15.12.1970
Neðri deild: 33. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1600 í B-deild Alþingistíðinda. (1634)

10. mál, Landsvirkjun

Forsrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Ég skal freista þess að verða ekki mjög langorður í minni ræðu, þegar ég nú fylgi þessu frv. hér úr blaði, frv. til l. um breyt. á l. um Landsvirkjun frá 1965, með síðari breytingum 1969, — þó að hér sé hins vegar um stórmál að ræða. Frv. hefur haft sinn framgang í Ed. og mér er ekki kunnugt um, að þar hafi í sjálfu sér verið neinn ágreiningur um málið. Þess var reyndar óskað í lok síðasta þings við rn. af hálfu Landsvirkjunar; að lagt yrði fyrir frv. það, sem hér er um að ræða, en ég taldi nú æskilegra og eðlilegra að bíða þá, þar sem var komið að þinglokum og rn. gæfist líka tækifæri til að athuga málið nánar á milli þinga. En í stórum dráttum er hér um að ræða það að auka heimildir Landsvirkjunar fram yfir þá heimild, sem hún hefur til að reisa 210 MW raforkuver í Þjórsá við Búrfell ásamt aðalorkuveitum, þ.e. hún hafi þá heimild til þess að reisa allt að 170 MW raforkuver við Hrauneyjafoss ásamt aðalorkuveitum og einnig við Sigöldu í Tungnaá af sömu stærð. Hér er þá um verulega stórar framkvæmdir að ræða á okkar mælikvarða, enda kemur það fram í aths. við frv., að framleiðslugeta vatnsaflsstöðva Landsvirkjunar í Sogi og í Þjórsá við Búrfell verður rúm 3 þús. MW, þegar Búrfellsvirkjunin er fullgerð að upphaflegu marki árið 1972. Hins vegar er á það bent, að slíkar stórvirkjanir sem þessar taki allverulegan undirbúning og því sé ekki ráð nema í tíma sé tekið að hefja undirbúning að framhaldi þessara virkjunarframkvæmda, og hefur Landsvirkjun og hennar sérfræðingar þar af leiðandi unnið að því og undirbúið þetta mál með þeim hætti, sem nánar er um rætt í grg.

Hér er ekki endilega ákvörðun um það tekin, í hvora af þessum tveimur virkjunum mundi fyrr verða ráðizt. Það verður til nánari ákvörðunar, eftir því sem henta þykir betur, þegar þar að kemur. Eins má segja, að það sé líka óráðið, með hve miklum framkvæmdahraða þessar framkvæmdir komi til með að eiga sér stað. Hér er um það mikla orku að ræða, að komi ekki til verulega meiri not fyrir raforku, t. d. í sambandi við einhvers konar tegund stórvirkjunar eða tengingu landshluta, gæti það leitt til þess, að þessar framkvæmdir tækju lengri tíma, en hins vegar eru þær báðar í undirbúningi samtímis og hægt eftir atvikum að ráðast í þær, ef aðstæður leyfa. Það má segja líka, að það sé næsta mikils virði fyrir okkur að hafa nokkuð nákvæmar áætlanir um það fram í tímann okkar sjálfra vegna, hvaða orkumöguleika við höfum og við hvaða verði nokkurn veginn og einnig í sambandi við hugsanlegar viðræður okkar um frekari stóriðju hér á landi, hvort sem það yrðu nú auknar álbræðslur eða annar efnaiðnaður, sem ekkert liggur fyrir um í dag. Það er að vísu kunnugt um, að n. vinnur að athugun möguleika á stóriðju fyrir norðan í formi álbræðslu, og geri ég ráð fyrir, að sú n. geti skilað áliti síðar í vetur, en hins vegar er útilokað að segja á þessu stigi nokkuð frekar um það, hvort raunhæf framkvæmd yrði þar á næstunni eða það mál tæki lengri tíma og ýtarlegri athugun.

Að öðru leyti eru ákvæðin um þessar virkjanir svipaðar og í öðrum virkjanaheimildarlögum, eins og t.d. það í 4. gr., að það skuli fella niður aðflutningsgjöld og söluskatt af efni, tækjum og vélum til virkjananna, en sama gilti um Búrfellsvirkjun og einnig skuli hið sama gilda um eldsneytisaflstöðvar Landsvirkjunar. Síðan eru ákvæði 5. gr. um að heimila ríkisstj. að ábyrgjast með sjálfskuldarábyrgð lán, er Landsvirkjun tekur til Búrfellsvirkjunar og virkjana í Tungnaá ásamt tilheyrandi ráðstöfunum, sbr. 6. gr., að fjárhæð allt að 5900 millj. kr. eða 67 millj. Bandaríkjadollara eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í annarri erlendri mynt, en það er gerð grein fyrir því í aths. um 5. gr. frv., að til þess að greiða fyrir fjáröflun innanlands eða utan er ríkisstj. heimilað að ábyrgjast lán, er Landsvirkjun tekur þeirra vegna að fjárhæð allt að 5900 millj. kr. eða taka lán hennar vegna allt að sömu fjárhæð og endurlána það Landsvirkjun. Er hér um að ræða hækkun á fjárhæð heimildarinnar í landsvirkjunarlögunum um 2772 millj. kr., en mismunurinn, 3128 millj. kr. heimild hefur þegar verið notuð að fullu vegna Búrfellsvirkjunar.

Þó að það sé því miður ekki vel farið, að þetta frv. hafi verið svo lengi í meðförum hjá Ed. eins og raun ber vitni, þá held ég, að mér sé óhætt að fullyrða, að það hafi þar ekki verið neinn ágreiningur og þess vegna hefði ég viljað leggja áherzlu á það við þessa hv. d., að frv. mætti ná fram að ganga, ef það er á sama hátt ágreiningslaust hér og í hv. Ed., áður en þing fer í jólaleyfi. Það er að vísu svo, að við höfum þegar afgreitt ríkisábyrgðarheimild, sem nauðsynleg var, — það var staðfesting á brbl. vegna fjáröflunar í sambandi við miðlunarvirkjanir hjá Þórisvatni, — en engu að síður teldi ég það mjög æskilegt og ákjósanlegt, að við gætum lokið þessu máli. Ég hef lagt á það áherzlu við hv. Ed., sem fékk Lagarfossvirkjunina til meðferðar nú fyrst í dag eða áðan, að afgreiða það frv., ef verða mætti fyrir jól, og þess vegna beini ég nú sömu tilmælum til hv. Nd. og þeirrar n., sem fær málið til meðferðar.

Ég skal svo hins vegar ekki tefja tímann með því að fara nánar út í þá útreikninga og aths., sem fylgja hér frá Landsvirkjun með þessu frv. Ég þykist vita, að hv. þm. séu því þegar að meira og minna leyti kunnugir, enda var frv. lagt fram þegar á öndverðu þingi og hafa menn eflaust kynnt sér það, en n. ætti að sjálfsögðu að hafa greiðan aðgang að frekari upplýsingum, ef hún teldi þurfa við skjóta afgreiðslu málsins.

Ég vil svo leyfa mér að leggja til, herra forseti, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. iðnn.