07.04.1971
Efri deild: 97. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1948 í B-deild Alþingistíðinda. (2200)

109. mál, verslun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf

Frsm. Jón Árm. Héðinsson):

Herra forseti. Það hefur nú atvikazt þannig í vetur, að það hafa orðið allmiklar umr. um tóbak og áhrif þess bæði í Sþ. og í báðum d. Tilefni þess, að málið er enn einu sinni tekið upp á hv. Alþ., er án efa barátta ýmissa manna sérstaklega úr læknastétt og svo einnig ýmissa áhugamanna fyrir því, að menn átti sig á því almennt, hversu hættuleg notkun á tóbaki er, þegar um vindlingareykingar er að ræða. Það er ómótmælanleg staðreynd, sem berst víða að úr heiminum og rennir stoðum undir það, að ofnotkun á þessu eða viss notkun er stórhættuleg mönnum og sú hætta eykst bæði hér á landi og annars staðar vegna sívaxandi reykinga alls staðar fyrir áhrif frá auglýsingum. Í Bandaríkjunum var bannað um s.l. áramót að auglýsa í sjónvarpi, og það er opinber staðreynd núna, að áhrif þess að hætta að auglýsa vindlinganotkun í sjónvarpi eru þau, að neyzla á sígarettum hefur hraðminnkað. Það má segja, að hér sé aðeins stigið fyrsta skrefið með því að gera þessar aðgerðir hér. Í Englandi, Noregi, Danmörku og Svíþjóð er undirbúningur að miklu, miklu viðtækari auglýsingabönnum en hér er lagt til, og það getur vel farið svo, að þessi tímarit, sem hv. ræðumaður benti á, komi hér innan skamms án nokkurra auglýsinga um glæsileika í sambandi við notkun á tóbaki. Það er miklu fremur heiður að því að vera á undan en á eftir í heilbrigðisráðstöfunum, og mér hefur skilizt að undanförnu á Alþ., að það væri mikill vilji á því, að heilbrigðisþjónusta á Íslandi teldist góð. Ef menn aðeins gætu komið í veg fyrir það, að tveir til þrír unglingar á ári féllu fyrir tóbaksnotkuninni, tel ég tilganginum náð með þessu frv., því að það er staðreynd, ómótmælanleg staðreynd, sem ég vefengi ekki og læknar hafa bent á, að 5–10 menn falla úr lungnakrabba hér árlega, því miður.

Hér er líka stigið merkilegt skref í þá átt að í fyrsta skipti er varið ákveðnum hluta af brúttótekjum Áfengisverzlunar ríkisins til þess að auglýsa skaðsemi tóbaks. Þetta er virkilega athyglisvert skref, og ég vænti þess miðað við það, sem skeð hefur hér í hv. d. og einnig í Sþ., að það spyrjist ekki um hv. Alþ. nú í þinglok, að sú ákvörðun verði tekin þvert ofan í það, sem þegar hefur verið gert, að kaffæra svo merkilegt mál. Það yrði saga til næsta bæjar. Ég tel ekki, að of mikið hafi hér verið gert úr gildi auglýsinga fyrir íslenzku dagblöðin, en aumt er prentfrelsið á Íslandi, ef það stendur og fellur með því að lúta tóbaksauðveldinu eins lágt og það getur. Þá eru það litlir karlar, sem sitja hér á Alþ., að geta ekki treyst okkar prentfrelsi betur, ef þetta er staðreynd. Tekjur eru auðvitað nauðsynlegar, hvaðan sem þær koma til dagblaðanna, en ef dagblöð á Íslandi eiga að standa og falla með því að fá auglýsingatekjur upp á 5–6 millj. kr., þá mættu sumir hér ganga heim og láta ekki sjá sig framar.