23.11.1970
Efri deild: 20. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1930 í B-deild Alþingistíðinda. (2169)

109. mál, verslun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf

Flm. (Jón Árm. Héðinsson):

Herra forseti. Ég sé ástæðu til að þakka hæstv. fjmrh. mjög góðar undirtektir undir frv. jafnframt því, sem ég verð að biðja hann afsökunar á því, að mér var ekki kunnugt um, að hann hafði flutt þetta hér áður í d., ella hefði ég greint frá því.

Það er ljóst, að fjárhagslegir hagsmunir blaða og kvikmyndahúsa koma hér til sögunnar, en þá verður að leysa á viðunandi hátt fyrir þessa aðila og gera dæmið upp. Við sjáum aðeins aðra hliðina með þessu móti. Við getum á margan hátt fengið meira af dollurum, ef við viljum leggjast svo lágt að taka við þeim, með hvaða hætti sem vera skal. Þá er hægt að benda á margar leiðir til þess; það er ekkert vandamál. En það eru margar leiðir svo illfærar, að það er ekki víst, að allir kæri sig um að standa saman um þær leiðir og fást við þær afleiðingar, sem slík vinnubrögð skapa. Um það deilir enginn maður.

Á s.l. 14 árum hafa fundizt hér 264 tilfelli af lungnakrabba, og læknar fullyrða, að 94% stafi af reykingum. Það er ekki lítill kostnaður, sem heilbrigðisyfirvöldin verða að leggja í til þess að sjá þessum sjúklingum fyrir öryggi og eðlilegum aðgerðum. Ætli það nemi ekki tugum milljóna? Nei, margt annað mætti fjalla um, en Alþ. ber að ráða fram úr þeim fjárhagslega vanda, ef kvikmyndahús og blaðakostur eru svo illa stödd, að eigi sé kostur á öðru til að halda í þeim lífinu en þiggja þessar auglýsingar. Það vandamál verður þá að taka sérstaklega fyrir. Máttur fjármagnsins í svona auglýsingaherferð er auðvitað gífurlegur, og menn falla fyrir gullinu. Það er ekkert nýtt. En þetta mál er þó þannig, að það snertir heilsu manná og heilsu ungmenna. Að hvetja menn til fíknilyfjanotkunar er alvarlegra en svo, að við getum látið það fara fram hjá okkur.

Það er athyglisvert að heyra það, að áletrunin beri ekki tilætlaðan árangur, og það væri gaman að hafa tækifæri til að ræða við forstjóra tóbakseinkasölunnar um þetta mál. Hann lagði sig í líma við það að leysa þetta vandamál, og hann mun áreiðanlega leggja sig fram aftur við að benda okkur á leiðir í staðinn. Ef hæstv. fjmrh. er reiðubúinn til þess að nota þessa fjárupphæð til mótvægis á móti áróðrinum, er það líka verulega athyglisvert spor að nota þá peninga í sjónvarpið. Ég þakka sem sé hæstv. ráðh. fyrir góðar undirtektir.