05.04.1971
Neðri deild: 88. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1936 í B-deild Alþingistíðinda. (2183)

109. mál, verslun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Ég á nú sæti í heilbr.- og félmn. Nd., og ég skrifaði undir nál. með fyrirvara, og mér þykir rétt að gera grein fyrir því, hvers vegna ég skrifaði undir með fyrirvara. Mér finnst að þetta frv. gangi í sjálfu sér allt of skammt.

Það er sagt hér, eins og hefur komið fram, að 1. gr. hljóðar aðeins þannig:

„Allar auglýsingar á tóbaki í blöðum, útvarpi, sjónvarpi og utandyra skulu bannaðar.“

Í fyrsta Lagi er ekki getið um kvikmyndahúsin í þessari till., og hún nær ekki til þeirra, og fyrir nokkrum dögum ... (Forseti: Ég vil vekja athygli þm. á því, að frv. var breytt við 2. umr. í Ed. og hér er þskj.) Forseti hefur nú bent mér á það, að frv. hafi verið breytt í Ed., en ég hafði það þskj. ekki hér við höndina. En það, sem mér fannst þó aðallega skorta á þetta, var það, að hér flæða inn í landið blöð með svona auglýsingum bæði áfengis- og tóbaksauglýsingum. Ég vakti athygli á þessu og sagði, að ég mundi e.t.v. koma fram með brtt. við þessa umr. þess efnis að banna sölu allra blaða með tóbaks- og áfengisauglýsingum. En við mig hefur haft samband ungt fólk, sem hefur óskað eftir því, og talið að með þeirri till. mundi þessu frv. verða stefnt í hættu, þar sem tími þingsins er nú litill hér á eftir. Þess vegna hef ég ekki borið fram neina brtt. við frv., þó að ég sé óánægður með það og ég telji, að það nái allt of skammt. Ef þetta frv. gefur góða raun, þá tel ég, að það sé ekki síður ástæða til þess að banna sölu á slíkum erlendum blöðum, sem flæða yfir landið, og vil vekja athygli á því í sambandi við afgreiðslu þessa máls, að það er það, sem þarf að gera einnig.