25.03.1971
Neðri deild: 69. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1906 í B-deild Alþingistíðinda. (2074)

222. mál, Stofnlánadeild landbúnaðarins

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Umr. um þetta frv. hafa þegar orðið alllangar og ekki ástæða til að bæta miklu við, enda dagur að kvöldi kominn. Frv. virðist vera unnið samvizkusamlega af þeirri n., sem hafði það verkefni með höndum. N. hefur orðið sammála í meginatriðum, og ályktun Búnaðarþings er eftir atvikum ótvírætt því til stuðnings. Það hefur verið drepið á það, að II. kafli frv. sé nokkuð forn að orðalagi og framsetningu. Hann er raunar lítt breyttur frá ákvæðum eldri l., en það vill oft verða, að þegar ákveðið orðalag kemst einu sinni inn í löggjöf, þá helzt það tíðum óbreytt eða litt breytt lengi. Gildir þar um hið fornkveðna, að „smekkurinn sá, sem kemst í ker, keiminn lengi á eftir ber.“ Það er að sönnu rétt, að það eru sum ákvæði í II. kafla frv. þannig, að e..t.v. mætti færa þau til venjulegra máls. Ég dett hér niður á 18. gr., sem er dálítið óvenjuleg, hvað framsetningu snertir miðað við venjulega löggjöf, en skilst þó vel og ekki ástæða til þess að fara um það fleiri orðum.

Hinir kaflarnir, seinni kaflarnir; fjalla um stjórn landnámsmála, um verksvið Landnáms ríkisins, byggðahverfi, nýbýli utan byggðahverfa o.s.frv. Á þeim hafa verið gerðar meiri breytingar, en þær, hygg ég, að horfi yfirleitt til bóta. Geri ég ekki ráð fyrir því, að þeir, sem hafa talað hér um frv. og fjölyrt nokkuð um einstök ákvæði þess, ætli sér með því að bregða fæti fyrir það, því að tvímælalaust má telja samþykkt þess til bóta. Ég vek athygli á ákvæði 62. gr., sem er nokkuð sérstaks eðlis, um óendurkræft framlag til íbúðarhúsabygginga. Það hefur lengi legið í loftinu, að það framlag, sem verið hefur 60 þús. kr., þyrfti að hækka. Hafa ýmsir minnzt á það. í frv. er það hækkað um helming upp í 120 þús. kr. Það er rétt, að gjarnan mætti þetta framlag hækka meira, en ég tel þetta þó svo verulegan ávinning frá því, sem gilt hefur, að það sé ekki áhorfsmál, að það horfi til bóta og því beri að hraða afgreiðslu málsins. Ég ætla ekki að fjölyrða frekar um einstakar gr. frv., þó að ástæða væri til. Það væri gaman að fjalla um það frekar, en í heild tel ég, að það sé til bóta. Alít ég, að við ættum allir að stuðla að samþykkt þess sem fyrst í þessari hv. d.