23.03.1971
Neðri deild: 67. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1616 í B-deild Alþingistíðinda. (1643)

10. mál, Landsvirkjun

Frsm. minni hl. (Gísli Guðmundsson):

Herra forseti. Ég get tekið undir ýmislegt af því, sem hv. 6. þm. Reykv. sagði í ræðu sinni hér áðan, enda féll sumt af því nokkuð saman við það, sem ég hafði áður sagt í framsöguræðu minni fyrir minni hl. n. Ég álít, að það sé í raun og veru fráleitt eða a.m.k. mjög gallað að samþykkja hér á Alþ. heimildir til slíkra stórvirkjana, sem eru stærri en allar aðrar virkjanir landsins til samans, þegar búið er að ljúka við Búrfellsvirkjunina, að veita heimild til þess að ráðast í slíkar stórvirkjanir, án þess að nokkuð liggi fyrir um það, til hvers á að nota þessa miklu orku, nema aðeins vitneskja um þá 4% aukningu á orkunni til almennra nota, sem verið hefur hér á Suðvesturlandi síðustu tvö árin, sem eins og ég sagði áðan, er ekki nema litið brot af þeirri miklu orku, sem hér er gert ráð fyrir að framleiða. Og ég get þá jafnframt einnig endurtekið það, sem ég sagði áðan, að ég álít, og um það erum við hv. 6. þm. Reykv. og ég sammála, að það, sem eigi að byrja á í því sambandi, sé að athuga möguleikana á því að nota raforku til hitunar. Hann nefndi hér nokkrar tölur um upphitunarþörfina hér á landi og skal ég játa, að ég er nú ekki svo vel að mér, að ég geti um það dæmt, hvort þær eru réttar. Ég geri ráð fyrir, að hann hafi það eftir fagmönnum, en víst er það, að það er ákaflega mikill hluti af heimilunum í landinu, sem ekki hefur upphitun frá hitaveitu, en notar í þess stað annað eldsneyti og þá mestmegnis olíu. Hitt er svo auðvitað rétt og verður að hafa í huga, að það geta verið ýmsir örðugleikar á því að breyta til á stuttum tíma, þannig að tekin verði upp raforka til hitunar í stað olíunnar og þá m.a. vegna þess, að fyrir eru kyndingartæki í húsunum, en fleira kemur til. Þarna er rannsóknarefni. En mér þykir það sennilegt, að niðurstaða þeirrar rannsóknar yrði sú, að við gætum a.m.k. fengið mjög mikinn markað fyrir raforku til húsahitunar. Sá markaður yrði náttúrlega allmikill hér á Suðurlandi austanfjalls og á Suðvesturlandi, kannske ekki mikill á höfuðborgarsvæðinu eða á Reykjanesi vegna þeirra hitaveitumöguleika, sem þar eru. En möguleikar væru einnig mjög miklir á Norðurlandi, Austurlandi og Vesturlandi. Og m.a. af þeim ástæðum er rík ástæða til þess, að raforkan sé ekki bundin við Suðurland og auðvitað æskilegast, ef unnt reynist, að byggð séu raforkuver bæði norðan lands og sunnan og tengd saman með línu yfir hálendið, ef það reynist framkvæmanlegt, sem margir fróðir menn fullyrða að sé, þannig að það sé hægt að veita orkunni eftir þörfum á milli landshlutanna.

Það var eitt, sem hv. þm. sagði, sem ég vil nefna og gera aths. við. Hann sagði eitthvað á þá leið, að hann skorti nú þekkingu til þess að dæma um það, hvort till. okkar á þskj. 323, hinar víðtæku till., sem þar eru umfram það, sem er á þskj. 285, hvort þær væru réttmætar í öllum atriðum. Það er nú svona, að okkur þm. er ætlað að hafa þekkingu á öllum hlutum, þannig að ég veit ekki, hvort þessi viðbára er nú alveg góð og gild. Almenningi í landinu, ólöglærðum almenningi er ætlað að vita, hvað eru lög í landinu, sem er þá sannarlega nokkuð erfitt. Ólöglærðum almenningi er ætlað að vita, hvað eru lög í landinu, eftir því sem lögspakir menn segja. En margt af þessu, sem við fjöllum um hér í brtt. á þskj. 323, er nokkuð auðskilið. En hv. þm. lét orð falla um það, að það væri að öllum líkindum ekki þörf fyrir á þessu stigi að gera svona breytingar og býst ég við, að hann eigi þar við breytingarnar, sem felast í 4. tölul. um að endurskoða gildandi löggjöf um framleiðslu og dreifingu raforku og um þá kvöð á Landsvirkjun að leggja línu þvert yfir landið. Ég vil aftur á móti segja: Nú er rétti tíminn til að gera þetta, ef á að gera það á annað borð. Það er rétti tíminn nú, þegar verið er að veita Landsvirkjun miklar heimildir, að ætlast til þess af henni, að hún annist þessa samtengingu, ef framkvæmanleg reynist, yfir landið, og nú er réttur tími til þess, að Alþ. lýsi því yfir um leið og verið er að gera Landsvirkjun að þvílíku risafyrirtæki, sem hér stendur til, að það sé stefna Alþ. að endurskoða gildandi löggjöf um framleiðslu og dreifingu á raforku og þá m.a. og ekki sízt l. um Landsvirkjun, sem að mínum dómi er ekki eðlilega uppbyggð landsvirkjun, og jafnframt láta fram koma stefnuyfirlýsingu um jafnt raforkuverð í landinu, þannig að mönnum verði ekki mismunað eftir búsetu. Það er rétti tíminn til þess að láta þetta koma fram einmitt nú, þegar verið er að veita Landsvirkjun slíkar heimildir og gera hana að slíku risafyrirtæki, sem hún verður eða getur orðið, ef þessar heimildir verða að l. Það getur orðið erfiðara síðar, því að það er ekki alveg einfalt mál að breyta þessum hlutum og því seinna, sem í þá er lagt, því erfiðara.

Þetta vildi ég láta koma fram, en að öðru leyti stóð ég upp til þess að beina því til hæstv. forseta, hvort það væri ekki tilhlýðilegt að fresta þessari umr. nú, af því að það er eins og hv. 6. þm. Reykv. sagði þannig ástatt, að hæstv. ráðh. raforkumála er ekki viðstaddur hér í d., hefur kannske ekki vitað um það, að þessi umr. átti að fara fram nú, og mér finnst það nú satt að segja óviðunandi að gefa ekki hæstv. ráðh. kost á því að leggja orð í belg, þegar þetta mál er hér til 2. umr. Yfirleitt virðist mér frekar fáskipað á þingbekkjum miðað við mikilvægi þess máls, sem þessi fundur hefur til meðferðar. Þess vegna vil ég endurtaka það, að ég vil beina því til hæstv. forseta, að hann fresti þessari umr. til næsta fundar til þess að hæstv. raforkumálaráðh. geti verið viðstaddur. Það eru viss atriði, sem ég hefði haft tilhneigingu til að ræða við hæstv. ráðh. um, og e.t.v. fleiri þm. og yfirleitt verður að telja það eins og ég sagði áðan ekki tilhlýðilegt að ljúka umr., án þess að hæstv. ráðh. geti hlýtt á það, sem fram fer, og sagt sitt álit á því, eftir því sem hann telur ástæðu til.