31.03.1971
Neðri deild: 79. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1541 í B-deild Alþingistíðinda. (1597)

281. mál, almannatryggingar

Sjútvrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér er til umr., hefur verið afgreitt frá hæstv. Ed. og verið rætt allítarlega á opinberum vettvangi, þannig að ég get mjög stytt mál mitt hér í þessari hv. þd. í þessari framsöguræðu minni um málið. Það er nú þegar kunnugt alþm. öllum og öllum þeim landsmönnum, sem vilja kynna sér þessi mál og hafa átt þess kost að lesa um þau, þó með nokkuð mismunandi hætti væri, í hinum einstöku dagblöðum landsins, auk þess, sem frv. fylgir mjög ítarleg grg., og hv. þm. hefur gefizt kostur á að athuga hana. Afgreiðsla málsins í Ed. var með þeim hætti, að allir, sem til máls tóku um frv., töldu það til bóta, þó að brtt., sem fram voru bornar, miðuðu allar í þá átt, sem okkur sjálfsagt fyndist öllum æskilegt, að almannatryggingar verði hærri og meiri en þær eru í dag og jafnvel meiri en frv. gerir ráð fyrir, þó að menn séu sammála um, að frv. í heild sé til bóta frá því, sem nú er. Aðalbreytingin, sem gerð var í hv. Ed., var sú auk leiðréttinga, sem augljósar voru og nauðsynlegt var að gera, að frv. gerði upphaflega ráð fyrir allverulega mikilli fækkun á sjúkrasamlögum og stærri einingum í því efni en er í dag, og ég mun koma að því ítarlega hér á eftir, hver rökstuðningur var fyrir því.

Ég mun því reyna að halda mig við það hér í þessu máli mínu að segja frá upphali þeirra athugana, sem frv. þetta er afleiðing af, og tína fram þau atriði, sem breytt er frá núgildandi lögum um þessi efni. Hinn 28. mal 1970 skipaði heilbr.- og trmrh. nefnd til þess að gera heildarendurskoðun, og var nefndinni falið að hafa samráð og samstarf við einstaklinga og félagasamtök, sem hér eiga hlut að máli. Skyldi nefndin skila áliti svo fljótt sem unnt væri og eigi síðar en svo, að hægt yrði að leggja niðurstöður hennar fram á næsta reglulega Alþ. þar á eftir, eins og hér er nú gert. Í nefndina voru skipaðir í byrjun eftirtaldir menn: Björgvin Guðmundsson, deildarstjóri, Guðjón Hansen, tryggingafræðingur, Ólafur Björnsson, prófessor, Sigurður Ingimundarson, forstjóri, og Hjálmar Vilhjálmsson, ráðuneytisstjóri, sem þá gegndi ásamt sínu starfi í félmrn. ráðuneytisstjórastarfi í heilbr.- og trmrn. í Reykjavík. Hinn 1. sept. 1970 skömmu eftir að Páll Sigurðsson, ráðuneytisstjóri, hafði tekið við ráðuneytisstjóraembætti, tók hann einnig sæti í nefndinni. Á starfstíma nefndarinnar hafa ýmis félagasamtök haft samband við nefndina um einstaka liði frv. svo sem Félag einstæðra foreldra, Sjálfsbjörg, Landssamband fatlaðra, Félagssamtökin Vernd, Samband ísl. sveitarfélaga, bæjarfógetinn á Akureyri og sýslumaðurinn í Eyjafjarðarsýslu, sýslumaðurinn í Húnavatnssýslu og Hallgrímur Vilhjálmsson, starfandi forstjóri við tryggingaumboð bæjarfógetans á Akureyri, Kvenréttindafélag Íslands, Vinnuveitendasamband Íslands og fulltrúar frá Læknafélagi Íslands. Gunnar Möller, forstjóri Sjúkrasamlags Reykjavíkur, var hafður með í ráðum um endurskoðun slysatryggingakaflans sérstaklega, og nefndin fékk einnig álitsgerð þeirra Árna Guðjónssonar, Eyjólfs Jónssonar og Guðjóns B. Baldurssonar varðandi úrskurð ríkisskattanefndar frá 11. mal 1970 um álagningu tryggingagjalda á árinu 1967, og nefndin aflaði sér sjálf álitsgerðar cand. juris Þórðar Eyjólfssonar, fyrrv. hæstaréttardómara, um, hvernig ráðstafa skyldi eignum og skuldum þeirra sjúkrasamlaga, sem lögð kynnu að verða niður samkvæmt frv., og er sú álitsgerð sérprentuð með frv. sem fskj. nr. II.

Áður en raktar verða þær breytingar, sem gerðar hafa verið á einstökum gr. eftir köflum, þá verður hér stuttlega skýrt frá meginheildarbreytingum, sem gerðar hafa verið:

1. Frv. gerir ráð fyrir, að allar bætur almannatrygginga hækki um 20% frá því, sem nú er. Þó er gert ráð fyrir, að barnalífeyrir verði hækkaður um 40% og fæðingarstyrkur um rúmlega 13%, en ekki er gert ráð fyrir hækkun fjölskyldubóta.

2. Lágmark elli- og örorkulífeyris er áætlað samkvæmt frv. 70 560 kr., en þó er gert ráð fyrir því, að ávallt komi til uppbót á þennan lífeyri, ef viðkomandi lífeyrisþegi er tekjulaus, og nemi sú hækkun þeirri upphæð, að lágmarksheildartekjur lífeyrisþegans verði ekki undir 84 þús. kr. á ári. Lífeyrisupphæð til hjóna verður með sama hætti ekki lægri en 151 200 kr.

3. Lagt er til, að barnalífeyrisaldur verði hækkaður úr 16 árum í 17 ár og barnalífeyrir verði greiddur með barni látinnar móður, hvort sem hún var gift eða ógift og án tillits til efnahags eða annarra ástæðna.

4. Gert er ráð fyrir, að ekkjubætur verði greiddar í 6 mánuði í stað þriggja, ef ekkja er barnlaus, og í 12 mánuði til viðbótar í stað 9 nú, ef hún hefur fyrir barni eða börnum að sjá.

6. Samkvæmt gildandi lögum er aðalreglan sú, að bótaréttur samkvæmt ákvæðum almannatryggingalaganna í lífeyristryggingu sé bundinn við íslenzkan ríkisborgararétt. Þá er lagt til í frv., að fallið verði frá þessari kröfu, en þess í stað verði bótaréttur bundinn við lögheimili á Íslandi, en ellilífeyrir verði samt greiddur, þótt bótaþegi sé búsettur erlendis. Á móti þessu er gert ráð fyrir, að fjárhæð lífeyris skuli vera í hlutfalli við dvalartíma á Íslandi á gjaldskyldualdrinum. Lágmarksdvalartími til að fá réttindi er þrjú ár, þannig að full réttindi fást eftir 40 ára dvöl. Þannig veitir skemmri dvalartími en þrjú ár engin réttindi til greiðslu, en 20 ára réttindatímabil veitir réttindi til hálfs lífeyris. Þessar breytingar eru gerðar til samræmis við réttindi þeirra þjóða, sem Íslendingar hafa mest samskipti við, og munu þær auðvelda Íslendingum samskipti við þessar sömu þjóðir í tryggingamálum.

7. Veitt er heimild til veitingar örorkustyrks, sem rýmkaður er mjög frá því, sem nú er í lögum. Gert er ráð fyrir, að veita megi styrki vegna sérstaks aukakostnaðar, sem rekja má til örorku, enda þótt viðkomandi hafi eðlileg og venjuleg laun, og enn fremur, að styrki megi veita vegna bæklunar eða vanþroska barna innan 16 ára aldurs, ef um er að ræða mikil útgjöld foreldra vegna umönnunar og annars. Hér er um að ræða gerbreytingu frá því, sem er í núgildandi lögum, þar sem hvergi hefur verið hægt að liðsinna foreldrum vegna þessara barna, en eins og kunnugt er, þá eru auk þeirrar fyrirhafnar, sem foreldrar hafa vegna barnanna, oft veruleg fjárútlát, sem af þeim stafa.

8. Varðandi þá breytingu, sem gerð var á frv. í Ed., voru forsendur þeirrar lagagreinar, þ.e. um að leggja niður eða fækka sjúkrasamlögum, sem um ræðir í, að mig minnir, 37. gr. í upphaflega frv., þær, að reynslan af hreppasamlögum sem tryggingareiningum er löngu orðin sú, að þau séu of lítil tryggingareining. Með breytingu á almannatryggingalögum nr. 83 frá 1967 var lagt til að fela sjúkratryggingar sjúkrasamlaganna héraðssamlögum, en auðsætt er, að stíga verður skrefið til fulls, ef vel á að vera, og gera ráð fyrir hinum stærri tryggingareiningum, eins og í upphaflega frv. var lagt til – og vafasamt er, hvort ekki verður nauðsynlegt að gera ráð fyrir samruna sjúkrasamlaganna í framtíðinni. Það er t.d. talið algerlega ofviða minni sjúkrasamlögum að kosta sjúklinga hingað til Reykjavíkur með hliðsjón af þeim kostnaði, sem fylgir því nú.

9. Skömmu áður en fyrrgreind breyting var gerð á almannatryggingalögunum, þ.e. árið 1967, sem m.a. fól í sér, að meginhluti af ríkisframfærslu sjúkra og örkumla var lagður undir sjúkratryggingadeild Tryggingastofnunar ríkisins, höfðu verið samþ. lög um fávitastofnanir nr. 53 frá 1967, og var gert ráð fyrir því, að fávitaframfærsla væri áfram ríkisframfærsla og sveitarfélaga. Í þessu lagafrv. er gert ráð fyrir að afnema að fullu ríkisframfærslu fávita, en dvöl þeirra í heilbrigðisstofnunum verði kostuð af sjúkratryggingum eins og önnur sjúkrahúsvist og þá af sjúkratryggingadeild Tryggingastofnunarinnar.

10. Gert er ráð fyrir, að greiðsluskylda sjúkratryggingadeildar Tryggingastofnunar ríkisins verði enn aukin, hvað snertir vistun sjúklinga á erlendum sjúkrahúsum — allt undir sama eftirliti og gert er ráð fyrir í núgildandi lögum, en með þeirri breytingu, sem hér er lögð til, er gert ráð fyrir, að einnig verði greiddur kostnaður við dvöl, lyf og læknishjálp, sem er nauðsynleg erlendis að lokinni sjúkrahúsvist.

11. Einnig er gert ráð fyrir, að heimilt verði að leggja á sjúkratryggingadeild kostnað, sem verulegur verður vegna veikinda eða slysa utan sjúkrasamlagssvæða, sem viðkomandi sjúkrasamlag er ekki skyldugt til að greiða, og er m.a. hafður í huga kostnaður, sem fólk, sem er á ferðalögum eða í styttri dvöl erlendis, verður fyrir, þar sem það er ekki sjúkratryggt.

12. Samkvæmt gildandi lögum fellur niður lífeyrir bótaþega, ef hann dvelst lengur en einn mánuð á stofnun, þar sem sjúkratryggingar greiða fyrir hann. Í lagafrv. er gert ráð fyrir, að lífeyrir falli niður, þegar vist hefur verið lengri en fjórir mánuðir á s.l. 24 mánuðum.

13. Allmiklar endurbætur eru gerðar á slysatryggingakafla laganna. Þannig er í núgildandi lögum ekki gert ráð fyrir, að slysatryggingar geti tekið til almennra heimilisstarfa, en í frv. er gert ráð fyrir, að heimild verði til að tryggja slík störf, ef þess er óskað. Á sama hátt eru greiðslur slysatrygginga vegna ýmiss konar aukakostnaðar vegna slysa svo sem ferðakostnaðar verulega auknar og fjölmörg ákvæði í sambandi við slysabætur gerð ítarlegrí og skýrari en nú er.

Í núgildandi lögum er gert ráð fyrir, að bótaréttur falli niður, ef ástand það, sem bótaréttur er byggður á, stafar af ofdrykkju eða deyfilyfjaneyzlu. Lagt er til, að fallið verði frá þessu sviptingarákvæði, enda gert ráð fyrir því, að hlutaðeigandi fari þá að fullu að læknisráðum og sinni fyrirmælum um þátttöku í þeirri starfsþjálfun og meðferð, sem stuðlað gæti að bættri afkomu hans og búið hann undir nýtt starf að breyttum lífsháttum sínum.

Tryggingastofnun ríkisins hefur gert að tilhlutan nefndarinnar áætlanir um hækkanir þær, sem leiða muni af fyrirhuguðum lagabreytingum, á útgjöld lífeyristrygginga, og er þessi áætlun stofnunarinnar þannig: 1. 20% hækkun lífeyristrygginga annarra en fjölskyldubóta, fæðingarstyrkja og barnalífeyris mun kosta um 290 millj. kr. 2. Hækkun fæðingarstyrks úr 13 þús. kr. í 14 700 kr., og er þá miðað við legukostnað á Landsspítalanum, mun kosta 6.5 millj. kr. 3. Barnalífeyrir, sem er 40% hækkun frá gildandi ákvæðum, mun kosta 24 millj. kr., vegna fráfalls móður samkv. 14. gr. frv., 9 millj. kr., vegna aldurshækkunar til 17 ára aldurs úr 16 ára, sbr. 14. gr. frv., 20 millj. kr. 4. Bótahækkun til ekkna samkv. 17. og 18. gr. mun kosta 4.5 millj. kr. 5. Breyting á ekkjulífeyri samkv. 18. gr. mun kosta 15 millj. kr. 6. Lágmarkstrygging elli- og örorkulífeyrisþega mun kosta 85 millj. kr., en rétt er að undirstrika það, að hér er um mjög mikinn áætlunarlið að ræða og erfitt að sjá, hvað hann raunverulega verður af ýmsum ástæðum, sem óþarft er hér upp að telja, og þá sérstaklega, hvað margt fólk kynni undir þennan lið að koma. Aðrir liðir munu kosta 46 millj. kr. Alls eru því þessar hækkanir, sem frv. gerir ráð fyrir, nálægt 500 millj. kr. Niðurfelling almannatryggingagjalds fyrir 16 ára aldursflokkinn nemur með núgildandi iðgjöldum 25.5 millj. kr. — tekjurýrnun, sem innheimta verður með hækkuðum iðgjöldum þeirra, sem eru á aldrinum 17–67 ára.

Ég tel, herra forseti, að á þessu stigi málsins sé ekki þörf á að útskýra frv. frekar eins og það liggur fyrir, og mun þá koma að þeim skýringum, sem talið er nauðsynlegt, að fram fari við síðari umr. málsins.

Ég legg til, herra forseti, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og félmn.