05.04.1971
Neðri deild: 87. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1590 í B-deild Alþingistíðinda. (1608)

281. mál, almannatryggingar

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja tvær brtt. við frv. til laga um almannatryggingar. Fyrri brtt. er við 43. gr. um það að f-liður þeirrar greinar orðist svo: Dvöl vegna fæðingar í sjúkrahúsi og fæðingarstofnun. Þetta þýðir, að kostnaður af sjúkrahúsdvöl fæðandi konu verði greiddur af tryggingunum. En eins og l. eru nú, er sjúkrahúskostnaður vegna barnsburðar undanþeginn tryggingunum, en hins vegar greiddur fæðingarstyrkur, sem verið er að rokka með fram og aftur, eftir því sem daggjaldakostnaður á sjúkrahúsum segir til, og verður því oft og tíðum veruleg rekistefna út af því við sængurkonurnar, hvort þær hafi látið í té og útvegað nægar tryggingar eða geti snarað út greiðslu fyrir þeim mismun, sem á ýmsum tímum er á fæðingarstyrknum og kostnaði við sjúkrahúsdvöl á sjúkrahúsi eða annarri fæðingarstofnun. Þetta tel ég óhafandi, hvort sem það er almennt litið svo á, að sjúkrahúskostnaður sé greiddur af tryggingunum. Mér finnst það alveg furðulegt, að við hverja endurskoðunina á fætur annarri skuli þetta ekki vera leiðrétt, þannig að kona, sem er að fæða þjóðfélaginu nýjan þegn, fái vegna sjúkrahúsvistar, sem er að læknisráði, greiddan þann kostnað úr tryggingunum eins og vegna annars sjúkrahúskostnaðar. Það er víst, að þetta væri veruleg réttarbót ekki sízt fyrir konur utan af landi, sem auk þess að standa þarna í alls konar útréttingum til þess að tryggja sér sjúkrahúsvistina, vegna þess að tryggingarnar greiða ekki þessa tegund sjúkrahúsvistar, verða auk þess að greiða geysilega mikinn ferðakostnað frá sínu heimili og oft og tíðum til baka aftur og eiga þess vegna oft í miklum fjárhagserfiðleikum í sambandi við þetta. Mér finnst þetta vera svo augljós og sjálfsögð leiðrétting á íslenzka tryggingakerfinu, að ég læt í ljós mikla undrun yfir því, að endurskoðun skuli ekki hafa tekið þessa leiðréttingu með.

Þá er seinni till. mín. Hún er við 80. gr. Ég hef séð, að minni hl. hv. heilbr.- og félmn. hefur borið fram brtt. um gildistöku laganna, þannig að öryrkjar og aðrir bótaþegar trygginganna þurfa ekki að bíða fram í ársbyrjun 1972 eftir því, að tryggingabætur hækki nokkuð, heldur er lagt til, að l. öðlist gildi 1. júlí n.k.; það væri þó nokkur miðlun. En samt sem áður, þó að sú till. fengist samþ., sem sjálfsagt er nú ekki að heilsa, þá tel ég, að ellilífeyrir og örorkubætur eigi að fá sína hækkun þegar í stað, þegar lög þessi öðlast gildi. Ég legg því til, að ákvæði laganna um ellilífeyri og örorkubætur komi til framkvæmda þegar í stað þó svo, að I. að öðru leyti taki ekki gildi fyrr en 1. júlí. Þetta teldi ég nokkra bragarbót á því hneykslanlega tiltæki að láta ekki þessa löggjöf taka gildi fyrr en um næstu áramót, og teldi ég þó það eitt vera fullsæmandi, að lögin tækju þegar gildi. Ég held, að það þurfi ekki frekari skýringa við vegna þessara tveggja till. minna og læt því máli mínu lokið.