11.11.1970
Neðri deild: 16. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1746 í B-deild Alþingistíðinda. (1841)

67. mál, happdrættislán fyrir Vegasjóð vegna brúargerða á Skeiðarársandi

Unnar Stefánsson:

Herra forseti. Ég vildi aðeins í örstuttu máli lýsa ánægju minni yfir þeim jákvæðu undirtektum, sem þetta mál hefur fengið hérna í d., og þeim stuðningi, sem þetta virðist eiga. Ég vildi vekja athygli aðeins á einu atriði, sem mér fannst ekki koma nógu vel fram hér. Það var rætt um þetta mál sem samgöngumál nr. 1, vegamál. Ég vil vekja athygli á því, að hér er ekki aðeins um vegamál að ræða, hér er líka um að ræða ferðamál. Það hefur verið ákveðið að koma upp þjóðgarði í Skaftafelli, og Íslendingar hafa hlotið öflugan stuðning Evrópusamtaka á vegum Evrópuráðsins til þess að koma upp þjóðgarði. Fyrir samtökum Evrópuþjóða og þeim stofnunum, sem að slíkum framkvæmdum standa, hlýtur að vaka, að almenningur, bæði á Íslandi og í öðrum löndum, eigi greiðan aðgang að þjóðgarði. Þess vegna hygg ég, að sú framkvæmd að stuðla að því, að þjóðgarður komist í vegasamband við þéttbýli, að auðvelda íbúum þéttbýlis á Íslandi og í öðrum löndum að komast að þjóðgarði, hljóti að fá góðar undirtektir af stofnunum, sem eru tengdar Evrópuráðinu og hafa yfir digrum sjóðum að ráða, sem einmitt eru á hinum síðustu árum að leggja fram fjárframlög til þeirra landa og héraða í Evrópu, sem hafa orðið aftur úr í sambandi við almennar framfarir á ýmsum sviðum.

Og að lokum er annað, sem ekki kom fram hér. Hér er um að ræða stórvægilegt byggðajafnvægismál. Það vill svo til, að í næsta nágrenni þessa vegstubbs, sem vantar, ef svo má komast að orði, eru einmitt þau héruð, þar sem íbúar landsins búa við lægstar tekjur. Við athugun á tekjum Íslendinga kemur á daginn, að íbúar Vestur- og Austur-Skaftafellssýslu munu einmitt vera tekjulægstu Íslendingarnir. Að opna leiðina þarna á milli greiðir fyrir því, að þessi leið verði fjölfarin ferðamannaleið, og það skapar einmitt grundvöll til fjölbreyttari tekjuöflunar fyrir íbúana á þessum svæðum. Það er verið að byggja heimavistarskóla af miklum myndarbrag í næsta nágrenni við Kirkjubæjarklaustur. Þar er möguleiki úr þessu að reka sumarhótel, sem gæti orðið og sem mundi styrkjast sem gististaður ferðamanna. Þetta mundi stuðla að að efla byggðakjarna á Klaustri einmitt að sumarlagi meðan þarna lægi um mikill ferðamannastraumur. Og einnig held ég, — ég leyfi mér enn fremur að geta þess, þó að ég hafi ekki hugsað það mál djúpt, hvort viðeigandi er að hreyfa því hér, — mér er nær að halda, að hér sé enn fremur um að ræða varnarmál, það að tengja t.d. mikilsverða stöð í varnarkerfi Norður-Atlantshafsins, sem er nú við Hornafjörð, tengja greiðar samgöngur milli Suðvesturlands og Hornafjarðar ætti e.t.v. að vera áhugamál þeirra, sem áhuga hafa á öflugum vörnum á norðanverðu Atlantshafi. Sem sagt, hér er um að ræða miklu fleira en samgöngumál. Hér er um að ræða atvinnumál, hér er um að ræða byggðajafnvægismál, sem ég held, að ættu að skipta mjög miklu máli í sambandi við afgreiðslu þessa máls.