14.12.1970
Neðri deild: 30. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 323 í B-deild Alþingistíðinda. (205)

3. mál, Landsvirkjun

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vil í sambandi við þetta frv. leita upplýsinga hjá hæstv. fjmrh., og skal ég koma að því, hverjar þær upplýsingar eru. Þetta frv. til l. um viðbótarríkisábyrgð vegna Landsvirkjunar er flutt til staðfestingar á brbl., sem gefin hafa verið út 1. sept. 1970 eða rúmlega mánuði áður en Alþ. kom saman. Ég hafði nú búizt við því, að við umr. um þetta mál kæmu fram einhverjar aths. við þessa brbl.-útgáfu, því að stundum hafa komið fram aths. við brbl.-útgáfu af minna tilefni. En að þessu sinni hafa verið gefin út brbl., sem eru þess efnis að heimila ríkisábyrgð fyrir láni, sem er hvorki meira né minna en rúmlega 700 millj. kr.

Nú má vera, að fordæmi séu fyrir því, að svo háar ríkisábyrgðir hafi verið heimilaðar með brbl., skömmu áður en Alþ. átti að koma saman, og væri mér þá kært að fræðast um þau fordæmi, af því að ég kem þeim nú ekki fyrir mig í svipinn. Má vera, að svo sé, en hvort sem slík fordæmi eru fyrir hendi eða ekki, þá held ég, að ég verði að láta það í ljós sem mína skoðun, að slík brbl.-útgáfa sé mjög óheppileg, ef ekki stendur alveg sérstaklega á um slíkt efni sem þetta, þ. e. ríkisábyrgð fyrir mjög háu láni. Nú sagði hæstv. fjmrh. eitthvað á þá leið, þegar hann mælti fyrir þessu frv. hér í hv. d., og svipað mun hann hafa sagt, þegar hann mælti fyrir málinu í hv. Ed., þar sem það var í öndverðu flutt, að Alþ. hefði þegar markað stefnuna í þessu máli og því væri hér í raun og veru ekki um svo mjög alvarlegan hlut að ræða, þó að gefin væru út brbl. af þessu tagi. Alþ. hefði þegar markað stefnuna í þessu máli, og þm. hefði verið kynnt hún. Ég býst við, að þar sé átt við l. um Landsvirkjun frá 1965, þar sem gert var ráð fyrir, að eitt af hlutverkum Landsvirkjunar sé að framkvæma rannsóknir á virkjunarmöguleikum, en einnig gat hann þess við 1. umr., að fyrir þinginu hefðu legið upplýsingar eða áætlanir um frekari virkjanir á vatnasvæði Þjórsár.

Nú er það svo, að á þskj. 10, sem einnig var flutt í hv. Ed., og er 10. mál þingsins og mun vera til umr. í þeirri hv. d. í dag, er gert ráð fyrir að heimila Landsvirkjun allt að 370 þús. kw. virkjun í Tungnaá á tveimur stöðum, sem er stærri virkjun en Sogsvirkjun, stærri virkjun en Búrfellsvirkjun og stærri virkjun en Sogsvirkjun og Búrfellsvirkjun til samans, sem sé risafyrirtæki á íslenzkan mælikvarða á þessu sviði. Nú ætla ég ekki að ræða það mál hér efnislega á neinn hátt. En í þessu frv. er gert ráð fyrir þessum heimildum, og síðan er gert ráð fyrir, að með lögum verði tryggðir fjármunir með ábyrgðum og á annan hátt til þess að framkvæma aðra virkjunina. Það er ekki tekið fram, hvor virkjunin það sé, heldur önnur hvor virkjunin, eftir því sem segir í grg. frv. Nú hvarflar það að mér, ef svo færi, að önnur þessi virkjun væri framkvæmd og svo kæmi að því einhvern tíma síðar að framkvæma hina virkjunina, hvort hæstv. ríkisstj. eða hv. nefnd t. d. teldi það, að með brbl. mætti veita ríkisábyrgð, og hvort ekkert væri athugavert við það að veita ríkisábyrgð — við skulum segja — fyrir 2–3 þús. millj. kr. eða jafnvel hærri upphæð eftir nokkur ár, af því að stefnan hafi verið mörkuð með því að heimila virkjunina, þó að ábyrgðin væri ekki heimiluð.

Ég held sem sé, að það sé farið inn á dálítið varhugaverða braut með þessu frv. á þskj. 3 með útgáfu brbl. á þessu sviði, og vildi ekki láta hjá líða að gera þessa aths. við það og þá m. a. til að fræðast um það, ef einhver fordæmi kunna að vera fyrir slíkri brbl.-útgáfu og hvort þeir, sem að þessum brbl. standa, og hv. n., sem hefur mælt með þeim, mundi t. d. telja, að á sínum tíma, eftir 5–10 ár eða svo, væri hægt með brbl. að heimila ríkisábyrgð fyrir — við skulum segja — 170 þús. kw. virkjun á einhverjum stað, eins og þarna er gert ráð fyrir í frv. á þskj. 10 — hvort ekki væri neitt athugavert við það frá sjónarmiði Alþ., að slík ríkisábyrgð væri heimiluð með brbl., skömmu áður en þingið kæmi saman. Og ef það væri talið, að svo væri, þá fer nú kannske keðjan að lengjast og hugsanlegt, að talið væri eðlilegt að veita stórar ríkisábyrgðir einnig í öðrum tilfellum. Þó að hér sé um merkilegt fyrirtæki að ræða, sem eru virkjanirnar á Þjórsársvæðinu, er þetta ábyrgðarmál áreiðanlega þess vert, að því sé gefinn gaumur, hvert við erum að fara í þessu efni.