14.12.1970
Neðri deild: 30. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 326 í B-deild Alþingistíðinda. (207)

3. mál, Landsvirkjun

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. fjmrh. fyrir svör hans við þeim aths., sem ég gerði hér fyrr á fundinum í sambandi við þetta frv. Hæstv. ráðh. hefur nú upplýst það, sem mig grunaði, þó að ég þyrði ekki að fullyrða það, að það eru engin fordæmi fyrir því, að veitt hafi verið slík ábyrgðarheimild með brbl., sem hér er gert. Það eru engin fordæmi fyrir því að fara hér inn á nýja . . . (Fjmrh.: Ekki fyrir svo hárri fjárhæð.) Ekki fyrir svo hárri fjárhæð. Nei, en fyrir litlum fjárhæðum. Ég bjóst við því líka. En hér er um mjög háa fjárhæð að ræða, 700 millj. kr. Hér hefur verið farið inn á a. m. k. mjög vafasama leið í þessu efni.

Hæstv. ráðh. gaf eina skýringu á því, að þessi leið hefði verið farin, þ. e. að gefa út svo óvenjuleg brbl., að það hefði verið óumflýjanlegt til þess að geta haldið áfram framkvæmdum, sem hafnar hefðu verið. Um það tel ég mig ekki dómbæran, hvort þessi ástæða hafi verið fyrir hendi, en án frekari upplýsinga verð ég að draga það í efa, að svo hafi verið. En í því sambandi og í tilefni af orðum hæstv. ráðh. vil ég spyrja hann um álit hans á því, hvort þessi mannvirkjagerð við Þórisvatn, sem nú er unnið að, hafi verið nauðsynleg vegna Búrfellsvirkjunar, eins og hún er nú fyrirhuguð upp í 210 þús. kw. Við því vildi ég gjarnan fá svar, ef það er á valdi hæstv. ráð. að gefa það. En vera má, að það væri fremur sá hæstv. ráðh., sem fer með raforkumál, sem ætti að svara þessu, en hann er nú ekki hér viðstaddur.

Hæstv. ráðh. virðist hafa misskilið hina síðari aths. mína, sem varðar frv. á þskj. 10, og skal ég þá leyfa mér að endurtaka það, sem ég sagði í meginatriðum. Í þessu frv. eru heimilaðar tvær virkjanir í Tungnaá, samtals um 370 þús. kw., hvað vélaafl snertir. Eins og hæstv. ráðh. sagði, eru í frv. gerðar ráðstafanir til að sjá fyrir fjármagni til annarrar virkjunarinnar. Þetta frv. felur það í sér. Þar er séð fyrir fjármagni til annarrar virkjunarinnar. En heimild fyrir fjármagni til hinnar virkjunarinnar er þar ekki. Og þess vegna var ég að bera það í tal, ef á annað borð er farið inn á þessa leið að veita ríkisábyrgð með brbl. fyrir mjög stórum upphæðum, eins og hér er gert samkv. frv. á þskj. 3, hvort það kynni þá einnig að verða talið eðlilegt og rétt, þegar þar að kæmi, að fyrri virkjuninni væri lokið og menn vildu fara að vinna að hinni síðari, en skorti fé til, að gefa út brbl. fyrir ríkisábyrgð fyrir þeirri upphæð, sem þar yrði um að ræða og er miklu hærri en sú, sem hér er um að ræða. Það var þetta, sem ég var að ræða um, en hæstv. ráðh. virðist ekki hafa skilið, eða mér hefur ekki tekizt að orða þannig, að hæstv. ráðh. áttaði sig fullkomlega á því, hvað það var, sem ég átti við. En fyrir slíkum brbl., sem þá kynnu að verða gefin út, er auðvitað hægt að hafa þau rök, að stefnan hafi verið mörkuð á Alþ. ekki síður en nú — mörkuð með því að veita heimildina fyrir tveimur virkjunum, þó að ekki sé nú séð fyrir fjármunum nema til annarrar virkjunarinnar. Þetta er að mínum dómi alvarlegt mál ekki aðeins vegna þessarar framkvæmdar, sem hér er um að ræða, heldur almennt í framtíðinni, þegar um slíkar ríkisábyrgðir er að ræða, og finnst mér, að Alþ. og ríkisstj. ættu að hafa þá reglu að nota ekki þá heimild, sem þær kunna að hafa í stjórnarskránni — nokkuð ótakmarkaða — til þess að gefa út brbl. fyrir ríkisábyrgðum í sambandi við mjög miklar fjárhæðir.