkisstj. sé andstæð þeim till. okkar, sem fela í sér aukin útgjöld, heldur er hún engu síður á móti þeim till., sem ekkert fé kosta, og vil ég þar sérstaklega benda á till. okkar um mþn., sem vafalaust gæti orðið til þess, ef samþ. yrði og sú endurskoðun, sem þar er gert ráð fyrir, færi fram, að það fé, sem til tryggingamálanna fer — og er auðvitað auðsæilega og óumdeilanlega það mikið — notaðist betur til þess að ná þeim tilgangi sínum, sem allir að sjálfsögðu keppa að í sambandi við tryggingamálin. Ég get þess vegna ekki af þessum ástæðum, sem ég hef nú nefnt, tekið þessa yfirlýsingu trmrh. sem góða og gilda vöru, þó að ég sé ekki að vefengja það, að hann mundi framkvæma hana, ef hann væri trmrh. og sú stjórn við völd, sem nú er. Það er alveg óvíst og m.a.s. mjög ólíklegt, að til þess komi, að hún þurfi að standa við slíka yfirlýsingu, en treysti hún sér til þess, þá á henni heldur ekkert að vera að vanbúnaði að skylda aðra til að hugsa um öryggi þjóðfélagsins og gera það sama, sem hún segist vera reiðubúin til að gera. Og ég vil þess vegna skoða þessa yfirlýsingu sem innlegg í okkar málflutning fyrir því, að þessi breyting verði gerð.

En þá vildi ég aðeins víkja að þeirri till., sem við í minni hl. flytjum á þskj. 702, en hún er þess efnis, að þeir, sem hafa gert sjómennsku að ævistarfi sínu og stundað sjómennsku í 35 ár eða lengur, öðlist fullan rétt til lífeyris, þegar þeir hafa náð 60 ára aldri, en hafi maður á þeim aldri stundað sjómennsku sem aðalstarf í 40 ár, þá eigi hann rétt á tvöföldum ellilífeyri, þegar hann nær 60 árum, og einnig beri að greiða ekkjum fullan ellilífeyri, þegar þær verða 60 ára. Í sambandi við þessa till., sem ég tel mjög mikilsverða, vil ég geta þess, að hv. þm. Hannibal Valdimarsson flutti þessa till. í frv.-formi í Nd., en hún hefur ekki fengið þar þinglega afgreiðslu, en þar sem við erum henni samþykkir, viljum við gera tilraun til þess hér í þessari hv. d. að koma efnisatriðum hennar undir atkvæði, þannig að úr því verði skorið, hverjir eru raunverulega fylgjandi henni og hverjir ekki.

Í sambandi við till. vil ég svo segja það, að þó að það hafi verið svo, að allt frá því, að almannatryggingar hófu starfsemi sína hér á landi, þá hafi aldursmarkið til þess að öðlast ellilífeyri verið 67 ár, þá er það vitanlega engin heilög tala, sem ekki getur verið rétt að endurskoða og breyta, og jafnvei tel ég koma fullkomlega til greina að gera þar nokkurn mismun á eftir því, hvaða starf menn vinna í þjóðfélaginu, þ.e. að það sé ekki endilega rétt að allir sitji þar nákvæmlega við sama borð. ég bendi t.d. á það, að víða erlendis eru þeir menn, sem vinna hættuleg og erfið störf og sérstaklega slitandi fyrir líkama eða sál, settir á eftirlaun fyrr en aðrir. Þannig er þetta víða um lönd, t.d. um námumenn, sem vinna einhver erfiðustu og áhættusömustu störf, sem um er að ræða, og ef ég hef ekki misskilið mjög þetta mál, þá er það staðreynd, að okkar nágrannaþjóð Færeyingar hafa þegar komið því inn í sín tryggingalög, að s ómenn fái eftirlaun og ellilífeyri frá þessum aldri. Ég held, að það sé alveg fullkomlega kominn tími til þess og í alla staði frambærilegt, að það sé gerð undantekning á þessu ákvæði og sjómönnunum, sem vinna áhættusömustu störfin í okkar þjóðfélagi og jafnframt þau þýðingarmestu fyrir okkar grundvallaratvinnuveg um alla okkar afkomu, sé sýnd einhver viðurkenning í sambandi við tryggingamálin. Ég held, að sjómaður, sem fer í land um 60 ára aldur og hefur þraukað á sjónum í 35–40 ár, eigi ekki mikið eftir af starfsþreki sínu og möguleikar hans á almennum vinnumarkaði séu ekki miklir og það sé full ástæða til þess að líta til þess. Röksemdir um síðari hluta till. gegna auðvitað dálítið öðru máli, þ.e.a.s. um ekkjur, en við leggjum til, að þær njóti einnig þessara bóta, en það verður að gera ráð fyrir því og er raunar auðsætt, að kona, sem orðin er ekkja um sextugt, á ekki ýkja margra kosta völ og það sé þess vegna fullkomlega réttlætanlegt, að sé vikið frá reglunum um 67 ára aldur, nái það einnig til þeirra. Ég álít þá, að þessi till. hafi verið skýrð og menn geri sér fullkomlega grein fyrir því, hvað þar er um að ræða.

Ég hef svo ekki ýkja miklu að bæta við það, sem hv. frsm. minni hl., hv. 1. þm. Vesturl., sagði hér um okkar till. Hann gerði það á mjög greinargóðan hátt, og ekki er ástæða til að fjölyrða um það, en ég vildi þó aðeins árétta eitt eða tvö atriði í sambandi við okkar till. og þá alveg sérstaklega beina athygli hv. þm. að b-lið 6. till. okkar á þskj. 694, þar sem það er tekið fram, að njóti elli- eða örorkulífeyrisþegi bóta samkvæmt lögunum um eftirlaun til aldraðra í stéttarfélögum, þá skuli laun hans ekki skerða rétt hans til framangreindrar hækkunar, þ.e. til hækkunarinnar í 84 þús. kr. samkv. frv., en til hækkunar í 125 þús. kr., ef farið væri að till. okkar í minni hl.

Ég held, að það sé alveg nauðsynlegt, þegar menn leggja mat á þessa till., að gera sér grein fyrir því, hvernig þessi lög eru til komin, að þau voru þáttur í lausn kjaradeilu og þetta mál var þá tekið upp, vegna þess að samtök atvinnurekenda höfðu þá skömmu áður, þ.e. á árinu 1967, bundizt samtökum um það að segja upp öllum mönnum, sem væru orðnir sjötugir, og óskabarn þjóðarinnar, eins og Eimskipafélag Íslands hefur stundum verið nefnt, reið á vaðið með því að hreinsa alla gömlu mennina úr vinnu við höfnina. Þetta var gert sem eins konar hefndarráðstöfun á okkur í verkalýðssamtökunum fyrir afskipti okkar af verðlagsmálum. Og þessi forsaga er talsvert kunn. Við reyndum síðan í samningsgerð á næsta ári að fá nokkra leiðréttingu fyrir þessa menn, og útkoman var sú, að því var heitið af hæstv. ríkisstj. að setja löggjöf um það, sem tryggði þessum mönnum, sem hætt höfðu störfum í árslok 1967 og voru orðnir 70 ára, nokkurn aukaellilífeyri eða eftirlaun. Þau hafa að vísu verið mjög smávægileg og verið er að gera nokkra bragarbót í samkomulagi við vinnuveitendur og verkalýðssamtökin, en þau eru engu að síður smávægileg. Lágmarksbæturnar munu verða núna með þeirri breytingu, sem gert er ráð fyrir í stjfrv., sem hér var nýlega lagt fram og nú er búið að afgreiða hér í hv. d., líklega um 1100 kr. á mánuði eða um 13 þús. kr. á ári, en gætu í hæstu tilvikum farið upp í nálægt 70 þús. kr., en að meðaltali mundi það ekki vera fjarri, að þessi eftirlaun næmu kringum 2 þús. kr. á mánuði. Ég tel, að forsaga málsins sé þannig, að hér hafi verið samið um alveg sérstaka greiðslu til þessa fólks, óháða öllum öðrum greiðslum bæði tryggingarlegs eðlis og kauplagslegs eðlis, og það séu því raunveruleg svik við þá samningsgerð, sem um þetta var gerð, ef það á nú að fara að innlima þetta í tryggingakerfið og taka þetta fé traustataki til þess að spara almannatryggingunum greiðslur til þessara alþýðumanna. Það hefur verið frá upphafi gert ráð fyrir því, að þeir fengju þetta til viðbótar sínum ellilífeyri frá Tryggingastofnuninni, og við það ber að halda sig. Mér finnst það algerlega ósæmandi, að farið sé að seilast eftir þessu fé til þess að spara eilitlar upphæðir, segi ég, frá almannatryggingunum og það komi ekki annað til mála en fella það úr frv., að þessar bætur komi til frádráttar því lífeyrishámarki, sem lögin heimila.

Ég vil svo einnig vekja sérstaka athygli á 8. till. okkar við 34. gr., en hún er þess efnis, að hafi örorkubætur verið greiddar í eitt skipti fyrir öll samkvæmt heimild í þessari grein, þá eigi hlutaðeigandi rétt á verðbótum á slíkum greiðslum á 10 ára fresti, og skal verðbótin vera í réttu hlutfalli við breytingar á upphæð örorkubóta síðustu 10 árin. Það er, held ég, hverjum manni auðskilið, að hafi maður orðið fyrir örorkutapi eða örkumlum allt að 50% og hafi fengið fyrir það, við skulum segja fyrir 10–20 árum, bætur, sem gætu þá verið kannske einhvers staðar á milli 10–20–30 þús. kr. í eitt skipti fyrir öll, en hann gengur vanheill til skógar allt lífið. Þá er þessi greiðsla næsta lítils virði, og þarna er sem sé um það að ræða, að hann hefur fengið lítinn pening, sem þá kannske hafði eitthvert ofurlítið gildi, en verður síðan að bera sína örorku alla sína ævi, og það er auðvitað algerlega óeðlilegt og í ósamræmi við allan anda laganna, að maðurinn fái ekki á þessu einhverjar bætur miðað við það verðbólguþjóðfélag, sem við lífum í. Hvers virði er það fyrir slíkan mann, sem hefur kannske skerta starfsorku um nærri 50%, þó að hann hafi fengið fyrir það bætur fyrir 20 árum, — við skulum segja — upp á 10 þús. kr.? Það bætir ekki hag hans í dag. Og hins vegar mundi maður, sem í dag yrði fyrir slíku áfalli og fengi bæturnar í eitt skipti fyrir öll, fá miklu hærri upphæð, þannig að þarna er greinilega verið að mismuna mönnum eftir því, á hvaða tímabili þeir hafa orðið fyrir áfalli, og ég tel, að það beri siðferðilega skyldu til að bæta úr þessu.

Ég geri ráð fyrir því, að þetta kosti peninga eins og annað, en ég er hins vegar sannfærður um það, að í sambandi við þann sparnað, sem verður af því að seilast eftir eftirlaunum aldraðra í stéttarfélögum, er ekki um neinar þær upphæðir að ræða, sem Tryggingastofnuninni getur riðið miklu á. Eins og ég sagði áðan, þá nær andstaða hv. meiri hl. n. ekki aðeins til þeirra atriða, sem skipta verulegu fjárhagslegu máli og geta þess vegna alls ekki verið við eina röksemd þeirra, og þar er alveg sérstaklega um að ræða síðustu till. okkar á þskj. 694, sem ég hef reyndar ekki trúað annað en hljóti samþykkt í hv. d., þegar meiri hl. hefur athugað sitt mál betur. Eins og ég sagði, þá ætla ég ekki að lengja hér mikið umr., en aðeins gera skil þessari till., sem við fluttum þarna á þessu þskj., og tel mig hafa gert það og Íæt máli mínu lokið.