19.10.1970
Efri deild: 3. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 320 í B-deild Alþingistíðinda. (189)

3. mál, Landsvirkjun

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Frv. þetta er flutt til staðfestingar á brbl., sem gefin voru út 1. sept. s. l., þess efnis að veita ríkisstj. heimild til að ábyrgjast lán, sem Landsvirkjun þurfti að taka vegna Þórisvatnsmiðlunar og undirbúningsvirkjana í Tungnaá, allt að 8 milljón dollara virði eða 704 millj. ísl. kr. Ástæðan til þess, að ekki var hægt að bíða með þessa heimild, þar til Alþ. kæmi saman, var sú, að hafizt var handa í sumar um hluta af þessari mannvirkjagerð, þ. e. byggingu miðlunarmannvirkja við Þórisvatn og ýmsar aðrar framkvæmdir varðandi framhald Landsvirkjunar, þ. e. Sigölduvirkjun, og frv. um þá virkjun hefur nú verið lagt fyrir Alþ. Telja verður, að Alþ. hafi mótað stefnuna varðandi Landsvirkjunarframkvæmdir á þessum stöðum, enda áður legið fyrir Alþ. grg. um næstu áfanga, sem fyrirhugaðir væru, þannig að hér var ekki verið að marka neina nýja stefnu og því talið rétt að gefa út brbl., svo sem hér segir, til þess að ekki þyrftu að stöðvast þær framkvæmdir, sem nauðsynlegt var talið að vinna að í sumar. Að öðru leyti munu virkjunarmál þessi að sjálfsögðu koma til umr. hér á hinu háa Alþ. í sambandi við frv. um Sigölduvirkjun, sem nú hefur verið lagt fyrir þingið. Sé ég því ekki ástæðu til að ræða virkjunarmálið sem slíkt, og frv. þetta er í sjálfu sér það einfalt í sniðum, að ekki er þörf á að eyða í það fleiri orðum, en ég leyfi mér að leggja til, herra forseti, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. fjhn.