04.03.1971
Neðri deild: 56. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1863 í B-deild Alþingistíðinda. (2057)

222. mál, Stofnlánadeild landbúnaðarins

Bjartmar Guðmundsson:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja umr. um þetta mál neitt teljandi og tel þess ekki þörf eftir þá ítarlegu ræðu, sem hv. flm. málsins flutti hér áðan. Málið liggur mjög ljóst fyrir þeim, sem á orð hans hlýddu, sem voru að vísu ekki margir hér, en þau verða væntanlega eitthvað túlkuð í blöðum og útvarpi, og um leið og ég segi þetta, þá vil ég fagna því, að þetta frv. er fram komið. Við hefðum sennilega margir óskað eftir því, að það hefði komið fyrr á þessum vetri, en sá tími, sem nefndin hefur haft til að starfa að þessu máli, hefur ekki verið meiri en svo, að það er ekki eðlilegt, að hún væri fyrr búin en þetta. Og ég ætla, að hún hafi unnið sitt verk vel og farið mjög nákvæmlega út í ýmis atriði eða þau atriði, sem hún átti um að fjalla. Hitt er svo annað mál, að menn eru sjálfsagt ekki sammála um öll þau atriði, sem eru í þessu frv. Ég vil fyrir mitt leyti þó lýsa yfir, að ég tel, að það gangi í öllum aðalatriðum í rétta átt, og vil fyrir mitt leyti stuðla að því eftir megni, að þetta frv. nái fram að ganga á þessu þingi, ef mögulegt er. Það eru sérstaklega viss nýmæli í frv., sem ég tel, að sé mjög nauðsynlegt, að geti fengið afgreiðslu sem allra fyrst. Þar á ég við fyrst og fremst stuðning þann, sem frv. gerir ráð fyrir að veita til grænfóðurræktar, sem ég tel, að sé það úrræði, sem helzt sé hægt að grípa til í bili vegna þess harðæris, sem verið hefur og kals og skemmda í túnum. Ég get ekki tekið undir það, sem hv. 5. þm. Norðurl. e. sagði hér áðan, að það væri lítið um nýmæli í þessu frv. Ég tel það hins vegar talsvert mikið. Í öðru lagi vil ég nefna það nýmæli, að þarna er gert ráð fyrir því, að Landnámið styrki í verulegum mæli stofnun verksmiðja til þess að vinna fóðurmjöl eða köggla úr íslenzku grasi. Þetta er mjög verulegt atriði, og ég er því mjög fylgjandi, að hægt sé að koma slíkum verksmiðjum á viðar en orðið er, en þær eru nú þegar tvær á Suðurlandi.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fara um þetta frv. fleiri orðum. Mér dettur ekki í hug að fara út í efni þess til viðbótar því, sem hér hefur verið þegar gert. Ég geri ráð fyrir, að það komi til kasta þeirrar n., sem ég er í, að fjalla um frv. En ég vil biðja hæstv. forseta að reyna að haga þannig málum við afgreiðslu þessa frv., að það geti komið sem allra fyrst til n. Hugmynd mín er, að strax og því hefur verið vísað til landbn. haldi n. fund um það og sendi það til umsagnar Búnaðarþingi, sem nú situr að störfum og verður ekki lengi að störfum. Þess vegna tel ég mjög áríðandi, að það geti komizt sem allra fyrst til þeirrar n., sem á að afgreiða það á formlegan hátt.