08.03.1971
Neðri deild: 58. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1808 í B-deild Alþingistíðinda. (1931)

233. mál, girðingalög

Frsm. (Bjartmar Guðmundsson):

Herra forseti. Frv. þetta til breytinga á girðingalögum á þskj. 439 er flutt vegna þess, að í girðingalögum eru mjög óljós ákvæði um afréttargirðingar og raunar engin önnur en þessi setning, sem skotið var inn í girðingalögin með breytingu 1967 og er svo hljóðandi: „Um girðingarkostnað milli afréttarlanda gilda sömu reglur og um landamerkjagirðingar sé að ræða.“

Um gagnsemi girðinga um fjöll og firnindi annarra en sauðfjárveikivarnagirðinga, sem eru nokkurs konar neyðargirðingar, eru mjög skiptar skoðanir og að flestra dómi þó á þann veg, að hjá þeim eigi að sneiða í lengstu lög. Viðhald girðinga á heiðum uppi, einkum þar sem snjóalög eru mikil, er bæði kostnaðarsamt og ófullnægjandi. Á stórum svæðum leggjast þær niður undan snjó og koma ekki upp fyrr en komið er langt fram á sumar og þá meira og minna slitnar og staurar brotnir. Því er það mörg sumur, að þær verða svo til að engu gagni sem varzla gegn því, að fénaður, sem búinn er að dreifa sér þá um afréttir, komist yfir línur, sem hindra áttu þó rennsli hans yfir í önnur afréttarsvæði. Illa gerðar girðingar þar sem annars staðar eru hættulegar, og þess finnast allt of mörg dæmi, að sauðfé flæki sig í gaddavírsslitrum og farist á hörmulegan hátt. En þó að afréttargirðingum fylgi þessi galli og fleiri gallar þó, þá er ekki samt fyrir það að synja að þær geti átt fullan rétt á sér undir vissum kringumstæðum, einkum er verja þarf tiltekin landsvæði fyrir ágangi og ofbeit. Hins vegar verður að telja það fráleitt, að um afréttargirðingar geti gilt sömu reglur og um girðingar í heimahögum. Þar er flestu ólíku saman að jafna. En samkvæmt girðingalögum, að því er snertir girðingar í heimahögum, getur einhliða krafa landeiganda knúið þann, sem land á á móti honum, til að taka þátt í merkjagirðingarkostnaði að hálfu. Ef sams konar einhliða kröfur eiga að gilda á fjöllum uppi, getur það leitt til öngþveitis og mikils ranglætis. Þannig má hugsa sér, að upp verði settar girðingar, sem ekki reynast aðeins óþarfar, heldur beinlínis til skaða mikils fyrir aðra aðila en einn og jafnvel fyrir hann líka. Finna má þess dæmi, eins og sýnt er í fskj. með þessu frv., að einhliða ákvarðanir í þessu efni geta gert einstökum sveitarfélögum svo erfitt fyrir, að þau fái ekki undir risið. Jafnvel algerlega að þarflausu.

Brtt. sú, sem hér er á ferð, fjallar einungis um það, að afnuminn verði einhliða ákvörðunarréttur einstaks sveitarfélags til að knýja fram girðingarlagningu á fjöllum uppi gegn vilja og hagsmunum þess eða þeirra sveitarfélaga, sem lönd eiga á móti því. Er sýslunefnd ætlað að fjalla um málið og meta nauðsyn á slíkum girðingum, og miðar brtt. að því einu í þessu efni, að viðhaft verði skynsamlegt lýðræði og viðhöfð hlutlaus athugun á nauðsyn þess að girða eða girða ekki. Og þannig verði aðilar jafnréttháir. Landbn. hefur kynnt sér efni frv. aðeins lauslega á einum fundi og er, eins og í grg. segir, óbundin um afstöðu til þess. Sem einstaklingur tel ég, að á einhvern hátt þurfi að breyta girðingalögunum. Að því er þetta atriði áhrærir, legg ég svo til, þar sem ég hef ekki athugað málið nánar eða frv., að frv. verði vísað að afstaðinni þessari umr. aftur til landbn.