01.04.1971
Efri deild: 85. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1823 í B-deild Alþingistíðinda. (1979)

292. mál, þingfararkaup alþingismanna

Frsm. (Jón Þorsteinsson):

Herra forseti. Í ársbyrjun 1964 voru sett ný lög um þingfararkaup alþm. og þar ákveðið að alþm. fengju 132 þús. kr. í árslaun eða 11 þús. kr. á mánuði. Þessi laun skyldi greiða frá og með 1. júli 1963, en þá gekk í gildi hið nýja launakerfi opinberra starfsmanna. Launaákvörðun þessi var talsvert gagnrýnd af þm. á þessum tíma, þótt ekki kæmu fram brtt. við frv. Töldu ýmsir þm., að 11 þús. kr. mánaðarlaun væru of lág miðað við launakerfi ríkisstarfsmanna.

Sanngjarnara væri, að mánaðarkaup þm. væri 15 þús. kr. Aðrir bentu á, að með lagasetningunni væru alþm. í fyrsta skipti tryggð árslaun, en áður hlutu þeir einungis laun yfir þingtímann, í þessu fælist verulegur ávinningur, þó að skattfríðindi væru þá felld niður, og rétt væri að una við þessa kjaraleiðréttingu fyrst um sinn, en aðrar leiðréttingar á launum alþm., sem væru að vísu sanngjarnar, þyrftu að bíða betri tíma. Þetta sjónarmið varð ofan á við setningu laganna 1964, og voru mánaðarlaunin ákveðin 11 þús. kr., eins og áður segir, en það voru sömu laun og gagnfræðaskólakennarar nutu þá skv. launakerfi ríkisstarfsmanna. Þau sjö ár, sem síðan eru liðin, hafa alþm. fylgt gagnfræðaskólakennurum í launakjörum og aldrei fengið þá leiðréttingu, sem ætlað var með lagasetningunni 1964, að biði þeirra á næstu árum.

Þegar litið er til nágrannaþjóða okkar, kemur í ljós, að ísl. alþm. eru mun verr launaðir en þm. þessara þjóða. Við því er ekkert að segja, þar sem ísl. þjóðin er fámenn, á mörg verkefni óleyst og hefur ekki aðhyllzt þær skoðanir um launamismun stétta, sem annars staðar eru ríkjandi. En það kom mér á óvart, þegar ég átti þess kost fyrir ári síðan að kynna mér launakjör lögþingsmanna í Færeyjum, að komast að raun um, að ísl. alþm. voru þá lítið meira en hálfdrættingar stéttarbræðra sinna í Færeyjum í þessum efnum. Nú er hér til umr. frv. til l. um breyt. á l. frá 6. marz 1964 um þingfararkaup alþm., sem flutt var af þm. allra flokka í Nd. og var samþ. þar nær shlj. Skv. frv. eiga alþm. að taka laun skv. launaflokki B 3 í kjarasamningi um laun starfsmanna ríkisins, en það er þriðji hæsti launaflokkurinn. Hv. dm. til fróðleiks skal ég hér greina frá því, hvaða embættismenn það eru, sem skipa þennan launaflokk, B 3, í ríkiskerfinu. Það eru bæjarfógetinn á Akureyri, bæjarfógetinn í Hafnarfirði, flugmálastjóri, forstjóri Áfengis- og tóbaksverzlunar ríkisins, forstjóri Innkaupastofnunar ríkisins, framkvæmdastjóri ríkisspítala, orkumálastjóri, prófessorar, sem jafnframt eru yfirlæknar, siglingamálastjóri, skattrannsóknarstjóri, skattstjórinn í Reykjavík, veðurstofustjóri, vita- og hafnamálastjóri og þjóðleikhússtjóri.

Í frv. er tilgreindur launaflokkurinn B 3, en í framtíðinni kann svo að fara, að launaflokkar ríkisstarfsmanna verði auðkenndir með öðrum bókstöfum og öðrum tölum en nú gilda. Launaflokkum kann að fjölga eða fækka. Ég legg því þann skilning í hugtakið launaflokk B 3 í frv., að átt sé við þriðja hæsta launaflokk ríkisstarfsmanna, eins og hann verður á hverjum tíma. Svo hlálegt sem það kann að virðast í fljótu bragði, þá gilda engin fastákveðin laun fram til 1. júli 1972 í launaflokki B 3. Þeir ríkisstarfsmenn, sem nú taka laun skv. þessum flokki, hafa því aðeins sama kaup þetta tímabil, að þeir hafi einnig verið í sama launaflokki, áður en nýju kjarasamningarnir voru gerðir í des. s.l. Ríkisstarfsmenn, sem voru í mismunandi launaflokkum, en færast við nýju samningana upp í flokk B 3, sem ekki var til áður, hafa nú mismunandi laun vegna þess, að hækkunin kemur í áföngum eftir föstum prósentureglum og fullt samræmi fæst ekki fyrr en 1. júli 1972. Af þessu leiðir, að það kann að vera nokkurt álitamál eftir frv., hvaða laun alþm. eiga að taka á tímabilinu frá 1. júli 1971 til 1. júli 1972. Þetta verður þingfararkaupsnefnd væntanlega að úrskurða, ef frv. verður samþ.

Að núv. launakerfi alþm. óbreyttu yrði mánaðarkaup þeirra hinn 1. júlí 1972 36.880 kr. í grunnlaun, en verða eftir frv. 56 þús. kr. Hér er því um verulega launahækkun að ræða. Á móti þessu kemur, að laun embættismanna, er sitja á þingi, eru skert, og er þar farið inn á sömu braut og á Norðurlöndum. Hins vegar er ekki í frv. að finna nein ákvæði um það, hvort starfsskyldur slíkra embættismanna skulu minnkaðar að sama skapi, en mér finnst það liggja í hlutarins eðli, að svo verði að öðru jöfnu.

Með þingfararkaupslögunum 1964 var viðurkennt, að þingmennskan er ársstarf, enda jukust mjög starfsskyldur þm. við kjördæmabreytinguna, sem átti sér stað 1959. Með þessu frv. er svo viðurkennt, að starf þingmannsins hljóti einnig að vera aðalstarf, en það er mála sannast, að verkefni alþm. eru nærri óþrjótandi og líf hans útgjaldasamt; því ber að launa honum vel. Launakjör þingmanna þurfa helzt að vera það góð, að hæfir menn hafni því ekki að fara í framboð og taka sæti á Alþ. af fjárhagsástæðum, því að vissulega gæti það verið mikil fjárhagsleg áhætta fyrir ýmsa menn að yfirgefa starf sitt og stöðu til þess að stunda illa launaða þingmennsku. Með samþykkt þessa frv. tel ég, að þm. komist á réttan stað í launakerfi þjóðarinnar. Í þessu sambandi verður að skoða réttarstöðu alþm. og bera hana saman við réttindi embættismanna. Embættismaðurinn á að jafnaði lífstíðarábúð í stöðu sinni. Hins vegar er atvinnuöryggi þm. miklu minna. Hann verður að sæta dómi kjósenda á fjögurra ára fresti um framhald þingsetu og þarf jafnvel áður að standast prófkjörsþolraun til þess að eiga kost á framboði. Í framtíðinni verður að reikna með örari skiptingu og mannabreytingum á Alþ. en tíðkazt hefur síðustu áratugi.

Þær raddir hafa heyrzt, að það sé óviðeigandi af alþm. að ákveða laun sín sjálfir og eðlilegra væri að fela þetta einhverri hlutlausri stofnun eins og t.d. kjaradómi. Þessar raddir hafa vissulega nokkuð til síns máls. Hins vegar hef ég ekki trú á því, að kjaradómur mundi úrskurða alþm. laun, sem væru mjög frábrugðin því, er þeir ákveða væntanlega sjálfir með samþykkt þessa frv. Aðalatriðið tel ég þó vera, að launakjör þm. eru ekki einkamál þeirra sjálfra, heldur málefni, sem snerta alla þjóðina. Ákvarðanir þm. í þessum efnum sem öðrum eru svo háðar dómi þjóðarinnar að lokum. Nú vill einmitt svo til, að kosningar eru fram undan og margir þm. verða ekki í kjöri og munu því hverfa af þingi innan fárra mánaða. Fyrir þennan hóp þm. er samþykkt þessa frv. ekki nein kjarabót nema að því einu leyti, er varðar hugsanlegan eftirlaunarétt. Samt sem áður eru þessir þm. eindregnir stuðningsmenn frv.

Reynsla þeirra og þekking á starfi og stöðu þm. segir þeim, að sú réttarbót, sem í þessu frv. felist, sé sanngjörn.

Þessu frv. var við 1. umr. hér í þessari d. vísað til allshn. N. fjallaði um frv. og komst einróma að þeirri niðurstöðu að mæla með samþykkt þess breytingalaust.