26.10.1970
Neðri deild: 5. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 2091 í B-deild Alþingistíðinda. (2237)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir o.fl.

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Allt það, sem hv. síðasti ræðumaður sagði um þetta mál, er að mínum dómi rétt nema það, að till. á þskj. 45 sé gagnslaus. Ég álít, að hún horfi til þess að kippa þessum málum í lag í framtíðinni, til frambúðar. Ég er hins vegar sammála honum um það, að ekki má líða langur tími, áður en hafizt er handa í þessum efnum. Skal ég skýra frá í örfáum orðum, hvað gert hefur verið.

Það hefur að sjálfsögðu verið leitað í sjútvrn. og þar eru svör frá hæstv. ráðh. og ráðuneytisstjóra þau, að ekki sé unnt að láta til skarar skríða í þessum efnum fyrr en umsögn er fengin frá Fiskifélagi Íslands og Hafrannsóknastofnuninni. Þeir telja sig m.ö.o. ekki hafa nógu sterka heimild í landgrunnslögunum til þess að setja um þetta reglur nú þegar.

Þá hefur verið reynd sú leið að leita til samgmrn., ef vera mætti, að hægt væri að setja ákvæði um þetta efni í hafnarreglugerð. En þá hefur það komið í ljós við eftirgrennslan, — þó að merkilegt megi virðast, — að ákvæði í hafnalögum virðast ekki vera það skýr, — þó að lögin séu ekki eldri en frá 1967, — að það muni ekki vera hægt að setja ákvæði í hafnarreglugerð um þessi efni, þ.e.a.s. veiðar á hafnarsvæðunum. Þetta er harla undarlegt, og virðist vera ástæða til þess að athuga ákvæði hinna tiltölulega nýju hafnalaga nánar. Á hinn bóginn vil ég skýra frá því, að til eru lög nr. 6 frá 1888 um bátfiski á fjörðum. Samkv. þeim, og jafnframt með heimild í lögum nr. 86 frá 1917, er sýslunefndum og hreppsnefndum heimilt að setja svokallaðar fiskveiðisamþykktir, og við lestur þeirra laga virðist mér, að ákvæði þeirra megi nota í þessu tilviki, þ.e.a.s. þau henti þarna mjög vel. Þetta eru að vísu hvort tveggja lög, sem lengi hafa verið í lagasafni lítt notuð, að ég ætla. Á þau hefur ekki reynt líklega í nokkra áratugi, en ég hef borið mig saman við sjútvrn. og reyndustu menn þar í þessum efnum. Telja þeir, að ákvæði þessara gömlu laga geti hentað til þess að stöðva þessar veiðar. Þetta hefur þegar verið tilkynnt ráðamönnum í hreppsnefnd Stykkishólmshrepps, þannig að ég ætla og vona, að hreppsnefndin geti hið fyrsta boðað til fundar samkv. ákvæðum nefndra laga, gert fiskveiðisamþykkt, fengið hana samþykkta með 2/3 hlutum atkv., síðan staðfesta af rn. Ætti þá að vera hægt að láta reyna á þetta allra næstu daga.