03.04.1971
Neðri deild: 85. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1634 í B-deild Alþingistíðinda. (1661)

10. mál, Landsvirkjun

Magnús Kjartansson:

Herra forseti. Mig langaði til að þakka hæstv. iðnrh. fyrir skýrslu þá, sem hann gaf hér áðan sem svar við fsp. minni. Hæstv. ráðh. lét þess réttilega getið, að ég hefði spurt hann um mjög umfangsmikil atriði og þess væri naumast að vænta, að hann gengi með þessa vitneskju upp á vasann dags daglega. Og það er alveg rétt. Á hitt vil ég minna, að þetta frv. kom til okkar hér í Nd. skömmu fyrir jól. Þá mæltist hæstv. ráðh. til þess hér í þinginu, að málið yrði afgreitt fyrir jól og þá mælti ég nokkur orð og fór fram á það, að d. hefði málið lengur til meðferðar einmitt vegna þess, að ég taldi nauðsynlegt, að við fengjum þá vitneskju, sem ég var að spyrja um hér áðan. Mér datt satt að segja ekki annað í hug en að þegar málið yrði tekið hér til 2. umr., þá yrði d. greint frá því, hvaða hugmyndir væru uppi um það, hvernig ætti að nota orkuna frá hinum nýju stórvirkjunum, því að það er að sjálfsögðu grundvallaratriði. Það er alveg tómt mál að ráðast í stórvirkjun, ef maður gerir sér ekki einhverja grein fyrir því, til hvers á að nota orkuna. Og það, sem hæstv. ráðh. sagði um þau áform, sem nú væru uppi, það bar það með sér, að þarna er ekki um neina örugga vitneskju að ræða hvað snertir samninga við einstaka framkvæmdaaðila. Hann minntist á álbræðsluna, hugmyndir um stækkun hennar, en lét þess getið, að það væri ekki mikill áhugi hjá álbræðslum sem stæði vegna verðfalls á alþjóðlegum markaði og ýmsar álbræðslur hefðu raunar dregið saman seglin. Hann minntist á olíuhreinsunarstöð og áform um æðistóra olíuhreinsunarstöð á Íslandi, sem mundi þá nýta mikla raforku, en hann sagði um það, að það mál væri ókannað og algerlega óvíst hvað úr því yrði og gersamlega óundirbúið. Og hann minntist á stálbræðslufyrirtæki, stálsteypu og álvinnslu og annan iðnað á Íslandi, sjóefnavinnslu o.s.frv. En þetta var allt saman á algeru bollaleggingastigi. Nú er mér fullkomlega ljóst, að við hljótum að gera stórátak í iðnþróun á næsta áratug eða svo, og að við verðum að reikna með verulegrí raforku til þeirra hluta. En það er augljóst mál, að það er ekki um að ræða neinn einn og jafnvel ekki einstaka aðila, sem hægt er að byggja á þessar nýju stórvirkjanir, á sölu til þeirra. Og einmitt þess vegna finnst mér það vera fullkomlega rökrétt, að þarna sé bætt inn þeim íslenzka, þeim innlenda markaði, sem er í landinu og sem allir viðurkenna að er í landinu og sem allir sjá að yrði mjög hagkvæmt að nýta.

Hæstv. ráðh. sagðist telja það ástæðulaust að setja þetta inn í frv., því þetta mál væri í könnun hjá Orkustofnun. Mér er kunnugt um það, að það er þar í könnun. En Alþ. mundi leggja mikla áherzlu á þetta atriði með því að bæta því inn í frv., og ég á dálítið erfitt með að skilja, hvað hæstv. ríkisstj. getur haft á móti því að bæta þessu atriði inn í frv. Þessar stórvirkjanir eru það mikið mál, að ég held að það væri ákaflega æskilegt, að Alþ. væri sem mest einhuga um þessar framkvæmdir, og ég vildi beina því mjög eindregið til hæstv. ráðh., að athuga það, hvort ekki er af hálfu hæstv. ríkisstj. unnt að fallast á þessa till. Ég vil taka þessa till. aftur til 3. umr. til þess að gefa ráðrúm til þess að íhuga það mál. Af hálfu okkar flm. er hér um að ræða till., sem á að stuðla að því, að í þessar framkvæmdir verði ráðizt á raunsæjan hátt. Við gerum þetta vegna þess, að við höfum áhuga á því, að það verði ráðizt í þessar stórvirkjanir, einmitt með því að leggja þarna fjárhagslegan grundvöll, innlendan fjárhagslegan grundvöll, sem gerir þessar virkjanir tvímælalaust mjög arðbærar fyrir þjóðarbúið. Og ég held, að það væri skynsamlegt að reyna að tryggja sem viðtækasta samstöðu um það atriði hér á hinu háa Alþingi.

Hæstv. ráðh. vék örlítið að Búrfellsvirkjun og sagði, að ekki hefði verið hægt að ráðast í hana án samninganna við álbræðsluna og þess vegna fengju Íslendingar nú ódýrari raforku en þeir hefðu fengið að öðrum kosti. Ég ætla ekki að fara að endurtaka horfnar deilur frekar en hæstv. ráðh., en ég vil aðeins minna á það, að þegar heimildin til Búrfellsvirkjunar var ákveðin hér á þingi, höfðu ekki neinir samningar verið gerðir við neitt erlent fyrirtæki. En hæstv. ríkisstj., og þ. á m. þessi hæstv. ráðh., hélt um það ræður hér á þingi, að það væri mjög hagkvæmt fyrir Íslendinga að ráðast í Búrfellsvirkjun, þó að ekki yrði samið við neinn erlendan aðila, og það hafa verið gerðar um það áætlanir, hvernig hægt væri að láta Búrfellsvirkjun koma í gagnið í áföngum í samræmi við eðlilega þróun hins innlenda markaðar. Og ég man, að það stóð meira að segja í grg. hæstv. ríkisstj. fyrir frv., að það væri ekki meira átak fyrir Íslendinga að ráðast í Búrfellsvirkjun nú en það var að ráðast í fyrstu Sogsvirkjunina á sínum tíma. Þetta hygg ég vera gersamlega rétt.

Hitt atriðið, sem hæstv. ráðh. talaði um, að Íslendingar fengju ódýrari raforku af þessum sökum, er nú ekki í samræmi við staðreyndir. Því miður hefur reynslan orðið sú, að kostnaður á raforku til Íslendinga hefur hækkað aftur og aftur, eftir að Búrfellsvirkjun kom í gagnið. Og allir íslenzkir aðilar verða nú að greiða margfalt verð á við það, sem hinir erlendu aðilar greiða. En sem sagt þessi atriði ætlaði ég að ræða í heild. Ég vil svo að lokum aðeins taka það fram, að sú brtt., sem ég flyt ásamt hv. alþm. Lúðvík Jósefssyni á þskj. 792, á að koma í staðinn fyrir fyrri till. okkar, sem er hér með tekin til baka.