25.03.1971
Neðri deild: 69. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1884 í B-deild Alþingistíðinda. (2068)

222. mál, Stofnlánadeild landbúnaðarins

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Eins og ég gat um við 1. umr. þessa máls, þá varð ég fyrir miklum vonbrigðum, þegar ég sá þetta frv., og í raun og veru því óánægðari því meira, sem ég hugsa um það. Það er að vísu svo, að margt af því, sem ég er óánægður með, eru ekki þær breytingar, sem nú hafa verið gerðar á l., heldur þær breytingar, sem voru gerðar á þeim 1962. En ein veigamikil breyting hefur samt sem áður verið gerð nú á l., sem ég er óánægður með og ég tel, að sé varhugaverð, og það er sú breyting að auka vald landnámsstjóra. En þar sem það var komið inn á það hér í gær í ræðu, þá læt ég aðeins það nægja að benda á þetta, en fer ekki út í það frekar hér, enda þjónar það ekki neinum tilgangi.

Ég er í þeirri n., sem þetta mál hafði til meðferðar, landbn. Nd., og ef félagar mínir, sem áttu sæti í þeirri n., sem undirbjó frv., hefðu ekki lagt á það áherzlu að koma málinu fram, þá hefði ég snúizt gegn því. Seinasti ræðumaður sagði hér áðan, að hann legði mikla áherzlu á það, að þetta mál væri samþ. nú á þessu þingi. En hefur hv. þm. athugað það, að það breytir ekkert málinu, hvort það er samþ. núna eða á haustþinginu, vegna þess að það er engin fjárveiting ætluð til þeirra hluta, sem frv. nær til, t.d. til hærri styrkja í sambandi við íbúðabyggingar eða ræktun fyrr en í fjárl. 1972? Af þeirri ástæðu þurfti ekki að hraða framgangi þessa máls.

Ég er mjög óánægður, eins og ég gat um, með þá stefnu að halda þessu svona og láta í raun og veru margar stofnanir vinna sama verkið, og ég sé ekki hagræðinguna við það. Ég var að athuga það, hvað kosta bara laun Landnámsins 1969 — en það eru síðustu tölur, sem ég hef aðgang að — og það voru, að mig minnir, 3.2 millj. kr., og það hlýtur að verða nú mjög mikil hækkun og sérstaklega, ef Landnámið á að inna þau störf af hendi, sem því er ætlað með þessari lagabreytingu, sem hér er verið að gera. Í raun og veru er Búnaðarfélagið landbrn. Og að hafa sama sem mörg landbrn. — í raun og veru fjögur, eins og er með okkar skipan — er ekkert vit. Ég meina Búnaðarfélagið, Landnámið, Jarðeignadeildina og svo þetta rn. sjálft. Það er ekki hagræðing í því, og það er áreiðanlega hægt að verja fénu til þarfari verkefna en láta margar hendur gera eiginlega sama verkið eins og t.d. í sambandi við jarðabótastyrkinn. Hvaða vit er í því að borga sama styrkinn til sömu framkvæmdanna í tvennu lagi?

Ég hef leyft mér að leggja fram hér brtt. við frv. Ég skrifaði undir nál. með fyrirvara. Þessar brtt. eru í samræmi að mestu leyti við ályktanir Búnaðarþings og við það frv., sem ég og fleiri félagar mínir í hv. d. hafa flutt hér áður á þ. Það er ekki mikil lukka með þetta frv., eins og Búnaðarþing afgreiðir það. Í ályktun Búnaðarþings segir, með leyfi forseta, að Búnaðarþing mæli með þessu frv. „eftir atvikum“; takið þið eftir því.

Þessar brtt., sem ég hef leyft mér að flytja og eru á þskj. 625, eru þannig, með leyfi forseta:

„1. Við 39. gr. Fyrir „100 ha.“ komi: 75 ha.“ Í þessu nýja frv. er gert ráð fyrir því, að það þurfi að vera 100 hektarar ræktanlegs lands til þess, að Landnámið veiti leyfi til nýbýlamyndunar. Að vísu er svo í gr. síðar, að það er hægt að víkja frá þessu hámarksákvæði, en við vitum það, að þetta er það hámark, sem fáir bændur hafa. Það eru fáir bændur, ef það eru nokkrir bændur, sem eru einir a.m.k. að reka sitt bú, sem eru með svona stórt ræktað land; þeir eru a.m.k. mjög fáir. Það eru helzt félagsbú, skólabú og þess háttar bú. Bezt reknu búin, þar sem ég þekki bezt til, eru ekki einu sinni helmingurinn af þessu landi, sem er ræktað og ræktanlegt. En það eru að vísu ýmsar heimildir til þess að víkja frá þessu í l., en mig grunar, að þetta geti orðið til þess, að bændur, sem hefðu hug á að stofna nýbýli, mundu síður gera það vegna þess, að þessi takmörk eru áætluð svona há í frv.

2. Við 62. gr. legg ég til, að í stað 120 þús. kr. komi: 150 þús. kr., þ.e. þetta er styrkur, sem hefur verið veittur til íbúðarhúsabygginga í sveitum. Þessi styrkur hefur verið 60 þús. kr. frá 1964, og ef framkvæmdamáttur hans hefði átt að vera sá sami nú og oft áður, þá hefði þetta þurft að vera um 160 þús. kr. Búnaðarþing óskaði mjög eftir því, að þessu yrði breytt á þá leið, sem hér er, og ég álít, að hafi verið þörf á því áður að hafa þennan styrk þetta háan, sem ég efast ekkert um, þá sé full þörf á því nú. En ég kem kannske betur að því síðar.

Í b-lið þessarar brtt. legg ég til, að við 1. lið 62. gr. bætist: „Framlag þetta skal greiðast á framkvæmdir, sem gerðar hafa verið eftir 1. janúar 1969. Greiðslur þessar breytast samkvæmt byggingarvísitölu.“ Aðalhækkunin, sem hefur orðið á byggingarvísitölunni, var eftir gengisfellingarnar 1967–1968, og það er í raun og veru eðlilegt, að þessi styrkur væri veittur til þeirra, sem hafa byggt á þessu tímabili síðan, og þeim væri gerður mikill óréttur, ef þetta væri hækkað svona og skorið sundur t.d. miðað við síðustu áramót. Þess vegna er lagt til, að þessi styrkur nái til þeirra, sem hafa byggt, síðan verðbólguskriðan steyptist fram eftir 1968 eða seinni gengisfellinguna.

Ég legg til í c-lið, að í stað 2. mgr. 4. liðar komi: „Til endurræktunar túna vegna kals eða annarra skemmda, að viðbættu framlagi samkv. jarðræktarlögum, allt að 80% af ræktunar- og girðingarkostnaði, samkv. meðalverði hvers árs. Þó skal ekki veita framlag á sama land með styttra millibili en þremur árum. Sama heimild gildir, þó að annað land sé tekið til ræktunar í stað hins skemmda túns, enda sé það gert í samráði við héraðsráðunaut og landnámsstjóra.

Af framlagi samkv. þessum lið skal greiða 5% til viðkomandi búnaðarsambands.“

Breytingin, sem þessi gr. felur í sér, er sú, að í frv., eins og það liggur fyrir, er áætlað, að þessi styrkur verði 3 þús. kr. á hektara. Síðasta mgr. er til þess að verða við tilmælum Búnaðarþings, sem óskaði eindregið eftir því, að það gengju 5% af þessu framlagi til búnaðarsambandanna til að bera uppi þann sameiginlega kostnað bændanna á hverju svæði. Mér fannst og rétt að verða við þessari ósk, og ég geri ráð fyrir því, að hæstv. landbrh. vilji líka verða við þeirri ósk, vegna þess að hann sagði hér á Alþ. í vetur, að hann yrði yfirleitt við óskum Búnaðarfélagsins og bændasamtakanna í sambandi við beiðni þeirra um landbúnaðarmál, og verð ég því að vonast til þess, að hann stuðli að því, að þetta nái fram að ganga, þar sem allar þessar breytingar eru eftir óskum Búnaðarþings.

3. brtt. við 69. gr. er, að gr. falli niður, en þessi gr. er um það, að Teiknistofa landbúnaðarins, sem heitir eða á að heita nú samkv. þessu frv. Byggingastofnun landbúnaðarins, fari að selja bændum teikningar. Að vísu er það tekið fram, að það sé með vægu verði. Ég tel, að það sé eiginlega óhugsandi, að á meðan bændur borga stofnlánasjóðsgjaldið a.m.k., verði farið að láta þá borga þessa þjónustu, og er þetta alveg nýmæli. Ég tel, að við getum ekki staðið að því að bæta því við, á meðan þeir borga yfir 20 millj. kr. á ári í Stofnlánadeildina beint.

Þá hef ég lýst þeim brtt., sem ég hef hér lagt fram, en í sjálfu sér eru þær hækkanir til landbúnaðarins, sem þetta frv. felur í sér, frá gildandi l. 23.7 millj. kr. En ef menn vilja bæta við því, sem hefur verið skorið af Landnáminu undanfarin ár, þ.e. 71/2 millj. kr., þá losar þetta 31 millj. kr.

Ég get ekki látið hjá líða í sambandi við þessa umr. að minnast á fleiri atriði í þessum l., sem eru að vísu gömul, en ég tel rétt, að það sé minnzt á það hér vegna þess, að það er ein af þeim breytingum, sem ég tel, að verði að koma fram á l. og við verðum að beita okkur fyrir, þegar tök eru á.

En í fyrsta lagi eru það vextirnir, sem eru af þessum lánum, sem eru náttúrlega orðnir óhæfilega háir, eins og ég mun sýna fram á hér á eftir, og svo stofnlánasjóðsgjaldið, sem á að vísu að lækka í áföngum á næstu 20 árum miðað við þau l., sem við samþykktum fyrir áramótin, en þessi greiðsla er bændastéttinni að mínu viti alveg ofviða. Í sambandi við vextina vil ég segja það, að ég fór að athuga, hvernig þetta kæmi út og hvað það væri í raun og veru, sem landbúnaðurinn borgaði í vexti núna, og hvað það hefði verið, áður en þessi ríkisstj. kom til valda. Þið vitið það, að þessir vextir voru 31/2% al íbúðarhúsabyggingum og af öðrum framkvæmdum 4%. Í l. 1962 var þessu breytt í 61/2% af hinum almennu lánum, en í 6% af íbúðarhúsabyggingum. Ég fór að athuga það, hvað hefði verið lánað á þessum árum, hvað mundi vera eftir af þessum lánum og hvað það væri í raun og veru á þessu ári, sem leið, sem bændur hefðu borgað í Stofnlánadeildina í vexti af þessum fjármunum, þá tel ég stofnlánasjóðsgjaldið auðvitað með. En vegna þess, að ég geri ráð fyrir því, að hæstv. landbrh. muni koma hér upp og hafa eitthvað við mína útreikninga að athuga, eins og hann hefur stundum gert, þá ætla ég að segja ráðh. og háttv. öðrum þm., hvernig þessar tölur eru fengnar, þannig að hann viti þá, um hvað hann er að tala. Þær eru fengnar eins og hér segir. Eins og við vitum, þá eru hin almennu lán til 20 ára. Dráttarvéla- og vélalán eru til 6 ára. Lán til íbúðarhúsabygginga eru til 42 ára og til timburhúsa og annarra húsa til 25 ára. Ég athugaði þetta ekki öll árin, en nokkur árin, og ég sá það, að meðallánin mundu vera innan við 20 ár að meðaltali. Ég tel, að lánin, sem hafa verið lánuð til vinnslustöðvanna, eigi að dragast hér frá hvert ár, og það gerði ég. Ég taldi, að það væri hæfilegt þetta er ekki farið í bækurnar — að reikna með því, að við borguðum niður lánin 5% á ári eða borguðum hvert lán niður að meðaltali í 20 ár. Og ég spurði að því í Búnaðarbankanum, hvort þeir álitu, að ég færi ekki þarna rétt að — sennilega væri þetta á skemmri tíma, það væri óhætt fyrir mig að segja 18–19 ár. Og þeir töldu, að ég væri a.m.k. ekki þarna með of lágar tölur, það væri sem sé á skemmri tíma en 20 árum, sem þessi lán væru borguð niður.

Nú, ég gæti lesið þessar tölur allar fyrir hæstv. ráðh. Ég geri það kannske síðar, ef ástæða er til, en þannig eru þessar tölur fengnar, og niðurstaðan er sú, að frá því 1962 og til 1969 — ég tek náttúrlega ekki útlánin 1970, því að við borgum ekki af þeim fyrr en 1971 — þá hafi skuldin verið 658.3 millj. kr. á þessum árum. En mjög illt er að finna út, hvað meðalrenturnar eru bæði tímabilin, en mér virðist þetta vera um svona 1/5 af lánunum, sem eru með 6% vexti en 4/5 með 61/2%, en við skulum bara segja, að lánin hafi yfirleitt verið með 4% áður og 61/2% núna. En svo eru það 22 millj. kr. rúmar, sem bændurnir borguðu í Stofnlánadeildina, og ef maður athugar það, hvað það er, 658.3 millj. kr., þá kemur í ljós, að það eru 3%–3.35% eða verður rétt innan við 10% í raun og veru, sem bændurnir borga af þessum lánum, sem þeir hafa fengið síðan 1962.

Mér hnykkti við, þegar ég sá framkvæmdaáætlun ríkisstj. og þegar ég sá það, að á framkvæmdaáætlun ríkisstj. væru aðeins 70 millj. kr., sem Stofnlánadeildin ætti að fá til útlána á þessu ári. En ráðh., hæstv. landbrh., hefur sagt við öll möguleg og raunar ómöguleg tækifæri, að framkvæmdirnar hafi verið miklu meiri á þessu tímabili en áður og lánin, sem bændurnir hefðu fengið frá Stofnlánadeildinni, hafi verið meiri á þessu tímabili en áður, og þá fór ég að athuga sannleiksgildi þessara orða. Því að ég held, að það kannske þýði ekki lengur að nota svipaða aðferð við bændastéttina og bóndinn notaði við kýrnar sínar, þegar hann setti þær út á sinuna og hafði látið þær hafa græn gleraugu. Þeir finna nefnilega, hvernig að þeim er búið, og ég kem að því seinna. En ég athugaði árin 1956 og 1957, þ.e. hvernig þessi ár kæmu út. Árið 1956 lánaði Stofnlánadeildin 45 millj. kr. Þá var byggingarvísitalan 100 stig. Nú er byggingarvísitalan 524 stig. Ef við umreiknum þessar 45 millj. kr. í verðgildi peninganna í dag, þá þyrftu útlánin til þess að vera sambærileg að nema 235.8 millj. kr. Ég athugaði líka 1957. Þá var byggingarvísitalan 116 stig. Þá voru lánaðar 51.5 millj. kr., sem svarar til — miðað við sama framkvæmdamátt í byggingum og nú — 232.6 millj. kr. En hvað er svo ætlað núna til þess að lána úr Stofnlánadeildinni? Það var ekki lánað á þessum árum út á vinnslustöðvar. Það eru yfir 20 millj. kr. á undanförnum árum. Það var ekki út á minkabú. Þörfin nú fyrir lán út á minkabú er 26 millj. kr. á þessu ári, og var 10 millj. kr. á síðasta ári. Eftir því, sem framkvæmdaáætlun segir, hefur Stofnlánadeildin í allt 156 millj. kr. til að lána á þessu ári. En þá bara gleymist 50 millj. kr. víxill, sem er í Seðlabankanum. Það er ekkert sagt um það, hvernig á að fara með þann víxil, hvort það sé búið að semja um, að hann standi. Ef ekki er búið að semja um greiðsluna, þá er þetta í raun og veru 106 millj. kr. En hvað þyrfti þetta að vera núna til þess, að það væri bara eins og það var 1956 og 1957? Ef við tökum minkabúin með, þá þyrfti það að vera um 256 millj. kr. Það er engin furða, þó að hæstv. ráðh. gumi af frammistöðunni í þessum málum. En nú getum við rætt um þessi mál, það er verið að tala um landbúnaðarmál, en ekki vegamál. Hann óskaði eftir að tala um landbúnaðarmál hér við umr. um vegamál hér á dögunum. Ég gæti komið með margar fleiri tölur hér í þessu sambandi, en ég sé ekki ástæðu til þess nú. Það verður gert fyrir kosningar á öðrum vettvangi.

En hvernig er það svo með veðdeildina? Hvernig verður með hana? Viljið þið lesa framkvæmdaáætlun ríkisstj.? Þar stendur, að þar séu til útlána — það er engin smáræðisupphæð — 3.6 millj. kr., 3.6 millj.! Ég verð að segja það, að það er ekkert um annað að ræða en auglýsa, að það þýði ekkert að sækja um veðdeildarlán í Búnaðarbankanum, því að ríkisstj. hafi ekki ætlað neina peninga í þessa deild. Hvað þyrfti veðdeildin að hafa til þess að inna sitt hlutverk af hendi í raun og veru? Og takið eftir því, hvað var það, sem bankaráð Búnaðarbankans taldi, að þyrfti að fara í veðdeildina annars vegar og til Stofnlánadeildarinnar hins vegar? Stjórn Búnaðarbankans óskaði eftir 200 millj. kr. í Stofnlánadeildina, og hún hefði þurft að biðja um meira, ef það hefði átt að vera það sama og var lánað á árunum 1956 og 1957. Nei, það er alveg þýðingarlaust fyrir hæstv. landbrh. og hæstv. ríkisstj. að halda því fram, að það hafi verið gert betur í þessu efni á þessum árum en áður var.

Ég vil segja hæstv. landbrh. frá því, að ég hitti hér á dögunum mann. Það var ekki eyfirzkur bóndi, það var bóndi úr hans kjördæmi, og það var ekki framsóknarmaður, heldur maður, sem hefur kosið hæstv. ráðh. fram að þessu. Ég þekki manninn aðeins í sjón. Hann vindur sér að mér og segir: „Hvað ætlið þið að gera í landbúnaðarmálum?“ Ég vissi, að þetta var sjálfstæðismaður, og ég var var um mig og segi: „Ég hef ekki tíma til þess að skýra frá því. Lestu blöðin, og þú sérð okkar stefnu í þeim frv., sem þar koma.“ Þá klórar hann sér og segir: Ja, ég veit bara það, að þetta getur ekki gengið lengur.“ „Nú, hvað er að?“ segi ég. „Hefur þú ekki kosið sjálfstæðismenn á Suðurlandi alla tíð? Og hvað, ertu óánægður? Hefur þú ekki heyrt ræður ráðh.? Heldurðu, að þú farir að segja frá því, að pyngjan sé öðruvísi en ráðh. segir? Hann segir alltaf: Þetta er allt í lagi. Það hefur aldrei verið betra.“ „Ja, ég hef nú ekki skuldað fyrr en fyrir 5–6 árum. Og þegar ég keypti dráttarvélina mína 1957, þá vissi ég bara ekkert af því. Ég gat tekið þetta út úr rekstrinum. Svo fór ég að skulda 1964, og ég var kominn upp í 300 þús. kr. skuld, og ég veit ekkert, hvernig á því stendur. Og þá fór eldri vélin mín, þannig að ég mátti til að endurnýja hana og kaupa aðra vél. Ég varð að taka allt að láni. Ég var kominn yfir 1/2 millj., áður en ég vissi af. Þetta getur ekki gengið lengur.“ Það þýðir ekkert fyrir hæstv. ráðh. eða aðra að segja bændunum, hvernig hefur verið búið að þeim. Þeir finna það á pyngjunni sinni. Ráðh. hefur bæði skrifað um það og talað um það hér í d., að ég hafi verið ógætinn með tölur. Nú skora ég á ráðh. að endurskoða þann útreikning, sem ég kom með áðan. Og ég skora á hann að gera annað. Ég skora á hann að athuga það, hvaðan ég fékk tölurnar um þær tekjur, sem bændastéttin hefur annars vegar haft og hins vegar aðrar stéttir þjóðfélagsins á undanförnum árum. Ég get sagt honum það, og hann getur þá rætt þetta við þá aðila. Hann sagði, að ég hefði ekki athugað þetta hér á dögunum, þegar var rætt um þessi mál. Ég fékk þetta nefnilega frá bændasamtökunum.

Ég verð að segja það, að það þarf áreiðanlega að stokka upp í þessum málum, ef þannig fer, sem allir hugsandi menn vona, að breyting verði á í næstu kosningum. Og ég hefði talið, að það lægi ekki á að samþykkja þetta frv., fyrr en menn sæju, hvernig útkoman yrði. Og ég hef greint frá því, að það breytir ekki neinu, vegna þess að það er ekkert fjármagn ætlað til þess að borga það, sem frv. felur í sér, fyrr en við afgreiðslu fjárl. næst, þannig að það var nógur tíminn. En ég vil ekki setja fótinn fyrir frv. vegna félaga minna, sem leggja áherzlu á, að það verði samþ., þó að þetta sé lítilfjörlegt í mínum augum. En ég vil endurtaka það, af því að ég veit ekki, hvort ráðh. heyrði það — hann fór frá áðan að hann sagði hér á dögunum, að hann hefði yfirleitt orðið við óskum Búnaðarþings og bændasamtakanna. Þær brtt., sem ég hef hér flutt, eru eftir óskum þeirra, og þess vegna vonast ég til þess, að ráðh. standi við þær yfirlýsingar sínar að stuðla að því, að þessar brtt. nái fram að ganga, því að ef það væri gert, þá væri annar svipur á þessu frv., þó að í meginatriðum sé ég óánægður með frv., eins og ég hef áður lýst.